Sálfélagsleg meðferð hefst samhliða fráhvarfsmeðferð og miðar að bata án vímuefna. Sálfélagslega meðferðin er fólgin í fræðslu um fíknsjúkdóminn, hópmeðferð til að styðja við innsæi, og sérsniðnum verkefnum sem treysta grunninn að breyttum lífsstíl. Áhugahvetjandi samtalið styður sjúklinga til að ná meðferðarmarkmiðum sínum.
Að baki meðferðinni standa áfengis- og vímuefnaráðgjafar sem meta meðferðarþörf og aðstæður hvers og eins í viðtölum og stýra hópmeðferð, sálfræðingar sem meta sálfræðilega stöðu og leggja til leiðir til bata, læknar sem meta lyfjaþörf vegna fráhvarfa og annarra líkamlegra jafnt sem geðrænna kvilla, og hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar sem veita öllum aðhlynningu eftir þörfum.