Áfram gert ráð fyrir að gos geti brotist út
Frá miðnætti í dag 12. mars hafa mælst um 830 jarðskjálftar með SIL sjálfvirku mælakerfi Veðurstofu Íslands. Þar af mældust 17 skjálftar yfir 3,0 að stærð sá stærsti 4,0 að stærð kl. 00:58. Skjálfti af stærð 3,9 mældist kl. 03:51, kl. 05:09 mældist skjálfti af stærð 3,5 og kl. 06:36 mælist skjálfti af stærð 3,8. Virknin var bundin við sunnanvert Fagradalsfjall.
Stærstu skjálftar síðustu 48 klst
4,6 10. mar. 08:50:00 Yfirfarinn 1,6 km SSA af Fagradalsfjalli
4,5 11. mar. 08:53:15 Yfirfarinn 6,3 km V af Grindavík
4,3 10. mar. 15:00:26 Yfirfarinn 2,3 km SSA af Fagradalsfjalli
Í gær 11. mars mældust um 2600 jarðskjálftar sjálfvirkt. Stærsti skjálftinn mældist af stærð 4,6, kl 08:53, alls mældust 29 skjálftar yfir 3 að stærð. Virknin var mest í sunnanverðu Fagradalsfjalli en 4 skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í Eldvörpum.
Lögreglan á Suðurnesjum sendi þá frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Vegna hugsanlegra eldsumbrota á Reykjanesskaga er af öryggisástæðum biðlað til fólks að fylgjast vel með fréttaflutningi um mögulegar takmarkanir á umferð, gangandi og akandi í grennd við Fagradalsfjall. Sérstaklega óskum við eftir því að fólk forðist vegslóða á sama svæði.
Due to possible volcanic eruptions on the Reykjanes peninsula, people are asked for safety reasons to keep a close eye on news coverage of possible restrictions on traffic, both walking and driving in the vicinity of Fagradalsfjall. We especially want people to avoid roads and trails in the same area.
Ze względu na możliwe erupcje wulkanów na półwyspie Reykjanes. Ludzie są proszeni ze względów bezpieczeństa aby uważne śledzic wiadomości o możliwych ograniczeniach ruchu drogowego jak i dla pieszych w okolicy Fagradalsfjall. Policja prosi ludzi aby zostali w bezpiecznej odległości od miejsca, w którym może dojść do erupcji.
Áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út
Eftir því sem núverandi ástand stendur lengur aukast líkur á gosi. Afar litlar líkur eru á því að mögulegt gos nái í byggð.
Uppfært 11.03. kl. 18.50
Veðurstofan hefur notað hraunflæðilíkan til að meta hvert líklegast er að hraun renni frá mismunandi uppkomustöðum eldgoss. Vanalega er líkanið notað til að meta endanlega útbreiðslu hrauns en síðustu daga hefur líkanið verið notað til að fá vísbendingar um hversu hratt hraun gangi fram á fyrstu klukkustundum mögulegs eldgoss.
Hér er komið dæmi úr þessum líkankeyrslum þar sem gert er ráð fyrir að magn kviku sem streymi upp um gosop sé stöðugt og að það gjósi á um 2 km langri sprungu. Sprungan er staðsett yfir því svæði þar sem gögn benda til að kvikugangurinn sé staðsettur nú, þ.e. upp af Nátthaga sem er dalur austan við Borgarfjall. Út frá þeim forsendum sem eru gefnar má gera ráð fyrir að syðsti hluti hrauntungunnar sem rennur í átt til sjávar að Hraunsvík, hafi ferðast um tæpan 1 km á fyrstu 6 klukkustundunum
Hér má sjá hermda útbreiðslu á hraunflákanum eftir að gos hefst. Útlínurnar sýna staðsetningu hraunjaðarsins eftir 30 mínútur (rauð lína), 1 klukkustund (appelsínugul lína), 3 klukkustundir (fjólublá lína) og 6 klukkustundir (blá lína). Í líkaninu er gert ráð fyrir föstum útstreymishraða upp á 300 rúmmetra á sekúndu. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.
Uppfært 11.03. 17.00
Veðurstofan hefur fylgst náið með svæðinu suður af Fagradalsfjalli í dag. Vísbendingar eru um að kvikugangurinn sé að stækka í suðvestur og sé nú kominn í Nátthaga, sem er dalur aðeins austan við Borgarfjall. Mælingar benda til þess að gangurinn sé að færast um 500 metra síðasta sólarhring.
Skjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur haldið áfram og urðu nokkrir kröftugir skjálftar í morgun sem eru svokallaðir gikkskjálftar sem verða þegar spenna losnar sem myndast hefur sitt hvoru megin kvikugangs. Stærsti skjálftinn mældist 4.6 að stærð við Eldvörp rétt fyrir klukkan níu í morgun og fannst nokkuð víða eða allt norður á Akranes og Hvanneyri og austur á Hvolsvöll. Gikksjálftar eru til marks um að þrýstingur er að byggjast upp í tengslum við þessi umbrot syðst í Fagradalsfjalli, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar í samtali við fréttastofu RÚV fyrr í dag. „Þessi stækkun kvikugangsins í suður eru ekki miklar breytingar og breyta ekki þeim sviðsmyndum sem vísindaráð hefur gefið út“, segir Kristín.
Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall er örlítið minni í dag miðað við gærdaginn, en Veðurstofan heldur áfram að fylgjast náið með þróun mála.
Uppfært 11.03. kl. 8.00
Klukkan sjö í morgun höfðu mælst rúmlega 800 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Allnokkrir voru um og yfir 3, sá stærsti var 3,4 að stærð kl. 2:10. Virknin er aðallega bundin við Fagradalsfjall líkt og áður. Mikil smáskjálftavirkni var á milli miðnættis og 3 en enginn gosórói mældist í nótt.
Í gær, 10. mars, mældust um 2500 skjálftar á Reykjanesskaga. Um 40 þeirra voru yfir 3 að stærð, sá stærsti var af stærð 5,1 kl. 3:14.