„Með því að halda þjóðarsjúkrahúsinu í fjársvelti er verið að grafa undan opinbera heilbrigðiskerfinu“
Það er með öllu óásættanlegt að enn og aftur þurfi að grípa til harkalegs niðurskurðar á Landspítalanum og grafa þannig undan heilbrigðiskerfinu, að mati BSRB. Stjórnvöld verða að grípa til aðgerða til að leiðrétta stöðu spítalans og draga úr því gríðarlega álagi sem verið hefur á starfsfólk hans.
Forstjóri Landspítalans hefur sagt að spítalann vanti um 3 milljarða króna til að viðhalda óbreyttum rekstri og því þurfi bæði að fækka starfsfólki og lækka laun. Staða spítalans var grafalvarleg fyrir, skortur á starfsfólki og álag á þá sem þar starfa gríðarlegt.
„Með því að halda þjóðarsjúkrahúsinu í fjársvelti er verið að grafa undan opinbera heilbrigðiskerfinu. Það er í beinni andstöðu við vilja þjóðarinnar, sem sýndi þann vilja meðal annars með þátttöku í undirskrifasöfnun þar sem um 85 þúsund manns kröfðust stóraukinna framlaga til heilbrigðismála,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Afleiðingarnar af niðurskurði á Landspítalanum eru alvarlegar fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Þrátt fyrir góðan vilja öflugs hóps starfsmanna er útilokað annað en að fjársveltið sem spítalinn hefur mátt búa við skerði þá þjónustu sem hægt er að veita og að heilbrigðiskerfi landsmanna verði þar með verra.
Starfsfólk Landspítalans á öllum sviðum hefur búið við gríðarlegt álag um langt skeið og þurft að hlaupa hraðar til að sinna nauðsynlegri þjónustu. Það hefur haft alvarlegar afleiðingar. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi, nýliðun gengur illa og veikindi eru algengari en eðlilegt getur talist.
Eðlilegra að draga úr álagi og bæta kjör
„Vandi spítalans á undanförnum árum hefur ekki síst verið skortur á heilbrigðisstarfsfólki, sér í lagi sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum. Aukið álag og launaskerðingar verða ekki til að bæta þann vanda. Eðlilegra væri að leita allra leiða til að draga úr álagi og bæta kjörin til að fjölga í þessum mikilvægu fagstéttum,“ segir Sandra B. Franks, stjórnarmaður í BSRB og formaður Sjúkraliðafélags Íslands.
BSRB varaði við því í umsögn um fjárlagafrumvarpið að ef ekki yrði brugðist við halla á rekstri Landspítalans myndi það kalla á niðurskurð. Við þessari ábendingu var ekki brugðist og afleiðingarnar eru að koma í ljós.
Nú eru kjarasamningar opinberra starfsmanna lausir, þar með talið stórra hópa innan BSRB sem starfa á Landspítalanum. Það er dapurt innlegg inn í þær kjaraviðræður að skera enn meira niður hjá þjóðarsjúkrahúsinu, fækka starfsfólki og auka enn frekar álagið á þá starfsmenn sem eftir eru.
Stjórn BSRB ályktaði um stöðu Landspítalans á fundi sínum þann 13. desember 2019. Fréttin birtist fyrst á vef BSRB Ályktunina má finna hér.
https://gamli.frettatiminn.is/2019/12/13/hvenaer-verdur-thyfid-sott-og-byrjad-ad-byggja-upp-vorar-funu-stodir/