Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 4. – 10. júní, en alls var tilkynnt um 48 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 4. júní kl. 20.26 var bifhjóli ekið á gangandi vegfaranda á skólalóð Hörðuvallaskóla í Kópavogi. Hann var fluttur á slysadeild, líkt og ökumaðurinn, en sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi.
Fjögur umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 5. júní. Kl. 10.16 var bifreið ekið suðvestur Barónsstíg í Reykjavík og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Egilsgötu til suðurs þegar reiðhjóli var hjólað norðaustur Barónsstíg svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.11 var bifreið ekið vestur Kársnesbraut í Kópavogi, að gatnamótum við Hábraut, og aftan á aðra bifreið, sem hafði dregið úr hraða vegna umferðar fram undan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 18.15 var bifreið ekið austur Strandveg í Reykjavík, að gatnamótum við Melaveg, þegar annarri bifreið var ekið norður Melaveg og inn á gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Biðskylda er gagnvart umferð um Strandveg. Og kl. 20.11 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík og aftan á kyrrstæða vörubifreið á rauðu ljósi á gatnamótum við Miklubraut. Ökumaður aftari bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 6. júní kl. 13.26 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Kópavogi, norðan Arnarnesvegar, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni. Við það fór bifreiðin utan í vegrið og síðan á aðra bifreið og þá aftur á vegriðið uns hún stöðvaðist. Slysið er rakið til veikinda ökumannsins, en hann var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 7. júní. Kl. 16.04 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda við gatnamót Eiríksgötu og Barónsstígs í Reykjavík. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.37 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið austur Miklubraut, en við Grensásveg beygði ökumaðurinn til suðurs og hafnaði á hjólinu, sem var hjólað yfir veginn eftir gönguleið sem liggur inn og út af gatnamótunum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 8. júní kl. 13.11 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Nýbýlavegar og Dalvegar í Kópavogi. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Nýbýlaveg, en hinni norðaustur Dalveg og inn á gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Ágreiningur er um stöðu umferðarljósanna þegar áreksturinn varð. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 9. júní kl. 16.47 var bifreið ekið á rafmagnshlaupahjól á gatnamótum Bústaðavegar, Grensásvegar og Eyrarlands í Reykjavík. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið norður Eyrarland, en við Bústaðaveg hugðist ökumaðurinn beygja til austurs og hafnaði þá á hjólinu, sem var hjólað á gönguleið austur yfir gatnamótin. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 10. júní. Kl. 16.58 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, að gatnamótum við Listabraut, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni. Við það hafnaði bifreiðin upp á grashól norðaustan við gatnamótin. Í aðdragandanum er talið að ökumaðurinn hafi verið að forðast árekstur við aðra bifreið, sem var ekið suður Kringlumýrarbraut og beygt til vinstri inn á Listabraut gegn rauðu ljósi. Vitni á vettvangi staðfestu þá frásögn ökumannsins, en hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.59 féllu hjólreiðamaður og farþegi af rafmagnshlaupahjóli á hjólastíg vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík, við göngubrú. Þeir voru fluttir á slysadeild.