.Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, tók í dag á móti og kynnti fyrir ríkisstjórn skýrsluna Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði. Þar kemur meðal annars fram að rúmlega tveir af hverjum tíu hafa orðið fyrir einelti á vinnustað og eru konur líklegri en karlar til að greina frá því, eða um 25 prósent kvenna á móti sjö prósentum karla. Þá eru fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu mun líklegri til að hafa reynslu af einelti en þátttakendur án skerðingar eða fötlunar, eða 35 prósent á móti 20 prósentum.Um 16 prósent þátttakenda greina frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni einhvern tíma á vinnuferlinum; 25 prósent kvenna og 7 prósent karla. Fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu eru samkvæmt skýrslunni líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað einhvern tíma á lífsleiðinni en aðrir þátttakendur, eða 21 prósent á móti 15 prósentum.Þátttakendur með erlent ríkisfang eru síður líklegir til að greina frá kynferðislegri áreitni en aðrir eða 6 prósent á móti 17 prósentum. Eigindlegar niðurstöður gefa þó til kynna að það megi að hluta til rekja til ólíkrar menningarbundinnar upplifunar.Um einn af hverjum tíu á vinnumarkaði hefur upplifað kynbundna áreitni á vinnuferli sínum; 17 prósent kvenna og 4 prósent karla. Þátttakendur með íslenskt ríkisfang eru líklegri en þátttakendur með erlent ríkisfang til að greina frá henni eða 11 prósent á móti 5,8 prósentum. Rannsóknin gefur til kynna að þátttakendur með íslenskt ríkisfang upplifi að jafnaði minna álag í starfi, meiri stuðning frá stjórnendum og minna óöryggi í starfi en fólk með erlent ríkisfang. Þá upplifi fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu að jafnaði minni stuðning frá stjórnendum og meira óöryggi í starfi en ófatlað fólk og fólk með engar skerðingar. Alls greindu 4 prósent þátttakenda frá reynslu af kynferðislegri áreitni á núverandi vinnustað. Þegar svör voru greind eftir stærð vinnustaða og tegund starfs kom í ljós að fólk sem starfar á fámennum vinnustöðum (1-9 starfsmenn) er ólíklegra til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni (1 prósent) en fólk á stærri vinnustöðum (4,2 – 5,1 prósent). Sérfræðingar í umönnunarstörfum reyndust mun líklegri en fólk í öðrum störfum til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eða 13 prósent á móti 1 til 6 prósentum. Þar á eftir kom starfsfólk í þjónustu- og verslunarstörfum eða 5,9 prósent. Meirihluti þátttakenda eða 72 prósent taldi að #MeToo hreyfingin hafi haft jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Konur eru jákvæðari í garð hreyfingarinnar en karlar, en 81 prósent kvenna taldi hreyfinguna hafa haft mjög eða frekar jákvæð áhrif á móti 63 prósentum karla. Rúmlega 41 prósent fulltrúa stjórnenda greindi frá því að unnið sé eftir jafnréttisáætlun á þeirra vinnustað. Um 42 prósent stjórnenda svöruðu því til að á vinnustaðnum hafi verið framkvæmt áhættumat sem tekur til alls vinnuumhverfisins og um 20 prósent greindu frá því að áhættumat hafi verið gert sem tekur til hluta vinnuumhverfisins. Einungis um 7 prósent sögðu að áhættumat hafi náð til sálfélagslegra þátta.