Grimmilegur stríðsrekstur Rússlands gegn Úkraínu, og viðbúnaður og fælingarstefna bandalagsins voru í forgrunni á varnarmálaráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem lauk í Brussel í dag. Fundurinn var jafnframt fyrsti ráðherrafundurinn sem Finnland og Svíþjóð tóku þátt sem boðsríki, auk þess sem varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksii Reznikov, sótti hluta fundarins.
Í aðdraganda varnarmálaráðherrafundarins hittust ríflega fimmtíu ríki, þar á meðal öll bandalagsríkin ásamt fjölda samstarfsríkja á fundi vinnuhóps um stuðning við Úkraínu (e. Ukraine Defence Contact Group) sem Bandaríkin leiða. Á fundinum var rætt hvernig megi efla aðstoð við varnarbaráttu Úkraínu, m.a. leiðir við að efla getu landsins til að mæta vægðarlausum loftárásum Rússa á borgara og innviði landsins og annarri aðkallandi þörf Úkraínu.
Á óformlegum kvöldverði með Reznikov var rætt um framvindu stríðsins og stöðu mála í Úkraínu. Á fundinum var einnig fjallað um stuðning við langtíma umbætur í varnarmálum og enduruppbyggingu lykilinnviða í Úkraínu.
Í gær, þann 13. október, fór fram reglubundinn fundur varnarmálaráðherra um kjarnavopnafælingu bandalagsins. Því næst ræddu ráðherrarnir eflingu á fælingar- og varnarviðbúnaði bandalagsins í ljósi ákvarðana sem teknar voru á leiðtogafundinum í Madríd, auk þess sem umræður fóru fram um hvernig ríkin geti sjálf og í sameiningu styrkt öryggi grunninnviða, eflt viðnámsþol og upplýsingamiðlun.
Fundinum lauk með umræðum um núverandi verkefni bandalagsins í Írak og Kósovó, stöðu mála á Balkanskaga og samlegðaráhrif verkefna ESB og bandalagsríkja til stuðnings Úkraínu. Tók Joseph Borell, utanríkismálastjóri ESB þátt í þessum hluta fundarins. Hermann Ingólfsson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu tók þátt í fundunum fyrir Íslands hönd.