Kl.00:30 verða lögreglumenn við eftirlitsstörf varir við eld úr fjarska og á leið að vettvangnum þá fara að berast tilkynningar um eld í Seljaskóla í Breiðholti. Lögreglumenn hafa verið við störf í alla nótt.
Allt lið Slökkviliðsins á Höfuðborgarsvæðinu var kallað út að Seljaskóla í Breiðholti þá þegar, vegna elds í þaki skólans. Mikinn eld og reyk lagði yfir Seljahverfi í Breiðholti og Linda- og Salahverfi í Kópavogi. Eldurinn náði að læsa sig í þakinu og mikill reykur lagði frá því fram eftir nóttu en slökkviliðsmenn rifu þakplötur af þakinu til þess að komast að eldinum.
Í nógu var að snúast hjá lögreglu að öðru leiti en m.a. kl.23:02, var aðili handtekinn í verslun í vesturbæ Rvíkur vegna þjófnaðar og jafnframt var hann að veitast að starfsmönnum. Aðilinn gistir nú fangageymslur og viðtal tekið þegar viðkomandi verður hæfur til þess.
Kl.05:02 var aðili handtekinn í heimahúsi í Grafarvogi eftir að lögreglu var tilkynnt um líkamsárás. Aðilinn var undir áhrifum vímuefna og viðtal verður tekið síðar í dag vegna málsins
54 mál/verkefni komu inn á borð lögreglu í nótt s.s. tilkynningar um samkvæmishávaða, pústra hér og þar í borginni, aðfinnsluvert háttalag, vegna ölvaðs fólks sem var sofandi ölvunarsvefni í stigahúsum og eða á götum miðborgarinnar, vegna ofneyslu fíkniefna en því fólki var komið undir læknishendur, minniháttar slysa þar sem fólk hafði fallið fram fyrir sig og hlotið skurði, eignaspjalla, nokkur mál þar bifreiðar voru kyrrsettar en ökumenn þeirra blésu undir mörkum og margt fleira. Þá voru aðilar handteknir vegna fíkniefna og/eða ölvunaraksturs.