Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga. Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi og útblástursmengun mun minnka verulega. Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera þar sem einkaaðilar munu standa straum af kostnaði við framkvæmdir. Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi.
Aukið öryggi fyrir landsmenn
Ný stórvirkjun á Vestfjörðum mun auka öryggi um land allt þar sem hún verður utan jarðskjáfta- og eldgosasvæðanna norðan og sunnanlands og náttúruhamfarir þar munu ekki raska framleiðslugetu Hvalárvirkjunar. Við náttúruhamfarir getur stærstur hluti raforkuframleiðslu landsmanna verið í uppnámi og mikil vá blasir við landsmönnum. Á Vestfjörðum eru fleiri virkjanakostir og með hækkandi raforkuverði verða þeir einn af öðrum hagkvæmir á næstu árum. Þar má nefna Austurgilsvirkjun um 30 MW virkjun í Skjaldfannardal sem er í nýtingarflokki í rammaáætlun 3. Áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku og útivist eru metin þau fimmtu minnstu af 26 kostum sem voru athugaðir.
Kristinn H. Gunnarsson, skrifar.
Auk þessarar tveggja eru nokkrir virkjunarkostir á Vestfjörðum sem eru enn utan rammaáætlunar. Þeir helstu eru: Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (9,9 MW), Sængurfossvirkjun (7MW), Hvanneyrardalsvirkjun (15MW) og Hest- og Skötufjarðarvirkjun (16 MW). Alls eru um 85 MW sem eru kominn inn í rammaáætlun og um 50 MW sem enn eru utan. Samanlögð raforkuframleiðsla allra þessara virkjana gæti orðið um 850 GWh/ári, sem dugar fyrir alla almenna heimilsnotkun landsmanna. Vestfirskar virkjanir munu hafa í för með sér verulega aukið öryggi fyrir alla landsmenn.
Aukið öryggi fyrir Vestfirðinga
Vestfirðingar eru nú mjög háðir aðfluttri orku. Virkjanir í fjórðungnum framleiða um 50% af orkuþörfinni og hinn helmingurinn, sem er um 130 GWh/ári er flutt vestur eftir háspennulínu frá Hrútatungu, svonefndri Vesturlínu. Hvalárvirkjun mun framleiða um 320 GWh/ári. Orkuþörf Vestfirðinga að óbreyttu er því um 40% af framleiðslu Hvalárvirkjunar. Að auki opnast tækifæri fyrir nýja framleiðslu sem í dag er ekki möguleg vegna skorts á orku og sérstaklega vegna skorts á öruggu rafmagni.
Landsnet (mars 2009) segir í skýrslu um afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum að það sé það minnsta á landinu og að Hvalárvirkjun muni stórauka afhendingaröryggið. Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða kemst að sömu niðurstöðu í nýlegu erindi. Ein leið til útbóta væri að tvöfalda Vesturlínu. Það mun kosta 6 -10 milljarða króna. Þar sem engin ný framleiðsla fylgir tvöfölduninni mun allur kostnaður falla á Landsnet og þaðan væntanlega á ríkið. Þess vegna er hún ekki vænleg.
Virkjanir borga
Staðan í dag er tilkomin vegna þess að ríkið hefur ekki verið tilbúið til þess að setja fé í að bæta dreifikerfið á Vestfjörðum. Vandséð er að pólitískur vilji breytist á næstu árum. Vestfirðingar eru einfaldlega ekki sú stærð sem dugar til áhrifa umfram fjölmennari svæði þegar mörg brýn verkefni liggja fyrir. Þess vegna eru nýjar virkjanir lykilatriði. Nýjar virkjanir greiða tengigjöld og endurgreiða þannig kostnaðinn. Sem dæmi má nefna að Búrfellsvirkjun 2 greiðir um 850 milljónir króna árlega í tengigjöld. Aukið öryggi og jafnframt ný sóknartækifæri liggur í nýjum virkjunum á Vestfjörðum. Vesturverk áætlar að Hvalárvirkjun muni greiða um 477 milljónir króna á ári í tengigjöld. Austurgilsvirkjun gæti þurft að greiða um 230 milljónir króna á ári.
Tengingin kostar 3 milljarða kr.
Kostnaðurinn við tengingu Hvalárvirkjunar við kerfi Landsnets verður um 3 milljarða króna ( mars 2009) við línur og tengivirki samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni hvort heldur það er með nýrri línu til Ísafjarðar um Djúpið eða í Geiradal. Þann kostnað þarf Landsnet að fá endurgreiddan frá nýju raforkuframleiðendunum og telur sig þurfa 200-300 mkr á ári yfir 20 ára tímabil. Vesturverk ehf telur að kostnaðurinn við tengingu frá Hvalárvirkjun til Nauteyrar í Ísafjarðardjúpi og línur þaðan til Ísafjarðar kosti 3,3 milljarða króna (jan 2015) og að tengigjöld Hvalárvirkjunar verði um 3 milljarðar króna. Verði hins vegar tengingin í Geiradal í Vesturlínuna er kostnaðurinn áætlaður 2,5 milljarðar króna og tengigjaldið 2 milljarðar króna. Hvað svo sem verður ofan á þá er ljóst að bara Hvalárvirkjun mun greiða kostnaðinn að mestu og verkefnið verður enn fýsilegra fyrir Landsnet ef fleiri virkjanir bætast við, eins og Austurgilsvirkjun.
Minni mengun
Hvalárvirkjun mun minnka mengun vegna olíubrennslu. Varaafl Vestfirðinga, bæði til húshitunar og ljósa er í díselvélum. Uppsett afl díselkatla hjá Orkubú Vestfjarða er 24 MW í kyndistöðvum og 20 MW í rafstöðvum. Landsnet byggði upp varaaflstöð í Bolungavík með díselvélum fyrir þremur árum fremur en að bæta flutningslínurnar vestur. Kostnaðurinn varð um hálfur annar milljarður króna. Hundruð þúsunda lítra eru af olíu brenndir árlega. Þegar verst lætur eru brennd 120 tonn af olíu á sólarhring. Óbreytt ástand ætti að vera þyrnir í augu umhverfisverndarfólks.
Lítil umhverfisáhrif
Áhrif Hvalárvirkjunar á umhverfis sitt verða ekki mikil og verða auk þess afturkræf. Helst er það vatnsmagn í nokkrum fossum sem breytist. Það fer í fyrra horf þegar virkjuninni verður hætt. Rask á heiðinni sjálfri verður líka hægt að afmá þegar þar að kemur. Ekkert er gert sem tekur nein gæði frá komandi kynslóðum. En virkjunin mun bæta lífskjör komandi kynslóða rétt eins og hver önnur starfsemi sem rekin er með hagnaði.
Ferðamenn tók ekki eftir virkjuninni
Fyrir rúmu ári birti Landsvirkjun skýrslu sem Háskóla Íslands gerði fyrir Landsvirkjun og kannaði áhrif Blönduvirkjunar á upplifun ferðamanna til svæðisins í kringum virkjunina síðasta sumar.
Skemmst er frá því að segja að 87% ferðamannanna sögðust ekki hafa tekið eftir virkjuninni og tengdum mannvirkjun. Heldur fleiri eða 89% ferðamanna töldu svæðið í kringum Blönduvirkjun vera náttúrulegt og 92% ferðamannanna töldu ósnortin víðerni vera hluta af aðdráttarafli svæðisins þótt sjá mætti þar ýmis virkjunarmannvirki. Könnunin staðfestir að ferðamenn upplifa svæðið og virkjunarframkvæmdir á allt annan hátt og mun jákvæðari en sumir innlendir virkjanaandstæðingar gera.
Hvalárvirkjun verður lyftistöng fyrir Vestfirði og landsmenn, og sérstaklega mun virkjunin auka ferðamannastraum til Vestfjarða.
Kristinn H. Gunnarsson