Birna Jenna Jónsdóttir, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings banka er nýr eigandi að embættisbústað biskups Íslands við Bergstaðastræti. Um er að ræða 487 fm einbýlishús sem stendur á fallegum stað í sunnanverðum Þingholtum í Reykjavík.
Samkvæmt frétt ríkisútvarpsins var kaupverðið 380 milljónir króna. Við hrun bankanna bar Birna Jenna vitni fyrir dómi sem starfsmaður og fjallað var um málið hjá Visi.is á sínum tíma. Þar segir:
Skynjaði óánægju vegna mikilla kaupa eigin viðskipta í bankanum
Birna Jenna Jónsdóttir, fyrrverandi starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings, bar vitni fyrir dómi. Hlutverk hennar innan deildarinnar var að vera með viðskiptavakt í skuldabréfum og kvaðst hún ekki hafa þekkt stefnu bankans varðandi kaup og sölu í sjálfum sér.
Saksóknari spurði hana þá hvort hún vissi eitthvað um afskipti yfirmanna af viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi. Birna sagði að Einar Pálmi Sigmundsson, forstöðumaður eigin viðskipta og einn af ákærðu í málinu, hefði fengið símtöl en hún vissi ekki frá hverjum né hversu oft.
Aðspurð hvort hún hafi skynjað að starfsmenn eigin viðskipta hafi verið óánægðir með mikil kaup í Kaupþingi sagði Birna:
„Já, ég skynjaði það undir lokin að það var óánægja með hvað það var keypt mikið. […] Ég sá það á Birni, ég þekki hann vel.”