Uppsetningu viðvörunar- og upplýsingaskilta í Reynisfjöru er lokið. Skiltin eru hluti af vinnu samráðshóps sem stofnaður var um öryggismál í Reynisfjöru í sumar. Í samráðshópnum voru fulltrúar landeigenda, Lögreglunnar á Suðurlandi, Ferðamálastofu, Landsbjargar, Vegagerðarinnar og Kötlu Geopark. Kolofon annaðist hönnun og útfærslu skiltanna og gaf vinnu sína.
Auk skiltanna var komið fyrir 300 metra langri keðju meðfram bílastæðinu sem leiðir fólk eftir göngustíg og framhjá skiltunum. Löggæslumyndavélum var komið fyrir á mastri í fjörukambinum. Myndum þaðan er streymt á varðstofu lögreglunnar á Suðurlandi á Selfossi.
Áhersla á miðlun upplýsinga
Við gerð skiltanna var haft að leiðarljósi að skilti eru til upplýsingamiðlunar, þar eiga upplýsingar að vera aðgengilegar og áhugaverðar, útskýra hvað er hægt að gera á staðnum en ekki bara boð og bönn þó að á öllum skiltunum séu vissulega varúðarmerkingar. Sett voru upp eitt ljósaskilti, þrjú stór upplýsingaskilti og sex leiðbeinandi skilti. Eitt upplýsingaskiltanna er um hætturnar vegna öldunnar og er það við hlið ljósaskiltisins sem er beintengt ölduspárkerfi Vegagerðarinnar.
Fjörunni skipt í svæði eftir aðstæðum
Reynisfjara er aldrei lokuð en henni er skipt í svæði eftir aðstæðum. Þegar gult ljós logar á fólk ekki að fara inná gula svæðið og þegar rautt ljós logar á fólk ekki að fara inná rauða svæðið eða ekki lengra en að ljósaskiltinu. Gestir eiga þá að halda sig uppi á fjörukambinum en sjónarspilið þaðan er magnað á að horfa úr öruggri fjarlægð. Öryggisráðstafanir í Reynisfjöru eru einungis með upplýsingamiðlun. Ekki er mönnuð gæsla á staðnum, sem væri svo gott næsta skref, þó ekki væri nema á þeim dögum sem eru rauðar aðstæður. Til að fjármagna slíka gæslu þurfa landeigendur að taka sig saman og innheimta aðstöðugjald af gestum.
Góðar merkingar forsenda fyrir skýra upplýsingagjöf
Góðar merkingar er ein af aðal forsendum þess að hafa skýra upplýsingagjöf. Með nýju ljósaskiltunum, í bland við kort og skilaboða á þremur tungumálum, er vonast til að gestir Reynisfjöru átti sig á þeim hættum sem leynast á svæðinu og hagi ferðum sínum eftir því. Skilti, sama hversu góð þau eru, stoppa ekki neinn sem ætlar sér niður í flæðarmál sama hvað — en þau eru nauðsynleg til að bægja sem flestum á örugga staði til að njóta Reynisfjöru í allri sinni dýrð.