Í ársskýrslu slysaskráningar umferðaslysa sem Samgöngustofa gefur út kemur fram að átta létust í umferðarslysum árið 2023. 229 slösuðust í alvarlegum umferðarslysum á síðasta ári en árið 2022 voru þeir 195.
Samanlagður fjöldi látinna og alvarlega slasaðra er 237 og hefur aldrei verið meiri á þessari öld að því er fram kemur í skýrslunni. Áætlaður kostnaður við öll umferðarslys á síðasta ári er að mati Samgöngustofu 78,3 milljarðar króna.
Í skýrslunni er bent á bent er á að í kjölfar heimsfaraldursins hafa slysatölur hækkað ár frá ári sem megi m.a. skýra með því að erlendum ferðamönnum hefur fjölgað á ný og ferðamátar hafa breyst einkum með fjölgun rafhlaupahjóla. Slysatölurnar sýni að ekki hafi tekist að bæta hegðun og viðhorf ökumanna í umferðinni „og ljóst að ökumenn þurfa einnig að líta inn á við ef við ætlum að ná slysatölum niður á ný“, segir í samantekt.
Fram kemur í skýrslunni að slösuðum af völdum ölvunaraksturs fjölgaði á milli ára úr 44 í 55 í fyrra. Fjöldi alvarlega slasaðra vegna ölvunar undir stýri stóð í stað á milli ára eða sjö alls. Enginn lét lífið af völdum ölvunaraksturs í fyrra en einn á árinu á undan. Slösuðum vegna fíkniefnaaksturs fjölgaði á milli ára úr 31 í 41 og alvarlega slösuðum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna fjölgaði úr fjórum í sex.