Endurnýjanlegir orkugjafar verða sífellt aðgengilegri valkostur fyrir neytendur þegar kemur að vali á bílum. Útlit er fyrir að orkuskiptin munu verða að veruleika á næstu árum og áratugum en það tekur þó tíma að umbylta orkunotkun. Jarðefnaeldsneyti er þrátt fyrir það enn í miklum meirihluta. Samdráttur var í bruna á jarðefnaeldsneyti bílaflotans milli ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Árbók bílgreina 2020.
Heildar jarðefnaeldsneytisnotkun nam 322.250 tonnum, þar af 118.744 tonn af bensíni og 180.858 tonn af dísilolíu. Notkun bensíns dróst saman um 8.360 tonn á milli ára eða 6,6% á meðan notkun á dísilolíu jókst um tæp tvö tonn. Samdráttur var í notkun á vetni og lífdísil á meðan notkun etanóls og metans jókst smávægilega. Notkun bílaflotans á raforku nam 22,6 Gwh og jókst um 56,1% frá 2018 og 150% ef notkunin 2019 er borin saman við notkunina 2017. Wattstundir eru í raun heppilegri mælikvarði en tonn til samanburðar á orkunotkun enda orkuþéttni orkugjafa ólík. Sérstaklega á þetta við um rafmagn, sem einkar örðugt er að mæla í tonnum.
Sé rafmagn reiknað upp sem magn bensíns út frá því hve langt það skilar svipuðu ökutæki má ætla að notkun þess hafi jafngilt um 6.300 tonnum bensíns árið 2019 samanborið við 4.000 tonn árið 2018. Miðað við sömu útreikninga nam notkun endurnýjanlegra orkugjafa 9,6% árið 2019 samanborið við 8,7% árið á undan.
Tengiltvinnbílar enn vinsælasti kostur umhverfisvænni bifreiða
Þá kemur fram í Árbókinni að tengiltvinnbílar halda áfram að vera vinsæll kostur nýrra bifreiðakaupenda og hafa frá árinu 2009 selst alls 7.781 slíkir bílar hér á landi. Rafmagnsbílar hafa einnig verið að sækja í sig veðrið síðastliðin þrjú ár, sala á slíkum bílum jókst hlutfallslega mest af ökutækjum með annan aflgjafa en jarðefnaeldsneyti.
Alls voru 40% fleiri rafbílar seldir hér á landi en árið áður. Árið 2019 voru seldir 1096 rafbílar en árið áður 784. Metanbílar hafa selst í litlu magni en 53 slíkir voru keyptir á síðasta ári. Um 1530 skráðir metanbílar eru hér á landi.