,,Hitinn verður farinn að dansa kringum 10 stigin á vestanverðu landinu, á morgun“
Hugleiðingar veðurfræðings á Veðurstofu Íslands
Nú er lægð suðvestur af landinu sem dýpkar smám saman og veldur vaxandi vindi hjá okkur í dag og á morgun. Í dag er útlit fyrir austan strekking, þó ber að taka fram að vindur verður yfirleitt hægari á Norðurlandi. Á morgun verður hins vegar allhvass vindur algengur, en viðbúið að slái í storm sunnanlands og má í því sambandi helst nefna syðsta hluta landsins undir Mýrdals- og Eyjafjallajökli og einnig við Öræfajökul. Úrkoma í dag og á morgun verður einkum bundin við sunnan- og austanvert landið, en Norður- og Vesturland sleppa við hana að mestu.
Í nótt var kalt á norðaustanerðu landinu og mældist mest 8,3 stiga frost á Staðarhóli í Aðaldal og 8,2 stiga frost á Brú á Jökuldal.
Nú færist mildari loftmassi yfir landið og sú staðreynd ásamt blöndun í neðstu loftlögum í austanvindinum ætti að tryggja það að næturfrostið sé úr sögunni í bili. Þegar kemur fram á morgundaginn verður hitinn farinn að dansa kringum 10 stigin á vestanverðu landinu.
Vindur fer síðan að minnka á miðvikudag og það styttir upp, þá kveður áðurnefnd lægð okkur og heldur til Bretlandseyja.
Veðurhorfur á landinu
Austan 5-15 m/s, en 13-23 á morgun, hvassast sunnanlands. Rigning með köflum um landið sunnan- og austanvert, en úrkomulítið á Norður- og Vesturlandi. Sums staðar talsverð rigning SA-til annað kvöld. Hiti 3 til 8 stig, en 5 til 10 á morgun.
Spá gerð: 14.10.2019 09:48. Gildir til: 16.10.2019 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Austan 8-13, en 13-18 suðaustanlands. Þurrt að kalla á landinu, en rigning fyrripartinn á Suðausturlandi og Austfjörðum. Hiti 4 til 10 stig, mildast SV-til.
Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15. Rigning SA-lands, skýjað en úrkomulítið norðantil, en léttskýjað á Vesturlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.
Á föstudag og laugardag:
Fremur hæg breytileg átt. Yfirleitt úrkomulaust á landinu og bjart á köflum. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn, en líkur á næturfrosti.
Á sunnudag:
Vaxandi sunnanátt og fer að rigna sunnan og vestanlands. Hlýnar smám saman.
Spá gerð: 14.10.2019 08:42. Gildir til: 21.10.2019 12:00.