Kjörbúðirnar taka nú upp Prís verð og lækka verð á 200 algengum nauðsynjavörum fram að áramótum. Þessar vörur verða fáanlegar í öllum 18 Kjörbúðunum um land allt, sem flestar eru staðsettar í minni bæjarfélögum.
Í fréttatilkynningu frá Kjörbúðinni kemur fram að vörurnar í Kjörbúðunum verða á sama verði og í lágvöruverðsversluninni Prís á Smáratorg í Kópavogi sem hefur verið ódýrasta matvöruverslunin á landinu samkvæmt mælingum ASÍ frá því hún opnaði.
Prís verð um allt land
Markmiðið með aðgerðinni sé að tryggja að fleiri hafi aðgang að nauðsynjavörum á Prís verði um allt land.
Einnig að hvetja fólk til að versla í sínu bæjarfélagi og styðja við öfluga verslun í heimabyggð.
Óhætt er að segja að fólk á landsbyggðinni fagni lækkuðu vöruverði á matvöru og hefur verið fjallað um það á öllum helstu staðbundnum fréttamiðlum um allt land og m.a. í Víkurfréttum.
Kjörbúðirnar og Prís eru bæði í eigu Dranga hf. en Kjörbúðirnar eru í Samkaupskeðjunni.


