Fréttastofa Stöðvar tvö birti í gærkvöldi myndband af Gunnari Bergmann, syni Jóns Gunnarssonar, þar sem hann var tekinn upp af fölskum fjárfesti. Í samtalinu segir Gunnar að faðir hans hafi tekið fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi gegn því að fá að fara inn í matvælaráðuneytið til þess að leyfa hvalveiðar á ný.
Gunnar sagði í samtalinu að þeir tryðu því að það myndi gera það að verkum að fylgi Sjáflstæðisflokksins myndi skila sér aftur til flokksins ef hvalveiðar yrðu leyfðar á ný.
Stjórnvöld og feðgarnir Jón Gunnarsson og Gunnar Jónsson, hafa blandað ríkislögreglustjóra í málið og farið fram á rannsókn. Þá vaknar sú spurning, hvað á að rannsaka og hverja? Á einum fjölmiðli er málinu líkt við Samherjamálið í Namibíu.
Ekki er vitað hvaðan myndbandið kemur en vísbendingar hafa verið uppi um að fyrirtækið Black Cube hafi lagt gildru fyrir Gunnar og tekið upp samtal við hann.
Heimildin hafði áður greint frá helstu atriðum myndbandsins en birti það ekki. Þá greindi Heimildin frá því í gær að Bjarni Benediktsson hefði tekið Jón út úr verkefnum tengdum leyfisveitingum varðandi hvalveiðar sama dag og miðillinn spurðist fyrir um málið, það er fimmtudaginn 7. nóvember.
Enn er á huldu hver stóð að og fjármagnaði myndbandið en Ríkislögreglustjóri sagðist rannsaka það mál í gær.