Það voru verðandi foreldrar sem hrepptu síðasta, en fjarri því sísta, lottópottinn á liðnu ári. Þau voru ein með allar tölurnar réttar og fengu rúmar 90,2 skattfrjálsar milljónir í sinn hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá.
„Stóri vinningurinn kemur sér svo sannarlega vel. Ekki aðeins vegna allra jólareikninganna heldur vegna þess að fólkið, sem er á fertugsaldri, er nýlega búið að selja íbúðina sína og er einmitt að leita að rúmbetra húsnæði fyrir stækkandi fjölskyldu,“ segir í tilkynningunni.
Í samtali við Íslenska getspá sögðust þau hafa haft lúmska tilfinningu um að þetta væri þeirra dagur, tóku upp símana sína og keyptu bæði miða í lottóappinu. Hann var með vinningsmiðann sem innihélt sjö raðir og valdi hann tölurnar sjálfur. Kostaði miðinn 1.050 krónur.
„Þegar þau fréttu að vinningurinn hefði komið á miða sem var keyptur í appinu urðu þau bæði furðulega viss um að einmitt þau hefðu unnið, en greindi þó aðeins á um hversu mikil geðshræringin var í raun þegar góðu fréttirnar voru staðfestar. Eins og áður sagði kemur stóri vinningurinn sér einstaklega vel en Íslensk getspá hefur einnig boðið vinningshöfunum ókeypis fjármálaráðgjöf.“
Starfsfólk Getspár/Getrauna óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.