2.8 C
Reykjavik
Föstudagur - 27. janúar 2023
Auglýsing

Ásdís Halla Bragadóttir er nýr ráðuneytisstjóri í háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu

Auglýsingspot_img

Nýjar fréttir

Auglýsingspot_img
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur skipað Ásdísi Höllu Bragadóttur í embætti ráðuneytisstjóra í  háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu.

Alls bárust átta umsóknir um embættið sem var auglýst þann 3. febrúar sl. en umsóknarfrestur rann út 28. febrúar. Fjórir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Hæfnisnefnd mat tvo umsækjendur hæfasta til þess að gegna embættinu. Ráðherra boðaði í framhaldi viðkomandi til viðtals og var það mat ráðherra að Ásdís Halla væri hæfust umsækjenda til að taka við embætti ráðuneytisstjóra. Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, var settur ráðuneytisstjóri til þess að annast skipunarferlið.

Ásdís Halla lauk meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla árið 2000 og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2008. Árið 1990 lauk hún BA námi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Ásdís Halla hefur fjölþætta reynslu úr bæði stjórnsýslu og atvinnulífi. Hún var meðal annars bæjarstjóri í Garðabæ í um 5 ár, forstjóri BYKO, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, hefur átt sæti í háskólaráði Háskólans í Reykjavík, háskólaráði Kennaraháskólans og í stjórn NOVA.

Síðustu ár hefur hún komið að stofnun og rekstri farsælla nýsköpunarfyrirtækja í heilbrigðis- og velferðarþjónustu ásamt því að sinna ritstörfum. Þá hefur Ásdís Halla víðtæka reynslu af stefnumótun og áætlanagerð bæði í störfum sínum hjá hinu pinbera og úr atvinnulífinu. Hún hefur mikla reynslu sem stjórnandi, hefur borið ábyrgð á fjölbreyttum rekstri og stýrt fjölda starfsmanna frá árinu 2000. Ásdís Halla hefur góða og fjölbreytta þekkingu á málaflokkum ráðuneytisins, skýra framtíðarsýn fyrir nýtt ráðuneyti og breytt verklag.