Mér brá enn einu sinni við að sjá hvernig forsætisráðherra landsins hagar sér gagnvart þjóðinni, þegar henni datt það í hug að byggja varnargarð í kvelli fyrir einkafyrirtæki sem hefur skilað eigendum sínum rúmlega tólf milljörðum í arð á tíu árum.
Sami ráðherra afhenti þessu fyrirtæki um milljarð í Covid, fyrirtæki sem hafði ekkert við þá fjármuni að gera. Þarna liggja áherslurnar, þarna er þörfin brýnust að hennar mati. ,,Við getum ekki beðið eftir réttlæti og leiðréttingum á kjörum“ sagði hún. Átti hún þá við að fyrirtæki í milljarðagróða gætu ekki beðið? Hennar kjósendur (sem nánast allir eru hættir að bíða og styðja annan flokk) bíða ennþá eftir að hún geri eitthvað af viti fyrir þá!
Það tók nokkra klukkutíma að samþykkja milljarða framkvæmdir sem eiga að verja einkafyrirtæki og orkuver sem bæði mala gull alla daga. Hver segir að það geti ekki alveg eins gosið hinu megin við varnarmúrinn? Skjálftarnir voru öflugastir þar, megnið af tímanum. Auðvitað geta erlendir gestir sem heimsækja þessa staði daglega andað rólegra í þessu falska öryggi, því það getur gosið hvar sem er.
Á sama tíma og löngu áður, eru landar okkar víðsvegar um land í lífshættu vegna þess að yfir þeim hanga snjóhengjur í fjöllum sem hafa fallið niður í formi snjóflóða og þar er ekkert gert. Í þeim tilfellum eru ekki samin lög um varnargarða fyrir byggðir þar sem heilu fjölskyldurnar og bæjarfélögin eru í bráðri hættu!
Ég nefni bara Flateyri t.d. þar er fólk í hættu hvern veturinn á fætur öðrum vegna margra ára (tuga) tafa á framkvæmdum og hvað með t.d. Súðavíkurhlíð, þar sem snjóflóð eru daglega að vetri til og heilu björgin hrinja yfir veginn á sumrin. Það er hundrað prósent öruggt að snjóflóð koma á hverju ári en ekkert víst að það gjósi í nágrenni þessara varnargarða.
Nei, vefjum moldríkt einkafyrirtæki inn í bómull sem er mannlaust hálfan sólarhringinn frekar en að verja landsmenn fyrir því sem vitað er að gerist. Já og skattleggjum alla landsmenn alveg sérstaklega með nýjum skatti til að framkvæma vitleysuna! Þetta er þankagangurinn, eftir höfðinu dansa limirnir!