Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað þriggja manna nefnd til að undirbúa rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks og fullorðinna með geðrænan vanda. Er nefndin skipuð samkvæmt ályktun Alþingis frá 12. júní sl.
Þórdís Ingadóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, verður formaður nefndarinnar en auk hennar verða í nefndinni Una Björk Ómarsdóttir, lögfræðingur í forsætisráðuneytinu, og Páll Biering, prófessor emeritus við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands sem er tilnefndur af Landssamtökunum Geðhjálp og Landssamtökunum Þroskahjálp.
Nefndin mun safna saman ítarlegum upplýsingum um starfsemi stofnana fyrir fullorðið fatlað fólk og fullorðna með geðrænan vanda og leggja mat á afmörkun, umfang og markmið rannsóknarinnar. Þá mun nefndin afmarka þær rannsóknarspurningar sem lagðar verða til grundvallar rannsókninni. Þá mun nefndin greina kosti og galla tveggja rannsóknarleiða, annars vegar rannsóknar stjórnsýslunefndar á vegum Stjórnarráðsins og hins vegar rannsóknar rannsóknarnefndar í samræmi við lög um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011.
Nefndin skal skila forsætisráðherra niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. mars 2022. Samkvæmt ályktun Alþingis átti nefndin að skila niðurstöðum sínum 1. desember 2021 en ákveðið var í samráði við Landssamtökin Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp að framlengja skilafrestinn vegna umfangs verkefnisins.