-2.2 C
Reykjavik
Þriðjudagur - 7. febrúar 2023
Auglýsing

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir segir raforkumarkaðinn óþroskaðan en að samkeppni væri að aukast

Auglýsing

Auglýsing

Nýjar fréttir

Auglýsing

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, var fyrst á svið og ræddi um íslenska raforkumarkaðinn. Benti hún á að hann væri um margt sérstakur, bæði er hann einangraður og 80% af sölu fer til fimm stóriðjufyrirtækja. Jafnframt sagði hún að þó svo að almennur raforkumarkaður sé nokkuð óþroskaður hér á landi sæjust  merki um að virk samkeppni væri að aukast.
Ráðherra sagði að virkur íslenskur raforkumarkaður gæti haft margvísleg jákvæð áhrif í för með sér og nefndi sem dæmi bættan hag neytenda, minni sóun og betri nýtingu sem er mikilvægt umhverfismál. Þá myndi virkur raforkumarkaður jafna aðgengi aðila að kerfinu og bæta stöðu smærri framleiðenda. Jafnframt sagði ráðherra að beint samband væri á milli virks markaðar og orkuöryggis.
Sigrún  Björk Jak­obs­dótt­ir, stjórn­ar­formaður Landsnets, talaði um mikla breytingatíma á raforkumarkaði og mikilvægi þess fyrir Landsnet að hafa skýra stefnu og undirbúa sig að mæta breyttum kröfum samfélagsins. Ítrekaði hún mikilvægi þess að hafa skýra langtímahugsun í þessum efnum.
Sigrún sagði að styrking flutningskerfisins væri forgangsmál hjá Landsneti sem endranær og að það hefði ekki verið styrkt í takt við þarfirnar sem væru sífellt að aukast. Benti hún á að kerfið væri viðkvæmt fyrir áföllum og röskunum vegna náttúruhamfara. Þá talaði hún um að orkumál væru í grunninn loftlagsmál og mikilvægt væri til að mynda að mæta þörfum samfélagsins í orkuskiptum.
Simon Grimes, frá írska raforkuflutningsfélaginu EirGrid, ræddi um reynslu Íra af uppsetningu virks raforkumarkaðar. Sagði hann írska raforkukerfið á margan hátt sambærilegt því íslenska, kerfin væru bæði lítil og einangruð en væru að bregðast við aukinni eftirspurn. Þá eru bæði Ísland og Írland leiðtogar á heimsvísu í vinnslu endurnýjanlegrar orku.
Á Írlandi hefur þróun orkumarkaðarins tekið langan tíma og hófst þróunin upp úr síðustu aldamótum með svipuðum hætti og nú er hérlendis. Niðurstaðan gaf ekki góða raun og árið 2007 var komið upp kauphöll með raforku á Írlandi með mjög góðum árangri. Niðurstaðan leiddi til lægra gagnsæs orkuverðs, fleiri valkosta fyrir neytendur og aukinnar samkeppni.  Í október á síðasta ári voru gerðar miklar endurbætur á raforkumarkaði Íra eftir fimm ára undirbúningsvinnu. Grimes sagði breytinguna hafa verið verulega áskorun sem gekk þó vel. Markmið breytinganna voru margvísleg svo sem að auka samkeppni, auka verðþrýsting og auka öryggi raforkukerfisins. Sagði Grimes að eftir fyrstu fimm mánuðina væru jákvæð teikn á lofti um að þau markmið náist.
Matt­hew J. Roberts, frá Veðurstofu Íslands, fór yfir hvernig náttúruvá ógnar þjóðaröryggi.
Roberts ræddi meðal annars þá staði í raforkuflutningskerfinu sem eru á hættusvæði þegar kemur að náttúruhamförum. Í máli hans kom fram að helsta náttúruváin sem ógnar kerfinu eru stórgos, með gjóskufalli eða hraunstreymi, hamfarajökulhlaup og gos í grennd við byggð eða viðkvæma hluta kerfisins. Að sögn Roberts eru helstu áskoranirnar í tengslum við innviði og náttúruhamfarir hönnun dreifikerfisins en hönnunarforsendurnar þurfa að vera viðeigandi og einnig þarf að huga að viðbúnaði sem tengist því að hluti dreifikerfisins laskist í hamförum.
Guðmundur Ingi Ásmunds­son, forstjóri Landsnets, kom inn á yfirskrift fundarins og hvernig hún skiptist í tvö ólík mál, þjóðaröryggi og öryggi raforkukerfisins annars vegar og framtíð raforkumarkaðarins hins vegar.
Landsnet sem fyrirtæki hefur mótað skýra stefnu fyrir framtíðina sem byggir á hagsmunum þeirra sem nýta kerfið. Það er ekki síður mikilvægt að fylgja henni. Í því samhengi sýndi Guðmundur helstu áherslur fyrirtækisins og hvernig fyrirtækið hefði breyst með nýjum áherslum.
Þegar kemur að þjóðaröryggi í tengslum við rafmagn og náttúruhamfarir sagði Guðmundur að enginn gæti komið í veg fyrir slíka atburði en hægt væri að hafa áhrif á hversu alvarlegar afleiðingarnar gætu orðið. Guðmundur talaði einnig um mikilvægi þess að hafa öflugt raforkuflutningkerfi og að hanna raforkukerfin þannig að þau ráði við náttúruhamfarir og þar skipti langtímahugsun gríðarmiklu máli.
Guðmundur talaði jafnframt um mikilvægi þess að hér verði virkt raforkumarkaðskerfi í þágu bæði neytenda og orkuöryggis. Þetta þyrfti að gera í samvinnu við alla markaðsaðila og að ferlið væri langhlaup. Benti hann á margvísleg jákvæð áhrif þess að breyta kerfinu og að með virku markaðskerfi verði til þrýstingur á verðið sem skipti neytendur máli en það er jafnframt öryggismál því markaðurinn getur tryggt það að framboð og eftirspurn mætist. Þá hvetur virkur markaður til ábyrgrar hegðunar og nýtingar innviða.
Guðmundur sagði að ekki væri hægt að una við óbreytt ástand. „Það að gera ekki neitt er ekki valkostur.“
https://www.fti.is/2019/03/05/samkeppni-i-vinnslu-heildsolu-og-smasolu-a-orkumarkadi-segir-fyrrum-formadur-kjararads-og-nu-formadur-landsvirkjunar/
https://www.fti.is/2019/03/04/orkan-a-ekki-ad-vera-audlind-i-thjodareign-segir-radherra-ha/