Íslendingar lepja dauðann úr skel þegar kaupmáttur fólks er skoðaður hér á landi. Afborganir fasteignalána hafa hækkað um allt að 94% sem er oftast stærsti liðurinn í heimilisbókhaldi þeirra sem eru með fasteignalán.
Nú nálgst jólin og við höfum öll val um það hvernig við ætlum að komast í gegnum þá kaupmanna- og neysluhátíð. Ég myndi t.d. ráðleggja öðrum að gera það sama og ég hef ákveðið. Ég ætlaði að kaupa húsgögn fyrir jól en vegna verðbólgu og hækkunar á þeirri vöru hef ég ákveðið að bíða með það þangað til krónan styrkist og verðbólgan minnkar, það gerist einhverntíman og sófasettið getur alveg beðið eftir því eins og ég.
Mjög líklega mun ég kaupa sófasettið í gegnum erlenda síðu þar sem ég fæ það á miklu betra verði. Þá hef ég verslað allar gjafavörur í jólagjafir, á erlendum síðum og fæ oft þrjá til fjóra hluti erlendis á sama verði og einn hér á Íslandi. Sleppið að kaupa gjafavöru á Íslandi, því þar er mesta okrið!
Öll nauðsynjavara er margfalt dýrari hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og enn dýrari miðað við þau lönd sem við berum okkur sjaldnar við.
Kaup og rekstur bifreiða er einnig margfalt dýrari hér eins og nánast allt annað. Við erum með hæsta eldsneytis og tryggingaverð í heimi og búum við endalaust okur kaupmanna og þjónustufyrirtækja.
Þá hefur matvara margfaldast í verði og er ekki í neinu samræmi við heimsmarkaðsverð á matvöru. Ég hef t.d. tekið eftir því að matvöruverslanir hækka sérstaklega álagningu á vörum sem neytendavakt ASÍ vaktar ekki. Lítið dæmi er erlend pizza sem ég hef keypt annað slagið, fyrir mánuði síðan kostaði hún 498 krónur en kostar núna 998 krónur. Kaupmenn eru í eðli sínu sumir hverjir siðblindir glæpamenn og vita hvernig best er að vera undir radarnum!
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og tæpir þrír mánuðir til jóla, það er því góður tími núna að panta jólagjafirnar á netinu og spara þannig tugi eða hundruði þúsunda, allt eftir því hversu margar gjafir eru gefnar. Ég var að klára mín innkaup og sparaði 65% með því að sniðganga íslenskt okur!