0.8 C
Reykjavik
Fimmtudagur - 2. febrúar 2023
Auglýsing

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Enn á ný erum við saman komin, fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi, nú á 149. löggjafarþingi. Það var með ákveðnum trega sem ég gekk sl. sumar inn í frí vitandi það að ég gat farið að fljúga út um allar koppagrundir af því að ég hafði efni á því. Ég gat farið í sumarfrí og ég gat notið þess.

Þegar við erum að tala um stefnuræðu forsætisráðherra hér í kvöld verðum við samt sem áður að vera pínulítið bjartsýn. Við verðum að segja: Það er sannarlega ekki allt slæmt. Það er ekki alltaf hægt að draga fram dimmasta skotið, það er líka ýmislegt annað og virðist góður vilji til margra verka.

Það er ekki þar með sagt að ég þurfi að vera sammála því sem er verið að gera hér og nú. Það er ekki þar með sagt að ég þurfi að vera sammála ríkisstjórninni í þeirri forgangsröðun sem hún er með á því hvernig hún miðlar úr okkar sameiginlegu sjóðum. Ég er það ekki.

Ég er sjöunda í röðinni til að koma í pontu í kvöld. Ekki einn einasti einstaklingur á Alþingi sem hér hefur staðið í kvöld hefur sagt orðið fátækt. Hve margir landsmenn sem eru að horfa á mig núna og fylgjast með því sem við erum að segja hér í kvöld ætli séu raunverulega fátækir þrátt fyrir allan hagvöxtinn, þrátt fyrir öll fallegu meðaltölin, frábæru hagsældina og auðsöfnunina sem við getum státað af, við, þjóð meðal þjóða, ein sú allra ríkasta?

Er þá ekki kominn tími til að opna augun? Eigum við þá ekki að líta inn á við og hugsa: Hverjar eru frumþarfir mannsins, hverjar eru frumþarfir okkar allra, þjóðarinnar, Íslendinga? Felast þær kannski í því að horfa á okkur hér básúna um hvað við erum frábær og hvað við ætlum að vera æðisleg í allan vetur og gera góða hluti?

Nei, frumþarfirnar felast í því að hafa fæði, klæði og húsnæði. Frumþarfir okkar felast í því að geta um frjálst höfuð strokið án þess að vera skjálfandi um miðjan mánuð vegna þess að við náum ekki endum saman, vegna þess að við eigum ekki mat á diskinn fyrir börnin okkar, vegna þess að við erum að opna augun fyrir því að við eignuðumst óvart of mörg börn. Eignuðumst við of mörg börn? Varð ég fyrir slysi? Hvers vegna er ég veikur? Af hverju er ég öryrki? Hvar er hjálpina að finna?

Við verðum að átta okkur á því, virðulegi forseti, að enginn biður um að vera öryrki, enginn. Það er í rauninni nóg að þurfa að burðast með þá byrði að vera fangi, oft í eigin líkama, þótt maður þurfi ekki líka að burðast með það að sjá sjaldan sem aldrei til sólar. Þrátt fyrir að hér hafi rignt mikið í sumar, eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um í stefnuræðu sinni, þarf ekki að rigna allan ársins hring og vera þoka hjá þessum ákveðna þjóðfélagshópi sem ég í hjartanu gjarnan vildi trúa að við öll sem erum hér inni gætum verið sammála um að taka utan um, alveg sama hvaðan gott kemur, og útrýma fátækt á Íslandi.

Hvað þýðir það? Er þetta opið hugtak? Hvað þýðir það, hver er ánægður og hvað þarf hann aftur mikið?

Við verðum að átta okkur á því að það er ekki spurningin um hversu margar krónur einstaklingurinn þarf. Allir þeir sem búa við fátækt eru ekki að biðja um neinn munað. Enginn af þeim biður um munað. Enginn þeirra getur farið í leikhús, enginn þeirra fer út að borða. Ég tala af eigin reynslu. Kannski er einu sinni í mánuði hægt að hafa pítsu. Mín börn nutu ekki sömu forréttinda og ríkisbubbabörnin allt í kring þar sem hlutirnir þóttu sjálfsagðir. Það var sjálfsagt að eiga allt, geta allt, mega allt og fá allt.

Fátækt fólk á Íslandi biður ekki um neitt slíkt. Það biður bara um sanngirni, það biður um réttlæti og jöfnuð og þegar talað er um að það eigi að beita skattkerfinu í átt að jöfnuði, að jafna kjörin, spyr ég: Felst það t.d. í boðaðri hækkun á öllu um áramótin? Það er nánast sama hvað það er. Nei, fátækir geta ekki drukkið áfengi jafnvel þó að það sé selt í ÁTVR. Það er nokkuð ljóst, þeir verða að hætta því. Hættið að reykja, hættið að drekka, þetta á allt að hækka. Það á að taka milljarða inn í ríkissjóð um áramótin út af þessu þannig að auðvitað er þetta bara bruðl, vesen og vitleysa og bara fyrir þá sem hafa efni á því — eins og mig. Ég get farið að standa í því núna að fá mér í glas reglulega, vel og vandlega, ég hef efni á því.

Staðreyndin er sú að fæði, klæði og húsnæði hljóta að vera lágmarkskröfur hvers einasta Íslendings sem býr í eins ríku, farsælu og gjöfulu landi og hér hefur verið boðað í allt kvöld. Það er líka satt. Við tölum um börnin. 9,1% barna lifir við mismikinn skort og það hefur einungis vaxið í allri þessari velsæld. Hvernig má það vera? Hvernig er það hægt? Og hugsið ykkur, menn státa sig af því. Ég hefði t.d. persónulega og prívat aldrei staðið í pontunni í kvöld sem fulltrúi ríkisstjórnarinnar til að monta mig af 4% hækkun á persónuafslætti. Staðreyndin er sú að við erum að tala um 1%. 3% af þessari hækkun koma eingöngu vegna lögbundinnar vísitöluhækkunar persónuafsláttar og þetta 1% gefur heilar 535 kr. Ég veit ekki hvernig við ættum að reyna að skera pítsuna, í hvað marga bita, til að fá sneið fyrir 535-kall. Þetta er ekki einu sinni einn sjötti úr henni.

Úr því að talað er um jöfnuð, hagsæld, velvild og að við séum æðisleg og frábær saman langar mig síðast en ekki síst að tala um það sem var alveg frábærlega vel gert hérna í vor. Ég tel að við getum gert nákvæmlega það aftur og aftur, bara ef við stöndum saman og viljum það. Það skiptir engu máli þó að átta stjórnmálaflokkar séu á Alþingi Íslendinga í dag. Það skiptir bara máli að við hjálpumst að og við getum gert það eins og við gerðum í vor þegar samstaða var hjá öllum í þingsal um að afnema skattlagningu á styrki til fátæks fólks sem þurfti að kaupa sér hjálpartæki. Nú er það mál í höndum hæstv. fjármálaráðherra og ég stóla á það og treysti því af öllu hjarta að það eigi eftir að ganga í gegn og að þingheimur allur muni gefa fólkinu okkar það í jólagjöf. Við getum gert meira af þessu og við getum gert það betur.

Kæru landsmenn. Hafið það frábært, við eigum eftir að eiga gott þing í vetur.