Framkvæmdastjóri nýrrar lágvöruverðsverslunar segir þegjandi samkomulag ríkja á markaði um útilokun nýrra verslana. Vísbendingar séu um mikla hækkun á hagnaði milli ára hjá samkeppnisaðilum.
Fram kemur á vef ríkisútvarpsins að Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýrrar lágvöruverðsverslunarinnar Prís, lýs yfir erfiðu markaðsumhverfi fyrir þau sem koma nýir inn á matvörumarkað hérlendis.
Þegjandi samkomulag er á markaði um að útiloka ný fyrirtæki
Gréta var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2, þar sem hún sagði stærstu matvörukeðjur landsins fá það mikinn afslátt hjá heildsölum og framleiðendum að það borgi sig jafnvel fyrir Prís að kaupa vörur hjá samkeppnisaðilum, frekar en beint af heildsölu.
Þegjandi samkomulag er á markaði um að útiloka ný fyrirtæki, að sögn Grétu „Við höfum alveg verið beðin um að vera ekki að rugga bátnum. Það gefur okkur alveg vísbendingu um að smásölustigið og heildsölustigið hafi það mjög gott.“
„Auðvitað eiga fyrirtækin að geta rekið sig og skilað sínu. Líka með því að starfsfólk og aðrir séu að borga skatta og það sé virðisauki á vörunum og annað. En það þarf enginn einhvern ofurhagnað eins og þessi fyrirtæki,“ segir Gréta og bendir á að nýjustu uppgjör gefi til kynna að hagnaður hafi aukist mikið milli ára hjá samkeppnisaðilum.