,,Ég hafði verið í verktakabransanum lengi og var starfsmannastjóri hjá stóru verktakafyrirtæki. Upphaflega ætlaði ég bara að vinna hjá SÁÁ í afleysingum“
Hjalti Björnsson hefur starfað hjá SÁÁ í tæp þrjátíu ár og er nýlega tekinn við starfi dagskrárstjóra á Vík á Kjalarnesi þar sem framundan er uppbygging nýrrar og glæsilegrar meðferðarstöðvar á landi samtakanna. Hjalti hefur lengi verið forystumaður í hópi áfengis- og vímuefnaráðgjafa og var í fararbroddi í baráttu ráð gjafanna fyrir því að fá starfsheiti og starfssvið löggilt. Í SÁÁ blaðinu sem kom út 20. mars sl. var rætt við Hjalta um ráðgjafastarfið og hlutverk ráðgjafanna í meðferðinni hjá SÁÁ.
“Ég byrja að vinna hjá SÁÁ 1. febrúar 1987. Þá var fyrirtækið tíu ára; ákveðin hugmyndafræði og þekking var orðin til og meðferðin nokkuð fastmótuð. Frumherjarnir voru flestir enn að vinna, fólk sem hafði verið í meðferð í Ameríku og lærði áfengisráðgjöf þar, þannig að ég kem inn í frjótt og skapandi umhverfi og það var gott að vera yngstur og með minnsta reynslu og þekkingu því það var tekið vel á móti mér og haldið vel utan um mann.
Ég hafði verið í verktakabransanum lengi og var starfsmannastjóri hjá stóru verktakafyrirtæki. Upphaflega ætlaði ég bara að vinna hjá SÁÁ í afleysingum; ég átti inni mikið orlof og ætlaði að nýta það til að prófa að vinna hjá SÁÁ og ná mér í aukapening. Ég hafði alltaf fylgst af áhuga með starfi SÁÁ vegna persónulegrar reynslu af áfengissýki. Sú reynsla átti mikinn þátt í að vekja hjá mér áhuga á starfinu en fljótlega eftir að ég kom til starfa komst ég að því að áhugi, persónuleg reynsla og gott hjartalag er ekki nóg fyrir þann sem ætlar að starfa við áfengis- og vímuefnaráðgjöf. Starfið gerir kröfur um annað og meira.
Á þessum tíma voru engin starfsréttindi í boði fyrir áfengisráðgjafa en þá eins og nú fengu ráðgjafar kennslu og handleiðslu hjá SÁÁ. Við fórum mikið á ráðstefnur bæði til Bandaríkjanna og Evrópu og strax á þessum tíma voru samtökin farin að leggja áherslu á að fá hingað til lands sérfræðinga sem voru leiðandi í þessum málum erlendis. Til okkar komu fyrirlesarar og frumkvöðlar eins og Sheila Bloom, John Wallace og Terence Gorski og svo var skipst á ráðgjöfum. Hingað komu ráðgjafar til starfa frá Bandaríkjunum í mánuð og við fórum vestur um haf til að starfa í mánuð. Þórarinn Tyrfingsson yfirlæknir var leiðtogi fyrirtækisins og ákvað snemma að SÁÁ ætti að vera í samfélagi við þá sem eru fremstir og búa yfir mestu og nýjustu þekkingunni. Það væri rétta leiðin til að tryggja gæði í okkar starfi. Ég fann að þessum erlendu gestum og kollegum líkaði vel það sem við vorum að gera og þeim fannst gott að vera í samskiptum við okkur og ég held að þeim hafi líka fundist þetta vera góð uppbygging og gott samfélag og að hér væri verið að vinna að meðferð fyrir heilt þjóðfélag sem var og er einstakt á alþjóðavísu. Þetta var ekki bara einhver þróunaraðstoð þeirra til okkar; ég held að samstarfið hafi alltaf gagnast báðum aðilum.
Viðurkennd heilbrigðisstétt
Það gerðist fljótlega að sá hópur áfengisráðgjafa, sem var við störf á þessum tíma, ákvað að stefna að því að fá viðurkenningu sem heilbrigðistétt. Það var mikilvægur áfangi að þróa þetta fag úr því að vera það sem kallað var áfengisleiðbeinendur og var litið á sem hálfgerða áhugamenn – AA menn með persónulega reynslu og gott hjartalag – og yfir í það að verða heilbrigðisstétt sem veitir meðferð sem byggist á vísindalegri nálgun og gagnreyndri þekkingu en ekki einhverju kukli eða heilun sem enginn getur útskýrt. Það var svo 1996 að við stofnuðum Félag áfengis- og vímuefnaráðgjafa (FÁR) og fórum að ýta markvisst á stjórnvöld um að þau settu reglur og viðurkennda umgjörð um þetta fag.
Voruð þið að elta alþjóðlega þróun í því efni?
“Bæði og. Þessi stétt er til í litlum mæli í Norður-Evrópu, t.d. í Finnlandi. Þar í landi er stofnun sem heitir A-Clinic. Hún er keimlík SÁÁ og með álíka mikinn rekstur, byggist á læknisfræðilegu módeli eins og SÁÁ og er með vandaða starfsemi. En fyrirmyndir okkar hafa alltaf verið mjög tengdar því sem er að gerast í Bandaríkjunum. Við náðum mikilvægum áfanga árið 2000. Þá fór ég sem formaður FÁR á ráðstefnu í Portland, Oregon og hitti réttindaráð NAADAC, samtaka áfengis- og vímuefnaráðgjafa í Bandaríkjunum. Eftir það kom fólk þaðan hingað til lands, tók út okkar starfsemi og fór að leggja okkur lið en þá var orðið aðkallandi fyrir hópinn að fá viðurkenningu á starfsréttindum og fagmennsku. Þremur árum síðar fengu fjórir af okkar ráðgjöfum þessi NAADAC réttindi eftir að hafa staðist bandaríska prófið og næstu árin voru að minnsta kosti 3-4 ráðgjafar frá okkur að spreyta sig við ameríska prófið á hverju ári.
Árið 2006 kom svo að því að þáverandi heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, setti reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuvarnaráðgjafa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Þá hafði embætti landlæknis mælt með löggildingu starfsheitis og starfssviðs áfengis- og vímuefnaráðgjafa og landlæknir gert tillögur til ráðuneytisins um nauðsynlega undirbúningsmenntun.
Ráðherrann staðfesti þær tillögur og um leið og reglugerðin var undirrituð við athöfn þar sem ég var viðstaddur var staðfest námskrá sem strax var farið að vinna eftir. Um leið var ákveðið að stofna fagráð um áfengisráðgjöf og skipulag þess tók mið af því sem var að gerast í Bandaríkjunum ekki síður en hér.
Þrátt fyrir þetta voru ekki gefin út réttindi fyrir okkur alla sem vorum búnir að vinna við þetta árum saman heldur vorum við sendir í próf þar sem við féllum, allir nema einn.
Þá var sett af stað massíf kennsla í hálft ár og síðan annað próf og því náðu flestir. Það var langt liðið á árið 2007 þegar við fengum réttindin. Við vorum í fyrstu harmi slegnir að hafa vera settir aftur undir smásjána en eftir á að hyggja var það ágætt, faglegt og gott.
Þótt löggilding hér heima væri komin í höfn hélst áhuginn á NAADAC prófinu og enn taka um 50% þeirra sem fá réttindi frá okkur bandarísku réttindin, sem mér finnst sýna að mikill faglegur metnaður einkennir okkar hóp. Við leggjum ennþá áherslu á að rækta alþjóðleg tengsl. Núna í apríl er formaður NAADAC, sem er doktor í sálarfræði og vinnur við kennslu og handleiðslu ráðgjafa á meðferðarstöð, að koma til landsins á vegum FÁR og halda námskeið fyrir okkur.”
Meðferð og ekki meðferð
Þú nefndir áðan að áhugi, eigin reynsla og gott hjartalag væri ekki nóg til að verða góður ráðgjafi. Hver er faglegur grunnur ráðgjafastarfsins?
“Þegar talað er um meðferð þá er hún eingöngu veitt hjá SÁÁ og á Landspítalanum.
Starfsemin á þeim tveimur stofnunum, og hvergi annars staðar, er það sem kallað er meðferð og er hluti af íslenska heilbrigðiskerfinu undir eftirliti landlæknis og veitt af löggiltum heilbrigðisstarfsmönnum, þar á meðal áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Meðferðin hjá SÁÁ byggist á mikilli læknisfræði og bestu og nýjustu gagnreyndri þekkingu á því sviði en hún hefur verið að breytast mikið á síðustu árum. Öll meðferðin er á ábyrgð læknanna en það eru alltaf fjórir til fimm læknar í fullu starfi hjá SÁÁ.
Áfengis- og vímuefnaráðgjöf er sérhæft fag, hún er ekki sálfræðiþjónusta eða félagsráðgjöf heldur sérhæfð meðferð sem miðar að því að hjálpa alkóhólistum og fíklum að ná tökum á fíkn sinni. Þótt þetta sé merkilegt og mikið starf er það tiltölulega einfalt; við erum að koma fólki í jafnvægi. Læknarnir afeitra það og við eigum að geta greint ef eitthvað er að fara úrskeiðis við afeitrunina og ekki að ganga eðlilega fyrir sig; þá þurfum við að hafa yfirsýn yfir hvað hægt er að gera. Við eigum til dæmis að geta kennt fólki að sofa án svefnlyfja, að fást við kvíða án þess að taka lyf eða drekka og við eigum að þekkja fíkn og fíknvaka út og inn og hafa ráð við því fyrir sjúklinginn. Engar aðrar stéttir eru sérhæfðar í þessu, ekki félagsráðgjafar og ekki sálfræðingar, við erum að gera hluti sem eru sérstakir fyrir þetta fag, það er sérstaða stéttarinnar.
Fólk sem gagnrýnir þetta veit oft lítið um hvað áfengisráðgjöf er og talar eins og hún sé léleg sálfræðiþjónusta. En hún er í raun góð og sérhæfð heilbrigðisþjónusta fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Það má segja að starf ráðgjafa við meðferðina hjá SÁÁ skiptist í tvennt. Á Sjúkrahúsinu Vogi fer fram afeitrun og greining, þar kemur læknisfræði mjög mikið við sögu og einnig byrjandi meðferð þar sem verið er að finna út hvaða meðferð henti eða gæti hentað viðkomandi. Við ráðgjafarnir vinnum í þverfaglegum teymum með læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og meðferðin er einstaklingsmiðuð að því leyti að það er farið yfir meðferð og stöðu hvers einstaklings á tveimur fundum á hverjum degi.
Hins vegar fer fram endurhæfing á Vík og Staðarfelli og á göngudeildum. Þar er veitt meðferð sem miðar að lyfjalausum bata og varanlegu bindindi og er að langmestu leyti í höndum ráðgjafa en á ábyrgð lækna. Í göngudeildarmeðferð er stundum um að ræða stuðning í hópum og viðtölum í heilt ár og jafnvel lengur. Margir eru lengi að ná tökum á fíkninni og eiga fullt í fangi með það eina verkefni í svo langan tíma. Til þess að ná markmiðunum um lyfjalausan bata og varanlegt bindindi er fyrst og fremst beitt ákveðinni tegund af huglægri atferlismeðferð, sem við erum þjálfuð í og sem er einföld og skemmtileg aðferð fyrir sjúklingana. Önnur aðferð sem við beitum mikið er svokölluð áhugavekjandi samtalstækni og margs konar önnur viðtalstækni.
Við kennum fólki ákveðnar aðferðir til að takast á við og leysa ýmis vandamál. Það er mikil fræðsla veitt og kenndar ákveðnar aðferðir til að takast á við og leysa vandamál. Sömu aðferðirnar skila ekki jafngóðum árangri í vinnu með öllum einstaklingum og fólk er látið æfa það sem við kennum í samtölum og samskiptum. Þetta eru í raun miklar þjálfunarbúðir, meðferðin á Staðarfelli og Vík.
Við notum það sem við köllum dagsáætlun og er kannski eitthvað skylt því sem aðrir nota um önnur hugtök eins og markþjálfun eða eitthvað annað. Dagsáætlun er heildstæð áætlun sem tekur á öllum þáttum lífsins hjá einstaklingnum, allt frá svefni og mataráætlun og yfir í markmiðasetningu. Það sem kallað er núvitund er hluti af því. Við notum ýmsar aðferðir sem eru náskyldar því sem aðrir nota og þjálfunin er sambærileg við það sem aðrir beita, til dæmis í hugrænni atferlismeðferð. En ef sú greining sem gerð er á sjúklingi í meðferðinni bendir til að hann þurfi sérhæfða þjónustu vegna geðrænna veikinda eða annarra orsaka þá vísum við fólki á viðeigandi bjargir og úrræði innan heilbrigðiskerfisins hverju sinni.
„Best practice“
Síðast en ekki síst er meðferðin byggð á þeim þekkingargrunni sem hefur orðið til, reynsluþekkingu sem er fengin með klínískri reynslu og sem er kölluð „best practice“. Við sem höfum unnið við þetta lengi erum stöðugt að hugsa um hvað virkar og hvað ekki og hvers vegna þessum batnar en hinum ekki.
Það er margvíslegur misskilningur í gangi um meðferðina, til dæmis að ráðgjafarnir veiti einhvers konar félaga- eða jafningjastuðning. Ekkert slíkt er hluti af okkar starfi. Auðvitað er meðferðarsamband milli ráðgjafa og skjólstæðings gríðarlega mikilvægt eins og í öllum meðferðum. Margar rannsóknir sýna að meðferðarsamband er það mikilvægasta til að hvetja fólk til að breyta sér og hegðun sinni og áfengis- og vímuefnasjúklingar þurfa svo sannarlega að gera það.
Það hefur stundum heyrst gagnrýni á að okkur menntun sé ekki merkileg og við ráðgjafarnir séum einhvers konar atvinnu AA-menn og hálfgerðir vitleysingar en þótt við séum ekki með fimm ára háskólanám og meistaragráðu þá getur menntun verið af ýmsu tagi og fólk getur aflað sér hennar með ýmsum leiðum. Hjá okkur byggist hún á klínískri kennslu inni á stofnun undir handleiðslu mentors. Hún þarf ekki að vera verri fyrir vikið og það er engin trygging fyrir góðri fagmennsku að fólk hafi sótt sér menntun í háskóla. Það dugar skammt ef fólk nær ekki að temja sér gott siðferði í starfi og lætur sér ekki annt um það hvernig öðru fólki reiðir af sem er ein helsta forsendan fyrir góðu meðferðarsambandi. Það er erfitt að kenna það. Og þótt margir ráðgjafar séu AA-fólk hefur það ekkert með meðferðina að gera eða starf áfengis- og vímuefnaráðgjafa. AA prógrammið er ekki hluti af meðferðinni og SÁÁ er allt annar hlutur en AA samtökin þótt AA og fleiri 12 spora samtök kynni sig og sína starfsemi á meðferðarstöðvunum. Það er einungis gert vegna þess að rannsóknir sýna að sjúklingum vegnar betur eftir meðferð ef þeir taka þátt í slíku starfi.”
—
Viðtalið birtist í SÁÁ blaðinu, 1. tbl. 2016, en því var dreift í hús á höfuðborgarsvæðinu 22. mars og er einnig einnig aðgengilegt í pdf-skjali hér á saa.is.