Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hafnað tilraun Tálknafjarðarhrepps til að nýta byggðakvóta til eflingar annars atvinnulífs en sjávarútvegs. Ekki virðist vera lagaheimild til staðar sem heimili slík ákvæði. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri birtir á vef Tálknafjarðarhrepps.
Hrepspnefndin hafði samþykkt í síðasta mánuði að setja sem skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að þeir sem kvótann fengju féllust á að greiða 20 kr/kg sem renna skyldi í sjóð til uppbyggingar dvalarheimilis á Tálknafirði.
En önnur skilyrði fyrir úthlutun kvótans eru óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári, löndunarskylda er í Tálknafjarðarhöfn, vinnsluskylda innan byggðarlaga í Vestur – Barðastrandarsýslu, 30% aflaheimilda skipt jafnt milli þeirra útgerða sem sækja um byggðkvóta og 70% skipt hlutfallslega. Fiskistofa mun fljótlega auglýsa eftir umsóknum um byggðakvóta.
Hér að neðan má lesa tilkynninguna í heild sinni:
Ekki lagaheimild
Eftir stendur að reglur Tálknafjarðarhrepps eru því óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári, löndunarskylda er í Tálknafjarðarhöfn, vinnsluskylda innan byggðarlaga í Vestur – Barðastrandarsýslu, 30% aflaheimilda skipt jafnt milli þeirra útgerða sem sækja um byggðkvóta og 70% skipt hlutfallslega. Fiskistofa mun fljótlega auglýsa eftir umsóknum um byggðakvóta.
Tillögur starfshóps um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta virðast því ekki hafa skilað sér í lög og ástæða til að kanna hvað líður. Það er áhugavert að lesa skýrslu starfshópsins, hana má nálgast hér:https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=f13ff645-67da-11e7-941c-005056bc530c
Í forsendum starfshópsins segir að tryggja þurfi sveigjanleika í ráðstöfun byggðakvóta til að mæta aðstæðum á hverjum stað og stuðla að fjölbreyttum lausnum á vanda minni sjávarbyggða, þ.m.t. uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi ef ekki eru lengur taldar forsendur fyrir sjávarútvegi. Sömuleiðis segir að byggðakvóta sé ætlað að efla atvinnulíf í sjávarbyggðum en ekki einungis rekstur tiltekinna fyrirtækja innan þeirra.
Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri