Atvinnuleysi hefur dalað hratt undanfarna mánuði en samkvæmt skrám Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi 6,1% í júlí og hafði þá lækkað úr 12,5% í janúar. Vinnumálastofnun spáir því að það haldi áfram að lækka í ágúst. Bak við þessar tölur er fólk – í janúar voru um 21 þúsund manns að fullu án atvinnu en í þeim hópi hefur nú fækkað um 9000 manns.
Við funduðum á Suðurnesjum þar sem staðan hefur verið þyngst – þar fór atvinnuleysið í ríflega 24% í upphafi árs en er nú farið niður í 11%. Katrín Jakobsdóttir vekur athygli á málinu:
Þessar tölur sýna að viðspyrnan er hafin. Þar hafa vinnumarkaðsaðgerðir stjórnvalda skipt máli en um 5.300 manns hafa verið ráðnir til starfa í gegnum átakið Hefjum störf og um 13 þúsund störf eru skráð í átakinu. Þá hafa hinar almennu aðgerðir; lokunarstyrkir, tekjufallsstyrkir og viðspyrnustyrkir ásamt hlutabótaleiðinni gagnast fólki og fyrirtækjum í landinu.
Allt sýnir þetta að félagslegar áherslur skipta máli í viðbrögðum við efnahagsáföllum – að tryggja atvinnu og afkomu fólks hefur verið leiðarljós stjórnvalda undanfarin misseri og tryggja þannig um leið jöfnuð og velsæld í samfélaginu. Úrræði og aðgerðir stjórnvalda hafa skipt sköpum til að ná þeim markmiðum.