Eins og kunnugt er tók ný reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot gildi 1. maí fyrir tæpu ári síðan. Fram að því höfðu sektir fyrir umferðarlagabrot verið óbreyttar í rúm tíu ár. Mörgum fannst þær of lágar og hafa lítinn fælingarmátt. Sektir við umferðarlagabrotum eru til þess fallnar að veita ökumönnum aukið aðhald og stuðla þannig um leið að auknu umferðaröryggi.
Til dæmis um hækkun sekta fyrir umferðarlagabrot fór sektin fyrir notkun farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur úr 5.000 krónum í 40.000 krónur. Ölvun við akstur (hæstu sektir, vínandamagn í blóði 2,01 eða meira), fór úr 240.00 krónum í 320.000 krónur.
Þvert á það sem búist hafði verið við hefur umferðarlagabrotum fjölgað til muna samkvæmt bráðabirgðatölum frá ríkislögreglustjóra. Umferðarlagabrotum fjölgaði um átta þúsund í fyrra miðað við árið á undan, þrátt fyrir miklar hækkanir. Alls voru 78 þúsund umferðarlagabrot skráð í fyrra og fjölgaði þeim um 12% frá árinu 2017. Langflest voru fyrir hraðakstur, rúmlega 61 þúsund og fjölgaði þeim um 11%. Flest mál komu jafnframt til vegna stafrænna hraðamyndavéla.
Umferðarlagabrotum fjölgar í flestum landshlutum, mismikið þó. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði þeim um hátt í sex þúsund, eða 15% í fyrra, 32% á Suðurnesjum og 90% á Vesturlandi. Mesta breytingin er á Norðurlandi vestra, úr ríflega 3.000 brotum í um 7.500, sem er 145% aukning. Þar var ráðist í átak í byrjun síðasta árs og sinntu tveir lögreglumenn nær eingöngu umferðareftirliti.
Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að í umræðunni um þessi mál verði að hafa í huga að umferð hafi aukist gríðarlega. Hingað koma 2,3 milljónir erlendra ferðamanna á hverju ári og þannig er ekki óeðlilegt við að umferðarlagabrotum fjölgi. Þá mætti einnig benda á að sjálfum löggæslumyndavélum hefur fjölgað.
Vonuðum að fælingarmáttur hærri sekta væri slíkur að brotunum myndi fækka
„Lögreglan vinnur að umferðareftirliti eins og hún getur hverju sinni. Við sjáum ekki í fljótu bragði að mannskapur okkar eða tími hafi aukist þannig að við séum í rauninni að auka eftirlit okkar. Afskipti okkar eru fleiri og því má segja að dugur ungra lögreglumanna hafi ekki dalað. Fjölgun umferðarlaga brota má einkum rekja til aukinnar umferðar erlendra ferðamanna. Auðvitað vorum við að vona að fælingarmáttur hærri sekta væri slíkur að brotunum myndi fækka. Fólk þarf að fá hækkuðu sektina til að átta sig á því að það þarf að breyta hegðun eða mynstri sínu,“ sagði Guðbrandur.
Hann sagði að stundum mætti ætla að sumir ferðamenn sem hingað koma hefðu ekki mikla reynslu af akstri, einkum í snjó eða ísingu. Þeir væru ekki allir til fyrirmyndar, hvaða ástæða sem er fyrir því. Maður myndi ætla að margir ferðamenn sem hingað koma eigi ekki eða noti sjaldan bíl en ferðist jafnan heima fyrir með almenningssamgöngum . Hingað koma því óvanir ökumenn, taka bílaleigubíl og eru hreinlega óvanir akstri, ekki síst við íslenskar aðstæður.
Guðbrandur sagði að frá 1. maí í fyrra, þegar nýju lögin tóku gildi og til síðustu áramóta, hafi lögreglan kært hátt í 900 ökumenn fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar. Lögreglan hefur aukið eftirlit sitt með farsímanotkun ökumanna því að sérlega mikil hætta þykir stafa af henni.
Margir standa sig með prýði
„Við viljum þó alls ekki vera einungis með neikvæðan áróður enda standa margir ökumenn sig með prýði og þessi söngur um að allir séu að tala í farsíma við akstur og að enginn gefi stefnuljós er að okkar viti ekki rétt. Kannski gefa of fáir stefnumerki en heilt yfir standa flestir ökumenn sig vel. Margir ökumenn sýna ábyrgð, tillitsemi og mér finnst það hafa aukist. Hægt og bítandi eru íslenskir ökumenn að læra,“ sagði Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í spjalli við FÍB-blaðið sem nýkomið er út.