Hæsti hiti dagsins mælist ef að líkum lætur á Suðausturlandi, 23-24 stig
,,Í dag er spáð vestan- og norðvestanátt á bilinu 3-10 m/s. Víða er útlit fyrir bjart veður, en mögulega verða þokubakkar á sveimi við sjóinn, þá einkum við vesturströndina. Það er hlýr loftmassi yfir landinu og hæsti hiti dagsins mælist ef að líkum lætur á Suðausturlandi, 23-24 stig. Kirkjubæjarklaustur er mælistöð sem kemur til greina til að mæla hæsta hitann. Einnig skal nefna að dálítið regnsvæði er væntanlegt inn á norðaustanvert landið í kvöld og rignir í þeim landsfjórðungi á köflum til morguns.“ Segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.
Á morgun, fimmtudag, er útlit fyrir eilítið ákveðnari vind en í dag eða norðanátt á bilinu 5-13 m/s. Ský munu að mestu halda hitanum niðri á Norður- og Austurlandi og líklega einnig á Suðausturlandi. Á Suður- og Vesturlandi ætti að verða bjart og hlýtt. Líklegt er að hæstu hitatölur verði álíka háar á morgun og í dag, eða 23-24 stig á Suðurlandi.
Það þykja alltaf nokkur tíðindi þegar 25 stig eða meira mælast á landinu. Það gerist ekki á hverju ári, til dæmis var hæsti hiti ársins 2018 einungis 24,7 stig sem mældist 29. júlí á Patreksfirði. Seinast mældist meira en 25 stig á landinu í júlí 2017. Eins og lesendur hafa tekið eftir í spánni hér að ofan, þá heggur hitaspáin í dag og á morgun nærri 25 stigunum, það má segja að það sé möguleiki á að það náist, en engan veginn öruggt.
Veðurhorfur á landinu
Við Ísland er 1040 mb hæðasvæði sem hreyfist lítið í dag, en mjakast V á morgun. 500 km SSV af Hvarfi er 1009 mb lægð sem fer NV og grynnist. Yfir N-Evrópu er vaxandi 1007 mb lægð sem kemur inn á Norðursjó í nótt og þokast áfram NV á morgun.
Vestan og norðvestan 3-10 m/s í dag. Víða bjart veður, en líkur á þokubökkum við vesturströndina. Hiti yfirleitt á bilinu 13 til 23 stig, hlýjast á Suður- og Suðausturlandi. Þykknar upp á norðaustanverðu landinu síðdegis, dálítil rigning þar í kvöld.
Norðan 5-13 m/s á morgun. Lítilsháttar rigning norðan- og austanlands í fyrstu, en þurrt þar eftir hádegi. Hiti 7 til 14 stig. Bjart á köflum sunnan heiða og hiti 15 til 24 stig, hlýjast á Suðurlandi. Spá gerð: 12.06.2019 05:37. Gildir til: 13.06.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag:
Norðaustan 5-13 m/s og léttskýjað, en skýjað austanlands. Hiti frá 7 stigum með austurströndinni, en allt að 20 stig í uppsveitum á Suður- og Vesturlandi.
Á laugardag:
Austan 5-10 m/s. Dálítil rigning suðaustanlands. Bjart með köflum á vesturhelmingi landsins, en líkur á skúrum síðdegis. Hiti frá 8 stigum austast, upp í 19 stig á Vesturlandi.
Á sunnudag, mánudag (lýðveldisdagurinn) og þriðjudag:
Útlit fyrir austlæga eða norðaustlæga átt og rigningu með köflum, en yfirleitt þurrt og bjartara um landið vestanvert. Hiti 12 til 18 stig, en svalara austanlands og á annesjum fyrir norðan. Spá gerð: 12.06.2019 07:55. Gildir til: 19.06.2019 12:00.