Meginorsök banaslyss á Þrengslavegi í júlí í fyrra var skert athygli ökumanns við akstur. Ökumaðurinn var í símanum. Bíllinn var á 142 kílómetra hraða þegar slysið varð.
Ökumaður sem lést eftir bílveltu á Þrengslavegi í júlí í fyrra var ekki með fulla athygli við aksturinn þar sem hann var að nota farsíma. Það er niðurstaða Rannsóknarnefndar samgönguslysa að þetta hafi verið meginorsök slyssins og fjallaði ríkisútvarpið um málið.
Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og var ekki spenntur í öryggisbelti, hann kastaðist út úr bílnum í slysinu og hlaut banvæna áverka. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu á sjúkrahús.
Reiknaður ökuhraði bílsins var um 142 kílómetrar á klukkustund þegar hann fór út af. Í greiningarkafla skýrslunnar kemur fram að ökumaður hafi verið að nota farsíma þegar hann ók norður Þrengslaveg. Ökumaðurinn tók við aksturinn upp myndband, tók ljósmyndir og sendi skilaboð. Einnig kemur fram í skýrslunni að hvorki hafi verið merktar kantlínur á veginn né fræstar rifflur í vegkantinn.
Meginorsök slyssins er því úrskurðuð skert athygli við aksturinn vegna notkunar farsíma. Aðrar orsakir eru hraðakstur, að rifflur hafi ekki verið fræstar í vegkant og að ökumaður hafi ekki verið í bílbelti.