Góðir landsmenn. Við erum hér við upphaf nýs þings og höfum að vanda lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem horft er til næsta árs og í öllum okkar störfum hér í dag og í vetur horfum við til framtíðar í margvíslegu tilliti. Um leið stöndum við á miklum tímamótum í fleiri en einu samhengi, ekki síst í samhengi ríkisfjármálanna sem ég vil koma aðeins inn á.
Eins og kunnugt er höfum við fyrir allnokkru gert upp öll lán sem tengdust efnahagslegri aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Á næsta ári ljúkum við uppgreiðslu lána sem tengdust endurreisn fjármálakerfisins og í fjárlagafrumvarpinu sem nú er lagt fram náum við í fyrsta sinn skuldaviðmiði opinberra fjármála sem við sammæltumst um fyrir nokkrum árum. Þessar aðgerðir, þessar vörður á leið til sterkari ríkisfjármála, skipta miklu máli þegar kemur að efnahagslegu sjálfstæði landsins; að við getum verið sjálfstæð og fullvalda þjóð í stjórnmálalegu og efnahagslegu tilliti. Það er ánægjulegt að sjá til lands á svona mörgum mikilvægum sviðum í þessu tilliti á fullveldishátíðarárinu.
Hver um sig eru þessir áfangar stórir í ríkisfjármálalegu og efnahagslegu tilliti. Þeir eru merki um að við höfum náð miklum árangri í endurskipulagningu ríkisfjármálanna eftir efnahagsáfallið og þegar stóra samhengi hlutanna er skoðað þá sjáum við mjög glögglega að við höfum jafnt og þétt, eftir því sem við höfum sótt til þess styrk, nýtt árangurinn til þess að styrkja efnahagslega, samfélagslega og félagslega innviði. Þessum áherslum okkar hefur verið vel lýst í ríkisfjármálaáætlun til næstu ára. Þeim er fylgt rækilega eftir í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir þinginu.
Góðir áhorfendur. Í fjárlagafrumvarpinu koma fram þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur á hinum ólíku málefnasviðum. Sitt sýnist eflaust hverjum eins og vant er, en eitt hljótum við a.m.k. að geta verið sammála um; við stöndum á sterkum grunni nú þegar við horfum til framtíðar, við höfum gjörbreytt þröngri stöðu í bestu stöðu sem Ísland hefur verið í, í efnahagslegu tilliti. Þess vegna getum við verið nokkuð bjartsýn á að við getum í störfum okkar hér í vetur sótt fram til árangurs.
Fyrstu viðbrögð við fjárlagafrumvarpinu hafa verið alla vega, allt frá því að mönnum finnst ekki nóg að gert, yfir í að fólki þykir ríkið taka allt of mikið til sín, að það sé of mikið gert. Hér væri auðvitað auðvelt að benda á hversu ótrúlega mótsagnakennd þessi viðbrögð eru. En ég ætla hins vegar að beina sjónum að öðru, kannski dálítið óvæntu, sem er að þrátt fyrir allt er í raun og veru nauðsynlegt að spyrja beggja þessara spurninga, annars vegar: Gerum við nóg? og hins vegar: Erum við mögulega að gera of mikið?
Sú gagnrýni á ríkisstjórnina að hún geri ekki nóg á einstaka sviðum er mjög fyrirsjáanleg, sérstaklega í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Það eru ávallt svið þar sem við gætum gert betur og það eru ávallt til svið þar sem við vildum gjarnan geta gert betur. Hér væri hins vegar nær að snúa sér að umræðu um forgangsröðun og gangast við því að við þurfum í þessu tilliti ávallt að gangast við lögmáli skortsins. Það eru takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í því að veita fjármuni til samfélagslegra verkefna.
Hin spurningin er líka gild: Erum við að gera of mikið? Er farið of geyst? Fram hefur komið gagnrýni á það að við séum að verja of háum fjárhæðum í einstaka málaflokka án þess að gaumgæfa nægilega vel hvort þeir nýtist í þeim tilgangi sem að er stefnt, það sé ekki nóg að ausa ávallt hærri fjárhæðum í málaflokka án þess að spyrja um árangur. Það er heilmikið til í þessu. En ég ætla að tiltaka þrjú atriði sem einmitt koma við þessa athugasemd.
Í fyrsta lagi. Við höfum aldrei áður lagt fram fjárlagafrumvarp og unnið á grundvelli áætlunar þar sem stefnumörkun hefur verið jafn skýr og á við í dag. Og í dag birta ráðuneyti ársskýrslur sínar þar sem farið er yfir markmið þeirra og áherslur og spurt um árangur. Við höfum aldrei gengið lengra í þessu en einmitt í dag.
Í öðru lagi. Við erum að leggja grunn að endurmati útgjalda í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þar er um að ræða kerfisbundna greiningu á grunnútgjöldum tiltekinna málaflokka eða verkefna og spurt: Hvað hefur valdið aukningu útgjalda á viðkomandi sviði? Þessi aðferðafræði hefur annars staðar gefist vel. Hún hefur reynst nýtast vel til þess að forgangsraða fjármunum upp á nýtt og tryggja betri nýtingu þeirra. Hana erum við nú að innleiða.
Í þriðja lagi þá hlýt ég að nefna það að þrátt fyrir útgjaldavöxtinn sem hér er oft nefndur til sögunnar þá hafa útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu ekki vaxið sem nokkru nemur. Á þann mælikvarða er báknið ekkert að vaxa. Það sem er að gerast er að okkur er að vaxa styrkur til þess að sinna betur samfélagslegum verkefnum. Það út af fyrir sig er fagnaðarefni, að geta keypt betri tæknilegri lyf, að geta sinnt betur innviðum samfélagsins í svo margvíslegu tilliti, keypt fullkomnari þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, að reisa tæknilegri og betri spítala sem mætir nútímakröfum o.s.frv. Það að við höfum meiri getu til þess að sinna slíkum verkefnum án þess að byrðar vaxi fyrir ríkissjóð er fagnaðarefni. Og svo lengi sem við aukum ekki hlutfallslega byrðar ríkissjóðs er í raun og veru ekki hægt að segja að báknið sé að vaxa. Við höfum aukinn styrk til þess að bera þyngri byrðar.
Síðan kemur fram umræða um að menn verði að gæta að sér, ríkissjóður hljóti að nýta góðu árin til þess að safna í hlöðu og búa í haginn fyrir framtíðina. Sumir segja að við séum að ganga full langt í að nýta svigrúmið. Af þessu tilefni verð ég að nefna eitt sérstaklega. Ríkissjóður hefur létt af sér að undanförnu skuldum upp á um 660 milljarða kr. og greitt fyrir fram inn á lífeyrisskuldbindingar, ófjármagnaðar, aðra 140 milljarða. Samanlagt eru þetta 800 milljarðar sem við höfum ráðstafað til einmitt þessa verkefnis, að búa í haginn fyrir framtíðina, að létta skuldum af framtíðarkynslóðum, að taka þær ekki með okkur inn í framtíðina. Þetta hefur gjörbreytt stöðunni og verður ekki látið hjá liggja að nefna þetta þegar menn vilja ræða um það hvernig við höfum varið kraftmiklum hagvexti, góðu hagvaxtarskeiði, til þess að huga að lengri framtíð.
Þar fyrir utan hefur ríkissjóður verið rekinn með ágætum afgangi og þannig tryggt að ávallt sé til staðar visst svigrúm ef veður skipast skjótt í lofti. Vissulega getur veðrið skyndilega snúist í mótbyr. Við getum ekki horft fram hjá því, það sýnir reynslan okkur. Það hefur enginn gefið okkur tryggingu fyrir því að hagstæðustu spár um efnahagsframvinduna gangi eftir. Það væri óábyrgt að gera ráð fyrir því. Við megum ekki stilla væntingar okkar miðað við bestu mögulegu sviðsmynd í þeim efnum.
Þegar við lítum yfir farinn veg og skoðum þetta stóra samhengi hlutanna, stóru myndina, þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að við höfum ekki farið fram úr okkur, við höfum verið að styrkja stöðuna og við stöndum í dag á sterkari grunni heldur en áður var.
Góðir landsmenn. Hér fyrir ári síðan nefndi ég við sama tækifæri að ytri skilyrði væru okkur í flestu tilliti mjög hagstæð. Eitt helsta áhyggjuefni mitt þá var að við gætum ekki komið okkur saman um það hvernig ætti að skipta svigrúminu. Ég lýsti sömuleiðis miklum áhyggjum af því að átök á vinnumarkaði væru að herðast og það fyrirkomulag sem við hefðum búið við til þess að leysa ágreining um kaup og kjör í þessu landi væri úr sér gengið. Skömmu síðar var óvænt gengið til kosninga og ný ríkisstjórn hefur tekið við. Hún er með breiða pólitíska skírskotun. Hún hefur fundið gott jafnvægi í stjórnarsáttmála og hún hefur markað upphaf samstarfs við aðila vinnumarkaðarins og sýnt skýra sýn á framtíðaruppbyggingu landsins. Við höfum sýnt í verki viljann til þess að eiga gott samstarf við aðila vinnumarkaðar á kjörtímabilinu og þegar hafið framgang aðgerða sem lýsa þeim góða vilja. Það hefur hins vegar ekkert breyst í millitíðinni um áframhaldandi mikilvægi þess að við öll séum tilbúin til að leggja okkar af mörkum til sáttar í samfélaginu um skiptingu þess svigrúms sem er til staðar. Takist það ekki höfum við skapað sjálfstæða hættu á því að stoðir stöðugleikans veikist. Efnahagslegur órói bitnar að jafnaði helst á þeim sem veikast standa.
Góðir landsmenn. Það eru flestir sammála um að við höfum sjaldan staðið jafn sterkt og við gerum nú, þótt ekki eigi að taka nokkru sem sjálfsögðum hlut og það er innstæða fyrir því að gera ríkar kröfur um lífskjör á Íslandi dagsins í dag. Þegar við mælumst efst meðal þjóða í verðmætasköpun á mann, kannski meðal þeirra sem skipa sér í flokk tíu efstu á þann mælikvarða, þá er alveg eðlilegt að við speglum þá kröfu yfir í að segja: Við ættum þá að vera með eitt besta menntakerfi í heimi, heilbrigðiskerfi sem skipar sér í fremstu röð, að innviðir samfélagsins endurspegli það að verðmætasköpunin er slík hér. Við eigum að geta gert þessa kröfu. Það er ekkert að því að hér sé viðvarandi krafa um að lífskjör séu á alla mælikvarða í fremstu röð. Sem betur fer hafa þau í alþjóðlegum samanburði verið það.
Þessi sterka staða sem við höfum í upphafi þessa þings, sterk staða ríkisfjármálanna, góð viðspyrna, er það veganesti sem þetta þing fær til að forgangsraða verkefnum. Það er undir okkur komið, okkur sem hér erum samankomin. að forgangsraða verkefnunum þannig að sem best sátt geti um þau fengist og það er undir okkur komið að spila skynsamlega úr stöðunni í samvinnu við landsmenn. Við skulum ganga bjartsýn og sannfærð um góðan árangur til þess verks.“ Sagði Bjarni Benediktsson.