Karl Gauti Hjaltason, þingmaður flokks fólksins, benti á í gær er var verið að fjalla um fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, að í henni væri verið að skattleggja fátækt.
,,Samkvæmt gildandi skattalögum er persónuafsláttur 53.895 kr. á mánuði. Það þýðir að skattleysismörk á mánuði eru 151.978 kr. miðað við launþega með 4% lífeyrissparnað. Lágmarksframfærsla verður naumast metin undir 300.000 kr. og má telja þá fjárhæð síst of háa miðað við þróun húsnæðiskostnaðar á umliðnum misserum og árum. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tekjuskatt eru tekjur sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu skattlagðar.
Á mæltu máli má segja að verið sé að skattleggja fátækt. Ekkert ríki sem vill kenna sig við velferð getur staðið að slíkri skattlagningu.“
,,Ég vil segja nokkur orð um fjármálaáætlunina fyrir árin 2019–2023 og taka út fyrir sviga nokkra þætti. Fjármálaáætlun er grundvallaráætlun þar sem stefna ríkisstjórnarinnar kemur fram. Þar má sjá forgangsröðun hennar í fjármálum til næstu fimm ára. Það er því mikið undir. Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar var samþykkt í mars sl. og skal fjármálaáætlunin byggð á henni. Fjármálaáætlun er lögð fram af ríkisstjórn fyrir Alþingi eins og sagt er til um í 5. gr. um opinber fjármál. Fjárlög hvers árs eru síðan efsta lagið í þessu samspili öllu, sem eiga auðvitað að aðlagast heildarmyndinni og falla í þær undirstöður sem þessar ályktanir segja fyrir um.
Fjármálaáætlunin er byggð á forsendum um hvernig efnahagslífið hér muni verða í framtíðinni og þar er meðal annars litið til þjóðhagsspár Hagstofunnar um hagvöxt næstu ára. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hagvexti og að núlifandi Íslendingar lifi því lengsta samfellda hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar.
Ýmis teikn eru þó á lofti sem gætu leitt til draumrofs í því sambandi og nefni ég þar nokkur atriði.
Ég nefni hægari vöxt í ferðaþjónustu; gistinóttum fækkaði um 7% í apríl sl. miðað við sama tíma í fyrra.
Ég nefni minnkandi aflaverðmæti sjávarútvegs síðustu misseri þrátt fyrir aukinn afla, en aflaverðmæti dróst saman um 17,3% á árinu 2017 miðað við árið á undan.
Ég nefni aukinn vöruskiptahalla allt frá því í október 2016, hækkandi hrávöruverð og óvissu um launaþróun. Nauðsynlegt er að fylgjast vel með framvindunni hvað þetta varðar. Það góða er altént að vel gengur að greiða niður skuldir ríkissjóðs og er gert ráð fyrir framhaldi á því. Þeir peningar sem við ella greiddum í vexti af þeim lánum eru betur komnir til þarfari hluta. Helstu fjárfestingar eru nýr Landspítali, bygging Húss íslenskunnar, uppbygging ferðamannastaða, þyrlukaup Landhelgisgæslunnar og uppbygging hjúkrunarheimila. Allt hin ágætustu mál.
Það eru ekki bara útgjöldin sem við ræðum hér, það eru líka tekjurnar. Það fær mig til að minnast á eitt mál sem við í Flokki fólksins höfum verið að berjast fyrir, þ.e. frítekjumarkið. Óumdeilt er að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra á að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar, og er eftirsóknarvert af þeim sem vilja og geta unnið lengur. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara. Þetta er því hreinræktað lýðheilsumál fyrir þennan aldurshóp.
Því lagði Flokkur fólksins fram frumvarp í desember 2017 um að greiðslur til ellilífeyrisþega verði ekki skertar vegna atvinnutekna, skv. 23. gr. laga um almannatryggingar.
Núverandi fyrirkomulag, um skerðingar vegna atvinnutekna aldraðra, hefur verið gagnrýnt og hafa komið fram kröfur af hálfu hagsmunasamtaka aldraðra og fleiri aðila um að afnema skerðingar á atvinnutekjur eldri borgara. Dr. Haukur Arnþórsson vann greinargerð um fjárhagslega stöðu aldraðra fyrir Félag eldri borgara í Reykjavík og ritaði grein um þá rannsókn sína í Morgunblaðinu 23. nóvember sl. Þar kemur fram að afnám skerðinga á lífeyrisgreiðslur vegna atvinnutekna þurfi ekki að fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð og vel sé hugsanlegt að ríkissjóður gæti haft fjárhagslegan ávinning af aðgerðinni. Þessu máli hefur meiri hluti velferðarnefndar vísað til ráðherra og þar með tekið það úr þinglegum farvegi með fordæmalausum hætti hér í þinginu að sögn reyndari manna.
Fyrst ég er farinn að nefna mál okkar hér úr Flokki fólksins má ég til með að nefna annað slíkt mál og minnast lítillega á eitt kosningamál okkar, sem er um að tekjur einstaklinga sem ekki ná 300.000 kr. lágmarki verði skattlausar enda hrökkvi slíkar tekjur ekki fyrir lágmarksframfærslu. Stendur Flokkur fólksins að þingsályktunartillögu um þetta efni.
Tillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra geri tímasetta áætlun um að gera tekjur einstaklinga undir 300.000 kr. undanþegnar tekjuskatti og að lagt verði fram frumvarp þess efnis eigi síðar en fyrir árslok 2018. Eðlilegt er að fyrsta skref í átt að þessu markmiði felist í tilfærslu fjár innan tekjuskattskerfisins með því að persónuafsláttur verði stiglækkandi eftir því sem tekjur eru hærri og falli niður við tekjumark sem er einhvers staðar fyrir ofan milljón á mánuði. En út af fyrir sig mætti hugleiða lægri fjárhæð í því sambandi. Sparnaðurinn sem með þessu myndast innan skattkerfisins verði nýttur til að hækka persónuafslátt lægstu tekjuhópanna. Þetta er bara einföld tilfærsla.
Samkvæmt gildandi skattalögum er persónuafsláttur 53.895 kr. á mánuði. Það þýðir að skattleysismörk á mánuði eru 151.978 kr. miðað við launþega með 4% lífeyrissparnað. Lágmarksframfærsla verður naumast metin undir 300.000 kr. og má telja þá fjárhæð síst of háa miðað við þróun húsnæðiskostnaðar á umliðnum misserum og árum. Þetta þýðir að samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tekjuskatt eru tekjur sem ekki hrökkva fyrir lágmarksframfærslu skattlagðar. Á mæltu máli má segja að verið sé að skattleggja fátækt. Ekkert ríki sem vill kenna sig við velferð getur staðið að slíkri skattlagningu.
Þessi þingsályktunartillaga okkar var lögð fram með það að markmiði að fólki verði gert kleift að komast betur af og enginn þurfi að sjá dreginn skatt af tekjum sem duga ekki fyrir nauðþurftum. Þessu máli var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur óskað eftir umsögnum. Er málið þar statt núna.
Ég ætla í þessari umfjöllun minni að fjalla svolítið um innviði, þá sérstaklega um samgöngur og löggæslu. Meiri hluti fjárlaganefndar talar um átak í samgöngumálum sem eitt helsta áherslumál áætlunarinnar og telur að með þeim fjármunum sem verja á til samgöngumála sé komið verulega til móts við mikla viðhaldsþörf og eftirspurn eftir nauðsynlegum úrbótum í samgöngum eins og það er orðað í áliti meiri hlutans.
Fjárveitingar til vegamála hafa verið allt of litlar undanfarin ár og eru nær allir sammála um að stórátak þurfi til að bæta úr. Í fyrirliggjandi fjármálaáætlun, sem hér er til umræðu, er ekki að finna vott af slíku átaki. Samkvæmt áætluninni verða framlög til samgöngumála viðlíka hlutfall af landsframleiðslu á tíma áætlunar næstu fimm árin og þau hafa verið síðustu fimm ár, sem er langt undir þörf. Það liggur fyrir að framlög til samgönguuppbyggingar þurfa að aukast varanlega til að sinna nauðsynlegri viðhaldsþörf og nýfjárfestingu. Þar fyrir utan þurfi átak til að vinna á uppsöfnuðum vanda sem er ærinn eins og margoft hefur komið fram. Samkvæmt áætluninni verða framlög til viðhalds og nýframkvæmda í vegamálum að meðaltali 0,7% af landsframleiðslu á umræddu fimm ára tímabili áætlunarinnar. Er það langt undir langtímameðaltali hér á landi, en þetta hlutfall var yfir 1% á fyrsta áratug þessarar aldar.
Stjórnvöld hafa viðhaft þau orð að verið sé að fara í stórátak í samgöngumálum á næstu árum. Þá yfirlýsingu virðist mega rekja til þess að fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að við bætist sérstök árleg framlög til þriggja ára sem nema 5,5 milljörðum kr. Samgönguframkvæmdir ná þó ekki þessi þrjú ár, að meðtöldum þessum 5,5 milljörðum, langtímameðaltali til samgönguframkvæmda og hljóma því ofangreind orð eins og einhvers konar öfugmæli. Þess má einnig geta að þegar þetta þriggja ára tímabil er liðið fer fjárfestingahlutfallið í vegamálum niður í tæplega 0,6% af landsframleiðslu, en einungis eitt ár á síðustu áratugum hefur hlutfallið verið lægra, en það var árið 2012.
Samtök iðnaðarins vekja athygli á því, í umsögn sinni til fjárlaganefndar, að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafi kynnt nýlega að yfir 220 milljarða kr. vanti í viðhald og nýfjárfestingar í vegakerfinu. Því til viðbótar falli til árleg viðhaldsþörf upp á 11 milljarða, það eru samtals 55 milljarðar kr. yfir tímabil framangreindrar áætlunar. Samtals eru þetta því yfir 280 milljarðar kr. í viðhald og nýfjárfestingar eftir því sem fram kemur í umsögn Samtaka iðnaðarins.
Í áætluninni er gert ráð fyrir að samtals fari um 114 milljarðar kr. í viðhald og nýfjárfestingar í samgöngumálum á tíma áætlunarinnar. Það er einungis tæplega 41% af þörf, segir í umsögn Samtaka iðnaðarins til fjárlaganefndar, þar sem klikkt er út með því að segja að ekki sé hægt að kalla þetta stórátak. Samtök iðnaðarins benda á að vegna vaxtar í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarin ár megi fullyrða að Íslendingar hafi aldrei áður byggt velmegun jafn mikið og nú á vegakerfi landsins. Á sama tíma segja samtökin ríkisstjórnina leggja minna til þessara mála en nokkru sinni fyrr. Beri það merki um ranga forgangsröðun í ríkisrekstri.
Samgöngumálin eru okkur mörgum hugleikin sem vegfarendum. Öll verðum við vör við afar bágt ástand vegakerfisins. Vegirnir í landinu eru að molna niður og kalla alls staðar bæði á viðhald og nýframkvæmdir. Verkefnin eru ærin. Hverjar eru þessar brýnu vegaframkvæmdir? Það þarf að ljúka við Reykjanesbraut frá Hafnarfirði allt upp að flugstöð. Það þarf að ganga á viðunandi hátt frá Grindavíkurvegi.
Það þarf að tvöfalda veginn út úr höfuðborginni um Kjalarnes og svo er það viðunandi frágangur þjóðvegarins upp í Borgarnes. Það er ný Sundabraut. Það þarf að gera ný Hvalfjarðargöng þannig að þau anni sívaxandi umferð. Það þarf að klára Suðurlandsveg um Hellisheiði. Það þarf að ljúka við veginn á milli Hveragerðis og Selfoss svo að viðunandi sé. Það þarf að byggja nýja brú yfir Ölfusá og vegi henni tengda. Hvenær verða þessi brýnu verkefni að veruleika? Því miður virðist vera bið á því.
Útspil ríkisstjórnarinnar er að setja árlega í þennan lið 5,5 milljarða í þrjú ár. Það er gert eftir að núgildandi samgönguáætlun var ekki fjármögnuð að fullu á síðasta ári. Loks er seilst í varasjóðinn. Hann er hálftæmdur, úr honum teknir 4 milljarðar til vegaframkvæmda. Það er sérstakt umfjöllunarefni, þessi meðferð á varasjóðnum, og fleiri hv. þingmenn hafa imprað hér á því.
Að ráðherra geti seilst í varasjóðinn án þess að bera það undir þingið er auðvitað afleitt og að leggja það í hans vald að túlka að skilyrði laganna um opinber fjármál séu uppfyllt fyrir einstökum útgjöldum er ávísun á að varasjóðurinn verði eins og vasapeningur ráðherra þegar redda þarf einstaka málum, óháð því hvort um sérstakar hamfarir er að ræða í hvert skipti.
Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir 7% hækkun á framlögum til málefnasviðs lögreglu og skyldra málefna. Þar undir er líka ákæruvald og landhelgi o.fl.; 7% hækkun að raungildi á næstu fimm árum. Einnig er gert ráð fyrir því að undir þessu séu fjárfestingar; ég nefndi hér áðan þyrlukaup fyrir Landhelgisgæsluna. Hvert leiðir þetta okkur? Þetta leiðir okkur að því að framlög til lögreglu eru ekki að aukast að neinu marki á næstu fimm árum. Það er verið að boða sömu kyrrstöðuna; aukning til rannsókna kynferðisbrota og ekki söguna meir.
Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar þingsins leggur, í áliti sínu um fjármálastefnuna, áherslu á að aukið fjármagn verði lagt til lögreglunnar, m.a. til almennrar löggæslu. Þar kemur einnig fram að enn skorti talsvert fjármagn til lögreglu svo að raungildi náist miðað við árið 2007.
Allsherjar- og menntamálanefnd telur brýnt að auka fjárveitingar til löggæslu, m.a. sökum aukins álags, og að fjölga þurfi lögreglumönnum. Um langt árabil hefur lögreglan í landinu mátt þola fjársvelti svo að öllum viðmiðum um viðunandi mannafla í lögreglu hefur verið varpað fyrir róða árum og jafnvel áratugum saman á sama tíma og verkefnum lögreglu hefur fjölgað. Þau hafa orði flóknari og landsmönnum og ferðamönnum hefur fjölgað verulega en lögreglumönnum hefur ekki fjölgað heldur fækkað.
Áberandi er hlutur löggæslunnar úti á landi sem er fyrir borð borinn. Er skemmst að minnast á mjög svo aðkallandi þörf fyrir lögreglumenn hjá lögreglunni á Suðurlandi vegna tíðra slysa og mikils ágangs ferðamanna á því svæði.
Óhætt er að fullyrða að fjárveitingar til löggæslu séu alls ekki nægilegar til að tryggja lögreglunni þær starfsaðstæður sem nauðsynlegar eru í þjóðfélagi samtímans. Brýn og aðkallandi þörf er á fjölgun lögreglumanna eins og fjölmargar skýrslur bera með sér, t.d. skýrsla innanríkisráðuneytisins frá 2012 um stöðu lögreglunnar þar sem helsti vandi lögreglunnar var talinn fækkun lögreglumanna.
Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi grunnhlutverks lögreglunnar sem er að tryggja öryggi borgaranna, koma í veg fyrir afbrot, rannsaka þau, en einnig þjónustu-, aðstoðar- og hjálparhlutverk hennar, auk samstarfshlutverks hennar sem tengist öðrum stofnunum þjóðfélagsins á fjölmarga vegu. Hef ég þá ekki minnst á almannavarnahlutverk lögreglu.
Miklar og margvíslegar breytingar hafa orðið í samfélaginu síðustu áratugi. Aukin alþjóðavæðing og stóraukin ferðalög og fólksflutningar landa á milli hafa haft í för með sér að störf lögreglu almennt eru orðin erfiðari og margslungnari en fyrr. Samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem kynnt var í október á síðasta ári, er varað við fyrirsjáanlegri þróun á skipulagðri glæpastarfsemi, þar á meðal um alþjóðlega glæpastarfsemi sem hingað teygir anga sína, fíkniefnasölu, mansal, vændi og fleira.
Deildin telur að framhald verði á þeirri þróun og í reynd sé um viðvarandi ástand að ræða. Mikilvægt er að lögreglunni verði gert kleift að skipuleggja störf sín á grundvelli greiningar á þróun mála hérlendis og erlendis þar sem reynt verður að nálgast brot og önnur löggæsluvandamál með það fyrir augum að fyrirbyggja þau. Loks ber að hafa í huga að ógnir eru ekki eingöngu fyrirséðar, lögreglan verður einnig að vera það öflug að hún geti tekist á við óþekktar ógnir sem geta komið upp fyrirvaralaust. Lögreglan þarf því að vera nægilega öflug á sviði öryggismála og svo sveigjanleg að hún hafi burði til þess að bregðast við hættum sem ekki gera boð á undan sér.
Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu, sem lögð var fram til kynningar á Alþingi, vantaði þá 236 lögreglumenn í lögreglulið landsins. Byggðist skýrslan á vinnu nefndar sem skipuð var á grundvelli þingsályktunar frá Alþingi 19. júní 2012. Niðurstaða nefndarinnar var að stórefla þyrfti lögreglu. Í skýrslunni kemur fram forgangsröðun innan lögreglu — og þar var efst á blaði fjölgun almennra lögreglumanna, þ.e. lögreglumanna sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit. Þá mat ríkislögreglustjóri að lögreglumenn þyrfti að lágmarki að vera 860 í landinu. Þar kom fram að fjöldi lögreglumanna árið 2007 hafi verið 712, en þeim hafi fækkað í 624 árið 2012, eða um 88 lögreglumenn. Í skýrslunni kemur fram að talið sé að uppsöfnuð þörf á fleiri lögreglumönnum úti á landi sé 79 manns á þessum tíma og nauðsynlegt sé að fjölga lögreglumönnum á landinu öllu um 236 manns til ársins 2017, eða um nálega 38%. Hver hefur þróunin verið?
Lögreglumenn voru 629 árið 2016 og eru því nánast jafn margir og fjórum árum fyrr. Samkvæmt fregnum munu lögreglumenn í dag vera um 660. Þeir eru enn færri en fyrir 11 árum; það vantar enn yfir 200 lögreglumenn. Þetta hefur verið viðvarandi árum og áratugum saman. Á sama tíma hefur lögreglumönnum fækkað enn frekar ef miðað er við fjölda lögreglumanna á íbúa, en árið 2007 voru 1,6 lögreglumenn á hverja þúsund íbúa en árið 2016 voru þeir orðnir 1,4 á þúsund íbúa.
Nauðsynlegt er að fjárveitingar til lögreglu hækki svo að nægi til að lögreglumönnum verði fjölgað a.m.k. til samræmis við það sem nefndin taldi vera nauðsynlegt árið 2012. Engar vísbendingar eru í fjármálaáætlun um að ríkisstjórnin hafi áætlanir um að ná því takmarki og fremur unnt að segja að langur vegur sé þar frá. Löggæsla í málaflokki sem flokkast undir innviði sem ríkisstjórnin hyggst efla — hver er staða löggæslunnar? Hún hefur árum saman kallað eftir auknum mannskap og bent á mikilvægi sýnilegrar og almennrar löggæslu. Árum saman. Lögreglumenn í landinu eru færri nú en fyrir 11 árum, þá var talað um að það vantaði yfir 200 lögreglumenn.
Ég ítreka kall mitt eftir eflingu lögreglunnar í landinu. Ég ætlaði einnig að minnast á sýslumannsembættin, en tímans vegna virðist ég ekki hafa margar sekúndur í það. Ég kem kannski að því í seinni ræðu minni um þetta sama málefni. En ég ítreka það varðandi sýslumannsembættin að þeim hefur fækkað undanfarin ár, voru 26 fyrir 15 árum, eru níu í dag. Umboðsmönnum framkvæmdarvalds í héraði hefur fækkað verulega og þau hafa veikst. Það eru ekki nægar fjárveitingar til þeirra. Það verður að laga.“