,,Neytendur eru þeir sem ævinlega stórtapa á braskinu“
Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra, birti á vef sínum neðangreinda harðorða og stórmerkilega grein sem upplýsir þjóðina um, hvernig farið er með auðlindir þjóða og fleira og hvernig staðið er að braski á bak við tjöldin:
Kári skrifar: „HEIMABRUGGUÐ STJÓRNSKIPUN“, SAMRUNI ORKU(PAKKA)FYRIRTÆKJA Í EVRÓPU OG MAFÍUSTARFSEMI
Í umræðum á Internetinu og víðar má stundum sjá því fleygt fram að Íslendingar muni ætíð halda orkulindum sínum. Sú fullyrðing er eins mikið öfugmæli og nokkuð getur verið. Oft sést þessu haldið fram í tengslum við orkupakka ESB. Þá virðast sumir líta svo á að innri orkumarkaður Evrópu sé þannig gerður að hann tengist ekki öðrum mörkuðum. Það er að sjálfsögðu einnig rangt.
Þannig er málið vaxið að með fjölgun orkupakkanna eykst sífellt þrýstingur á frekari markaðs- og einkavæðingu[i] orkulinda og orkufyrirtækja. Þegar ákveðinn markaður hefur verið opnaður á þennan hátt er engin leið að stjórna því hvaða braskarar og fjárglæframenn athafna sig á sama markaði.
Glæpabanki, sem t.a.m. hefur orðið uppvís að peningaþvætti, getur vel fjárfest í orkufyrirtæki. Bókstaflega ekkert sem hindrar það. Auk þess má flækja eignarhald nánast í það óendanlega. Á sama hátt getur íslenskur eða erlendur braskari „fjárfest“ í samskonar rekstri. Braskmarkaðurinn er þannig allur samþættur og samofin. Það eina sem þarna ræður för er ágóðavonin, þessi frumstæða hvöt mannsins.
Þróunin er almennt sú, í Evrópu og víðar, að orkufyrirtæki renna saman[ii] og úr verða risafyrirtæki.[iii] Það er nokkuð borðleggjandi að slík fyrirtæki muni á næstu árum gleypa íslenska raforkuframleiðslu, fari svo fram sem horfir. Sú hætta blasir við með innleiðingu orkupakka ESB. Þar með er augljóst að Íslendingar ráða einmitt EKKI sínum orkulindum, og orkumálum, heldur færast þær undir erlend stórfyrirtæki. Íslenskir fjárglæframenn munu svo auðvitað fá „smá bita af kökunni“ líka.[iv] Þetta er „gáttin“ sem íslenskir stjórnmálamenn hafa á undanförnum árum og áratugum smám saman verið að opna.[v]
Margir hafa fylgst með því á undanförnum árum hvernig íslenskar bújarðir hafa safnast á sömu erlendu hendurnar. Það eina sem íslenskir ráðamenn hafa gert í þeim efnum er að fella úr gildi reglugerð sem ætlað var að sporna gegn þessari öfugþróun og setja skilyrði fyrir eignarhaldinu. Halda menn að önnur lögmál gildi um íslenskan orkumarkað? Hvernig er saga HS Orku? Neytendur eru þeir sem ævinlega stórtapa á braskinu, bæði í hækkuðu orkuverði[vi] en einnig þegar braskið leiðir til gjaldþrota. Gróðinn er einkavæddur og tapið þjóðnýtt. Það er í stuttu máli útkoman. Fólk verður að halda vöku sinni, hvað sem viðkemur kórónafaraldri og fleiru. Íslenska valdaklíkan gengur erinda fjárglæframanna – það blasið við.
- „Heimabrugguð stjórnskipun“ og beint lýðræði
Að framan er lýst vandamálum en hverjar eru lausnirnar? Þær felast m.a. í því að færa valdið sem mest í hendur þjóðarinnar sjálfrar – með beinu lýðræði. Það sem þjóðin situr hins vegar uppi með er valdaklíka sem í krafti stöðu sinnar fremur „pólitísk umboðssvik“ í hverju málinu á fætur öðru. Þjóðin á sjálf að ákveða og taka ákvarðanir í veigamiklum málum en ekki eftirláta það „umboðssvikurum“ á Alþingi. Það er kjarni þessa máls. Valdaklíkan vinnur hins vegar að hinu gagnstæða, að minnka enn völd þjóðarinnar.
Það er m.a. gert þannig að „íslenska keisarafjölskyldan“ ræður „meðvirkan“ héraðsdómara í hlutverk „Raspútíns“ til þessa að fikta við stjórnarskrána. Honum er væntanlega ætlað að „dáleiða“ fólk til fylgis við andlýðræðislegar hugmyndir sem komið hafa fram þar að lútandi. Miðað við frammistöðu þessa „Raspútíns“ t.d. í orkupakkamálum er ekki von á skynsamlegu leiðarljósi frá honum. „Keisarafjölskyldan“ bruggar þarna „eitraðan mjöð“ sem hún ætlar síðan næsta þingi og þjóðinni að drekka. „Heimabruggið“ getur þó aldrei orðið öðrum þjóðum fyrirmynd í stjórnskipun eða „útflutningsvara“.[vii]
Rætt er m.a. um að lengja kjörtímabil forseta Íslands svo þjóðin hafi minni aðkomu að endurnýjun á Bessastöðum. Þá sýnast tillögur helst ganga í þá átt að færa þjóðina fjær mögulegum þjóðaratkvæðagreiðslum en ekki nær sem þó er mikið ákall um. Íslenska valdaklíkan reynir þannig allt til þess að styrkja sjálfa sig í sessi.
Svo talar þetta fólk um breyttar áherslur, aukin mannréttindi, aukin réttindi kvenna, aukin réttindi minnihlutahópa o.s.frv. En það er ekkert rætt af viti um það að koma inn í stjórnarskrá alvöru ákvæði um beint lýðræði að svissneskri fyrirmynd. Þar er vert að skoða vel 2. kafla svissnesku stjórnarskrárinnar, 138-142. gr. en þær greinar fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur og skilyrði fyrir þeim.[1]
Síðan er annað mjög umhugsunarvert. Það að fá „Raspútín“ þennan til ráðgjafar kemur spánskt fyrir sjónir út frá hugmyndum um þrískiptingu ríkisvaldsins.[viii] Margir skyldu ætla það það væri liðin tíð að sami maður sé að vasast í lagasmíð [að ekki sé talað um grundvallarlög ríkisins, stjórnarskrána] og hafi líka það hlutverk að dæma eftir lögum.
Þetta er afar óheppilegt svo vægt sé til orða tekið. Það má líka vel sjá fyrir sér dómsmál, á Íslandi og síðan erlendis, þar sem reynt gæti á óhlutdrægni dómarans vegna þessa. Þetta hefði dómarinn átt að sjá fyrir og neita að taka að sér hlutverk „Raspútíns“ fyrir „íslensku keisarafjölskylduna“, einmitt í ljósi þess að hann gæti ekki setið „báðumegin við borðið“.
- Samkeppni og samruni í Evrópu
Samkeppnisákvæði Lissabon-sáttmálans er að finna í bálki VII, kafla 1, gr. 101-118. Lagalegur grunnur samkeppnisstefnunnar byggist á gr. 101-109, og bókun 27 við Lissabon-sáttmálann, um innri markaðinn og samkeppni. Þar kemur fram að sanngjörn samkeppni sé óaðskiljanlegur þáttur innri markaðarins, eins og hann er skilgreindur undir 3. mgr. 3. gr. TEU (Lissabon-sáttmálinn -Treaty on European Union).[ix]
Við þetta bætast 37., 106. gr., og 345. gr. TFEU um opinber fyrirtæki og 14., 59., 93., 106., 107., 108., og 114. gr. TFEU um opinbera þjónustu, þjónustu sem snertir almannahagsmuni og þjónustu sem snertir almenna efnahagslega hagsmuni; bókun 26 við Lissabon-sáttmálann um þjónustu sem snertir almannahagsmuni og 36. gr. mannréttindasáttmála Evrópusambandsins.[x]
Á evrópska efnahagssvæðinu er í gildi reglugerð Ráðsins 139/2004[xi] (the EC Merger Regulation) um samruna fyrirtækja [„samrunareglugerð“[xii]]. En samruni (stór)fyrirtækja í Evrópu er háður samkeppnislögum og samkeppnisrétti. Í 1. gr. kemur fram hverskonar fyrirtæki falla undir ákvæði reglugerðarinnar. Þar segir í 1. mgr. að reglugerðin taki til allrar „samþjöppunar“ [consentration] sem hafi „bandalagsvídd“ (Community dimension). Það merkir að umrædd fyrirtæki teljist snerta sameiginlega hagsmuni á evrópska efnahagssvæðinu.
Í 2. mgr. 1. gr. er skilgreint hvenær „bandalagsvídd“ er til staðar. Í a-lið 2. mgr. 1. gr. kemur fram að heildarvelta þarf að vera meiri en 5000 milljónir evra [5 milljarðar evra]; og samkvæmt b-lið sömu gr. þarf heildarvelta að minnsta kosti tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja, innan bandalagsins, að vera meiri en 250 milljónir evra, nema hvert hlutaðeigandi fyrirtæki hafi meira en tvo þriðju af samanlagðri „bandalagsveltu“ sinni innan eins og sama aðildarríkis.
„Samþjöppun“ sem fellur ekki innan þeirra viðmiða sem skilgreind eru í 2. mgr. hefur „bandalagsvídd“ [engu að síður] þegar:
(a) samanlögð heimsvelta allra hlutaðeigandi fyrirtækja er meiri en 2500 milljónir evra;
(b) þegar heildarvelta allra hlutaðeigandi fyrirtækja, í að minnsta kosti þremur aðildarríkjum, hverju um sig, fer yfir 100 milljónir evra;
(c) heildarvelta að minnsta kosti tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja, hvors um sig, í að minnsta kosti þremur aðildarríkjum, hverju um sig, sbr. b-lið, er meiri en 25 milljónir evra, og
(d) heildarvelta að minnsta kosti tveggja hlutaðeigandi fyrirtækja innan bandalagsins [ESB], hvors um sig, fer yfir 100 milljónir evra, nema hvert hlutaðeigandi fyrirtæki hafi meira en tvo þriðju heildarveltu sinnar innan bandalagsins, í einu og sama aðildarríki.
Í 2. gr. reglugerðarinnar er síðan fjallað um atriði sem leggja þarf mat á við samruna fyrirtækja. Atriði sem framkvæmdastjórn ESB tekur sérstaklega til athugunar, vegna samruna, og þess hvort samruni samrímist hagsmunum hins sameiginlega markaðar, eru, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 2. gr.:
(a) þörf á að viðhalda og efla virka samkeppni á sameiginlega markaðnum, m.a. með hliðsjón af samsetningu allra viðkomandi markaða og raunverulegri eða hugsanlegri samkeppni af hálfu fyrirtækja sem eru staðsett innan Bandalagsins eða utan þess,
- b) markaðsstaða viðkomandi fyrirtækja og efnahagslegs og fjárhagslegs styrks þeirra, kosta sem birgjar og notendur geta valið um, aðgangs þeirra að aðföngum eða mörkuðum, lagalegra hindrana eða annars sem hindrar aðgang, þróunar framboðs og eftirspurnar eftir viðkomandi vöru eða þjónustu, hagsmuna milliliða og neytenda og tækni- og efnahagsframfara, að því tilskildu að þetta sé neytendum til hagsbóta og hindri ekki samkeppni.
- Dæmi úr raunveruleikanum
Árið 2009 keypti ENEL[xiii] SpA [stofnað 1962], stærsta raforkufyrirtæki Ítalíu, 25 prósenta hlut í Endesa, leiðandi raforkufyrirtæki Spánar, frá byggingarhópnum ACCIONA, og jók þar með heildarhlutdeild sína í 92 prósent. Enel greiddi 11,1 milljarða evra fyrir hlut ACCIONA. Samkvæmt skilmálum kaupsamnings skyldi kaupverðið greiðast að fullu í reiðufé, en með þeirri skuldbindingu að ACCIONA fengi í staðinn eignir til 2.105 megavatta endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu frá Endesa, sem metnar voru á 2,89 milljarða evra og voru að öllu leyti skuldlausar.[xiv] Við kaupin bættust 22 milljónir manna í hóp viðskiptavina ENEL[xv] sem auk þess eignaðist fjölda virkjana í Evrópu og Rómönsku Ameríku.
Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB er fréttatilkynning[xvi] frá 26. febrúar 2019. Þar segir að framkvæmdastjórnin hafi, í samræmi við samrunareglugerð ESB, samþykkt yfirtöku RWE[xvii] á eignum E.ON[xviii] vegna endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu og raforkuframleiðslu með kjarnorku.
Bæði fyrirtækin hafa aðsetur í Þýskalandi. Þau framleiða rafmagn, stunda heildsölu og smásölu á rafmagni. Fyrirtækin hafa með sér flókin eignaskipti (asset swap). Í kjölfar eignaskiptanna verður RWE einkum virkt á sviði rafmagnsframleiðslu (upstream electricity generation) og heildsölu en E.ON mun stunda dreifingu og smásölu á rafmagni og gasi.[xix]
Áætlanir gerðu ráð fyrir því að RWE myndi fá meirihluta eigna E.ON sem tengjast endurnýjanlegri raforkuframleiðslu og kjarnorku; og fá 16.67% minnihluta í E.ON sem hlutagreiðslu fyrir eignirnar sem RWE selur E.ON, í tengslum við eignaskiptin. Eftir rannsókn á málinu komast framkvæmdastjórn ESB að þeirri niðurstöðu að samruninn bryti ekki gegn ákvæðum samkeppnislaga á Evrópska efnahagssvæðinu.
Markaðshlutdeild RWE er rétt ríflega 20% (og u.þ.b. 30% í hefðbundinni raforkuframleiðslu eingöngu) og telur framkvæmdastjórnin hækkunina vegna samrunans mjög litla (innan við 1% í heildina og einnig innan við 1% miðað við hefðbundna raforkuframleiðslu). Því til viðbótar sé hluti aukningarinnar einungis tímabundinn, þar sem raforkuframleiðslu með kjarnorku, sem færist til RWE, verður að leggja niður fyrir árslok 2022, í síðasta lagi.
Framkvæmdastjórnin telur ólíklegt að samruni fyrirtækjanna muni hindra virka samkeppni í framleiðslu rafmagns og í heildsöluframboði þess. Þá telur framkvæmdastjórnin ólíklegt að viðskiptin hafi áhrif á getu RWE og hvata til þess að hafa áhrif á markaðsverð með því að stýra framboði, þar sem hækkunin sé of lítil til þess [hækkunin vegna samrunans].[xx]
Mynd 1
Samrunar og yfirtökur á raforkumarkaði innan ríkja (ljósgrátt) og yfir landamæri.
Myndin sýnir fjölda samruna meðal Evrópskra raforkufyrirtækja frá 1998-2003.[xxi]
- Lýðræðið hangir í gálga íslensku mafíunnar
Það sem nefnt er hér að framan um einkavæðingu, peningaþvætti, brask og skort á lýðræði er ekki tilkomið af hendingu. Þessi mál hafa þróast svona vegna þess að um það voru teknar ákvarðanir. Íslenska mafían[xxii] kemur víða við sögu og hefur þræði sem ná m.a. inn á Alþingi. Það sést t.d. á hinum svokallaða „grá lista“, athafnaleysi þingsins til þess að sporna við kvótabraski, jarðabraski og „orkupakkabraski“.
Íslenska mafían („djúpríkið“) tekur auðvitað fagnandi regluverki sem tekið er upp í íslenskan rétt og auðveldar einka- og braskvæðingu með auðlindir. Litið er á regluverkið sem kærkomna réttlætingu fyrir braskinu og hvaða braskari getur sett sig upp á móti slíkri „himnasendingu“?
Þingið hefur lengi verið lamað í þessum málaflokkum og gerir eins og „því er sagt“. Íslenska mafían líkist um margt systursamtökum sínum á Ítalíu (Sikiley), þ.e.a.s. hún er skipulögð, beitir ofbeldi, en hefur þó hingað til forðast vopnað ofbeldi, enda náð öllum sínum markmiðum án þess. Ítalska mafían hefur hins vegar beitt vopnuðu ofbeldi sem „síðasta úrræði“ þegar annarskonar ofbeldi hefur ekki skilað tilætluðum árangri.[xxiii] Þá er það eftirtektarvert, að bæði íslenska og ítalska mafían hafa séð „ný viðskiptatækifæri“ í hagnýtingu endurnýjanlegra orkugjafa – „grænum orkugjöfum“.[xxiv] Þar er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað sem Íslendingar ættu að hugleiða vel fram að næstu kosningum til Alþingis!
Ein birtingarmynd íslensku mafíunnar er „einkarekið“ fyrirtæki sem heldur skuldaraskrá. Þar er beitt „brútal“ aðferðum og gerræðið er allsráðandi. Ein leið fyrir fólk í því tilviki væri að stofna hópmálsóknarfélag og stefna fyrirtækinu, endurtekið og árum saman (ef með þarf) og þannig brjóta upp mafíustarfsemi sem stjórnvöld hafa látið átölulausa árum saman.
Þá má hiklaust fella svonefnd smálánafyrirtæki undir mafíustarfsemi líka. Þau nýta sér veikleika fólks, byggja m.a. á ofbeldi, og hótunum um ofbeldi, og mjög ógeðfelldum innheimtuaðferðum. Þar er um að ræða mafíustarfsemi sem þrífst í skjóli ríkisvaldsins, enda er ekkert tekið á þessum málum á Alþingi sem er mjög umhugsunarvert. Það er dapurlegt að svona skuli málum vera háttað en enginn gerir sjálfum sér né öðrum nokkurn greiða með því að stunda sjálfsblekkingar eða með því að blekkja aðra.
Ætíð er best að viðurkenna staðreyndir eins og þær liggja fyrir. Frumskilyrðið er þó að greina vandann áður en hægt er að kanna lausnir á honum. Lausnir á íslenskri mafíustarfsemi liggja að hluta í upptöku á beinu lýðræði eins og áður hefur komið fram. Þannig má að nokkru rjúfa þráðinn á milli spilltra stjórnmála og mafíustarfseminnar sem aftur heldur stjórnmálunum í greip sinni. Því verður alls ekki trúað, þótt kosningaúrslit séu oft misvísandi, að spilling og mafíustarfsemi sé það sem þjóðin vill helst af öllu.
Stór hluti af þessum vanda, almennt talað, er það hvernig illa fengið fé (fé úr „peningaþvottavélum“) ratar síðan inn í löglegan rekstur. Það skekkir samkeppnisstöðu þeirra sem vilja fylgja reglum og stunda heiðarlegan rekstur fyrirtækja. Samkeppni þeira heiðarlegu (sem eru margir að upplagi) við mafíufyrirtæki getur aldrei orðið á jafnréttisgrundvelli. Flestir gera sér grein fyrir því.
Dómarar í Suður-Kalabríuborginni Palmi hafa bent á það, með vísan til byggingar virkjunar ENEL á Gioia Tauro sléttunni, að mafían hafi ekki einungis „síast inn“ í undirverktaka, heldur og í beina stjórnun verkanna. Það gerist með þáttum sem tengja saman einkarekin byggingafyrirtæki, ríkisfyrirtæki sem aftur eru undir hæl spilltra stjórnmálamanna, og fulltrúa mafíunnar.[xxv]
Þannig er sú hætta fyrir hendi að allur rekstur, á ákveðnu sviði, færist nær „lægsta samnefnara“ ef svo má að orði komast. Ef valið stendur á milli þess að taka þátt í ólöglegu athæfi eða skella að öðrum kosti í lás er illa komið. Einkafyrirtæki sem halda skrá um lántakendur eiga ekki að þrífast á Íslandi. Enn síður smálánafyrirtækin. Þarna verður Alþingi að reka af sér slyðruorðið og beita löggjafarvaldinu, svo eftir verði tekið.
Hvernig halda menn svo að þróunin verði á sviði raforkuframleiðslu þegar ekki er svo mikið sem tekið á smálánafyrirtækjum? Sú hætta vofir yfir að glæpavæðing orkumálanna verði allsráðandi og stjórnvöld haldi að sér höndum þá eins og fyrri daginn. Glæpavæðing bankakerfisins [sbr. dóma og Rannsóknarskýrslu Alþingis] hefur ekki gefið góða raun og ætti að vera víti til varnaðar. Hvernig gengur rannsókn Samherjamálsins?
Það er enginn vafi á því að íslenska valdaklíkan (innan og utan Alþingis) mun ekki spyrja þjóðina álits á innleiðingu orkupakka 4 heldur fara fram með hroka og ófyrirleitni eins og áður. Nánast allir núverandi stjórnmálaflokkar (nema helst Miðflokkurinn og Flokkur fólksins) munu styðja innleiðinguna, þvert á hagsmuni íslenskra neytenda. En margt bendir til þess að djúp „gjá“ sé á milli þings og þjóðar í málinu. Þjóðaratkvæðagreiðsla væri hins vegar besta leiðin til þess að skera úr um það.
Orkumálin eru eitt allra stærsta hagsmunamál þjóðarinnar, svo stórt að Alþingi má ekki eitt ráða ferðinni. Það hefur ítrekað brugðist þjóðinni og gengur ævinlega erinda fjárglæframanna. Það er meira en líklegt að fréttir muni berast af því í náinni framtíð að t.d. ítalska stórfyrirtækið ENEL hafi leitað eftir kaupum á Landsvirkjun. Þá gætu íslenskir fjárglæframenn [og glæpamennskan virðist ættlæg á Íslandi] séð sér leik á borði og boðið „samstarf“.
En hver sem „einkavæðingarfléttan“ er, þá gengur hún í grunninn ævinlega út á eitt og hið sama – að ræna eigum almennings og koma í hendur braskara, fjárglæframanna og vafasamra fyrirtækja. En ekki nóg með það. Reynslan af bankakerfinu sýnir að hægt er að ræna því aftur og aftur. Efnahagshrun skiptir þar engu máli heldur byrja menn á nýjan leik þegar mesta „rykið“ er sest. Hversu marga „snúninga“ skyldi íslenska þjóðin eiga eftir að sjá í orkumálunum? Er ekki ekki nóg komið af valdaklíkunni á Alþingi? Það sem sumir stjórnmálamenn eiga raunverulega við þegar þeir tala um „sátt“ er einmitt varðstaðan gegn þjóðinni – „sáttin“ á milli valdaklíkunnar og fjárglæframanna. Það er allt og sumt.
[1] Sjá Der Bundesrat Das Portal der Schweizer Regierung. Bundesverfassung der Schweizerischen Eidgenossenschaft. https://www.admin.ch/opc/de/classified-compilation/19995395/index.html
[i] Sjá einnig: Burger, C. and Weinmann, J. (2019). The failure of privatization in the energy sector and why today’s consumers are reclaiming power. Renewable Energy World. https://www.renewableenergyworld.com/2019/06/26/the-failure-of-privatization-in-the-energy-sector-and-why-todays-consumers-are-reclaiming-power/
[ii] Sjá t.d.: Codognet, M.K.; Glachant, J.M.; Levque, F. et Plagnet, M.A. (2002). Mergers and Acquisitions in the European Electricity Sector Cases and Patterns. CERNA, Centre d’bconomie industrielle Ecole Nationale Supérieure des Mines de Paris. https://www.osti.gov/etdeweb/servlets/purl/20350575
[iii] Sjá einnig: European Commission. (2013). Procedures in merger control. https://ec.europa.eu/competition/mergers/overview_en.html
[iv] Sjá t.d.: https://www.skipulag.is/media/attachments/virkjun-thvera-i-vopnafirdi.pdf
[v] Sjá einnig: Gunnar Gunnarsson. (2020). Af einkavæðingu í orkugeiranum og virkjunar á vatnasviði Geitdalsár. Austurfrétt. https://www.austurfrett.is/umraedan/af-einkavaedhingu-i-orkugeiranum-og-virkjunar-a-vatnasvidhi-geitdalsar
[vi] Sjá enn fremur: KPMG. (2020). European power and utilities report. KPMG Global Energy Institute. https://assets.kpmg/content/dam/kpmg/xx/pdf/2020/03/european-p-and-u-report-4q19.pdf
[vii] Sjá einnig heimasíðu Evrópuráðsins – Feneyjarnefndina. https://www.venice.coe.int/webforms/documents/?topic=4&year=all
[viii] Sjá t.d.: Australian Constitution Centre. https://www.australianconstitutioncentre.org.au/separation-of-powers.html
[ix] Fact Sheets on the European Union. Competition policy. https://www.europarl.europa.eu/factsheets/en/sheet/82/competition-policy
[x] EU Charter of Fundamental Rights. https://fra.europa.eu/en/eu-charter/article/36-access-services-general-economic-interest
[xi] Council Regulation (EC) No 139/2004 of 20 January 2004 on the control of concentrations between undertakings (the EC Merger Regulation) (Text with EEA relevance). https://eur-lex.europa.eu/legal-content/en/ALL/?uri=CELEX%3A32004R0139
[xii] Sjá: Tillaga til þingsályktunar. Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.
[xiii] ENEL. https://www.enel.com/company/about-us/where-we-are
[xiv] ACCIONA agrees to sell its 25% stake in Endesa to Enel. (2009). Acciona. https://www.acciona.com/pressroom/news/2009/february/acciona-agrees-to-sell-its-25-stake-in-endesa-to-enel/
[xv] Sjá einnig: Enel Green Power connects 14.4MW Oriche wind farm to Spanish grid. (2020). NS Energy. https://www.nsenergybusiness.com/news/enel-green-oriche-wind-farm/
[xvi] European Commission (2019). Mergers: Commission approves RWE’s acquisition of E.ON electricity generation assets. https://ec.europa.eu/commission/presscorner/detail/en/IP_19_1432
[xvii] https://www.group.rwe/en
[xviii] https://www.eon.com/en.html
[xix] Sjá einnig: SCHÜLKE, C. (2010). The EU’s Major Electricity and Gas Utilitiessince Market Liberalization. Institut Françaisdes Relations Internationales. https://inis.iaea.org/collection/NCLCollectionStore/_Public/42/052/42052642.pdf
[xx] European Commission. (2019). Op. cit.
[xxi] Heimild: Sioshansi, F.P. and Pfaffenberger, W. (2006). Electricity Market Reform: An International Perspective. Elsevier, p. 287.
[xxii] Sjá einnig: Allum, F. (2016). The Invisible Camorra: Neapolitan Crime Families Across Europe. Cornell University Press.
[xxiii] Sjá t.d.: Small Arms Survey, Geneva. (2013). Guns in the Family: Mafia Violence in Italy. In Small Arms Survey 2013: Everyday Dangers (Small Arms Survey, pp. 74-101). Cambridge: Cambridge University Press. doi:10.1017/CBO9781107323612.008
[xxiv] Sjá t.d.: Mafia milks Italy’s green energy boom. (2015). The Local. https://www.thelocal.it/20150727/mafia-milks-italys-green-energy-boom
[xxv] Paoli, L. (2004). Organised Crime in Italy: Mafia and Illegal Markets – Exception and Normality. In Fijnaut, C. and Paoli, L. (Eds.). Organised Crime in Europe. Concepts, Patterns and Control Policies in the European Union and Beyond. Dordrecht, The Netherlands, Springer, p. 286. http://www.ilsta.org/wp-content/uploads/2018/02/Cyrille_Fijnaut_Letizia_Paoli_Organised_Crime_ib-ok.org_.pdf
http://ogmundur.is/frjalsir-pennar/2020/07/kari-skrifar-heimabruggud-stjornskipun-samruni-orkupakkafyrirtaekja-i-evropu-og-mafiustarfsemi?fbclid=IwAR0Y-iSMx69OhWf56f1z9YrAm5_f2NeOyibmI_EyFd_gP3u5u0nnPwVZUtA