Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur hefur verið birt ákæra fyrir manndráp, en hún er talin hafa orðið manni að bana á heimili sínu að Bátavogi í Reykjavík þann 15. september.
Í ákæru frá héraðssaksóknara segir að Dagbjört hafi svipt manninn lífi með margþættu ofbeldi í rúman sólarhring, þar á meðal með höggum, spörkum og þrýstingi á andlit, klof, bol, handleggi og fótleggi. Þá hafi hún tekið manninn hálstaki og beygt og snúið upp á fingur hans. Við þessar aðfarir hlaut maðurinn margvíslega áverka á höfði og líkama sem drógu hann til dauða en rúv birti fyrst frétt um ákæruna.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði sem birtur var í síðustu viku sagði að ásetningur konunnar sé að mati lögreglu ótvíræður, meðal annars vegna hljóð- og myndbandspptaka, tímalengd árásarinnar og þeirra umfangsmiklu áverka sem maðurinn hlaut.
„Um er að ræða ofsafengna og grimmilega atlögu að lífi brotaþola með því að valda honum þjáningum og veitast að honum með margítrekuðu ofbeldi sem stóð yfir í einn og hálfan sólarhring,“ segir í úrskurðinum.