Hugleiðingar veðurfræðings
Það er útlit fyrir rólegt veður víðast hvar á landinu í dag. Áttin suðlæg og allvíða gola að styrk, en reyndar strekkingur vestast. Búast má við éljum á Suður- og Vesturlandi, en bjartir kaflar milli éljanna. Þurrt og bjart veður norðan- og austanlands. Hiti um frostmark. Á morgun dregur til tíðinda. Þá er mjög djúp lægð væntanleg að Hvarfi (suðurodda Grænlands). Sendir hún skil yfir Ísland með sunnan og suðaustan stormi eða roki. Í skilunum er einnig talsverð úrkoma. Á láglendi fer úrkoman fljótlega yfir í rigningu því það hlýnar í veðri og má búast við 3 til 9 stiga hita seinnipartinn. Rigningar- og leysingarvatn getur því valdið vandræðum og rétt er að vera á varðbergi og reyna að forðast vatnstjón. Á fjallvegum má gera ráð fyrir snjókomu eða slyddu fram eftir degi ásamt mikilli veðurhæð. Það þarf því vart að taka fram að á morgun er mjög slæmt ferðaveður. Þegar skilin hafa gengið yfir á vestanverðu landinu annað kvöld tekur við hvöss suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum og það fer kólnandi.
Á þriðjudag er síðan spáð allhvassri eða hvassri suðvestanátt víða um land með éljagangi. Hríðin getur skapað erfið skilyrði fyrir ökumenn, sérílagi á fjallvegum. Á norðaustanverðu landinu er þó ekki gert ráð fyrir úrkomu. Það kólnar smám saman og hitinn yfirleitt kominn undir frostmark síðdegis.
Spá gerð: 13.03.2022 06:34. Gildir til: 14.03.2022 00:00.
Veðuryfirlit
450 km NA af Hvarfi er 980 mb lægð sem fer hægt N og grynnist. Yfir Írlandi er 980 mb lægð sem þokast N og grynnist smám saman. Yfir Nýfundnalandi er ört vaxandi 959 mb lægð sem fer NA.
Veðurhorfur á landinu
Sunnan 3-8 m/s, en 8-13 vestast á landinu. Él á S- og V-landi, annars bjart. Hiti um frostmark. Gengur í suðaustan og sunnan 20-28 m/s á morgun. Slydda í fyrstu, síðar talsverð rigning. Úrkomuminna um landið NA-vert. Hlýnandi, hiti 3 til 9 stig síðdegis. Snýst í allhvassa sunnanátt um landið V-vert annað kvöld með skúrum eða slydduéljum.
Spá gerð: 13.03.2022 10:25. Gildir til: 15.03.2022 00:00.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu
Suðaustlæg átt 3-10 m/s og él. Hiti um eða rétt yfir frostmarki.
Suðaustan 18-25 á morgun með slyddu og síðar talsverðri rigningu. Hiti 2 til 6 stig.
Sunnan 10-15 annað kvöld og skúrir eða slydduél.
Spá gerð: 13.03.2022 10:27. Gildir til: 15.03.2022 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Allhvöss eða hvöss suðvestanátt og éljagangur, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Kólnar í veðri, vægt frost seinnipartinn.
Á miðvikudag:
Ákveðin suðlæg átt með éljum, en áfram þurrt norðaustanlands. Frost víða 0 til 4 stig. Bætir í vind og úrkomu um kvöldið.
Á fimmtudag:
Hvöss suðvestlæg átt og snjókoma eða él víða um land. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Minnkandi suðvestanátt og él, en bjart að mestu norðaustan- og austanlands. Víða vægt frost.
Á laugardag:
Útlit fyrir suðlæga átt og snjókomu eða slyddu. Hlýnar heldur.