Stöðufundi vísindamanna með almannavörnum lauk fyrir skömmu og gögn staðfesta að landris heldur áfram við Svartsengi. Land rís um hálfan til einn sentimetra á dag, það er svipaður hraði og eftir síðustu eldgos.
„Þetta segir okkur að kvika heldur áfram að safnast undir Svartsengi,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í viðtali við ríkisútvarpið.
Einar segir að þetta þýði að annað eldgos sé líklegt á næstu vikum. „Ef landris og kvikusöfnun heldur áfram og rúmmál kviku verður svipað og fyrir síðustu gos má búast við svipaðri atburðarás aftur eftir nokkrar vikur með nýju kvikuhlaupi og eldgosi.“
Á vef veðurstofu segir að uppfært hættumatskort verði birt seinna í dag.
Umræða