Klukkan rétt rúmlega 12 í dag var björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði eystra boðuð út vegna slasaðs einstaklings á gönguleið við Urðarhólavatn.
Viðkomandi var í hópi göngufólks, nokkuð utan alfaraleiðar og símasamband ekkert á slysstað. Einn samferðamaður þess sem slasaðist hafði gengið nokkurn spöl til að komast í símasamband og tilkynna um óhappið. Viðkomandi hafði hrasað og óttast var að hann hefði ökklabrotnað.
Björgunarfólk var komið á slysstað rétt um hálftíma eftir að beiðni um aðstoð barst.
Búið var um sjúkling, komið fyrir á börum og hann borinn þannig niður, þar til komið var þangað sem sjúkrabíll frá Egilsstöðum komst.
Vel gekk að koma slasaða göngumanninum þessa leið, og var hann kominn í sjúkrabíl um einum og hálfum tíma eftir að útkall barst.
Meðfylgandi er mynd frá aðgerðum í dag.
Umræða