Mikil þurrkatíð hefur verið að undanförnu á Norður- og Austurlandi og því er ástæða til að vara fólk sérstaklega við því að fara með eld í skógum og öðru gróðurlendi. Kveikt var í tré í Hallormsstaðaskógi í síðustu viku en til allrar hamingju breiddist eldurinn ekki út. Skógrækt ríkissins fjallaði um málið.
Að sögn Þórs Þorfinnssonar, skógarvarðar á Austurlandi, rigndi fáeina klukkutíma á Héraði á laugardaginn var en þá hafði ekki rignt í nokkrar vikur svo heitið gæti, raunar lengur en starfsfólkið á Hallormsstað gat rifjað upp. Svipaða sögu er að segja víðar um Austur- og Norðurland. Gras er ekki tekið að sölna enn að ráði en á því gæti farið að bera fljótlega ef ekki rignir.
Í ljósi þurrkatíðarinnar er ástæða til að hafa uppi varnaðarorð um eldhættu í skógi. Tilefnið er ekki síst atvik sem varð í síðustu viku við frisbígolfvöllinn á Hallormsstað þar sem kveikt var í litlu lerkitré. Þór segir að þetta hefði vissulega getað verið á verri stað þar sem meiri hætta var á því að eldurinn breiddist út. Ekki sé þó á slíkt að treysta því dálítill vindur geti feykt neistum í nálægan gróður og dugað til að kveikja stórt bál sem ekki verður við ráðið.
Förum varlega með eld og kveikjum helst ekki eld á víðavangi. Best er að notast eingöngu við tilbúin eldstæði eða eldaskála sem víða er að finna á útivistarsvæðum í skógum landsins en ekki útbúa eldstæði á eigin spýtur í skóginum eða á öðrum gróðurríkum svæðum.
Benda má á fróðleik um varnir gegn gróðureldum á vefnum gróðureldar.is. Einnig hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun útbúið efni sem hluta af eldvarnarverkefninu Eldklár. Við orlofshús og íbúðarhús á gróðurríkum svæðum er rétt að huga vel að því að hávaxinn gróður nái ekki alveg að húsum heldur sé nokkurra metra autt svæði í kring, góðar aðkomuleiðir fyrir slökkvibíla og búnaður til að bregðast við nýkviknuðum eldi svo sem eldklöppur, slökkvitæki, eldvarnarteppi, vatnsfötur og -slöngur.
Þá getur fleira kveikt gróðurelda en eldspýtur, kveikjarar, sígarettur og þess háttar. Neistar frá bílum og vélum, neistar frá verkfærum á borð við slípirokka, jafnvel tómar flöskur sem fleygt er á víðavangi geta verkað sem stækkunargler og kveikt eld. Góð umgengni og aðgæsla er því það sem gagnast best gegn hættunni á gróðureldum.
Á meðfylgjandi myndum sést tréð sem kveikt var í við frisbígolfvöllinn sem er í miðjum Hallormsstaðaskógi, skammt frá tjaldsvæðunum í Atlavík og hinum fræga Guttormslundi. Ekki þarf að fjölyrða um afleiðingarnar ef eldurinn hefði magnast upp og dreifst.
- Nánar um eldvarnir í gróðurlendi
- Vefurinn gróðureldar.is
- Forvarnarverkefnið Eldklár
- Plakat um eldhættu til uppsetningar í skógum (litur)
- Plakat um eldhættu til uppsetningar í skógum (svarthvítt)
- Plakat um eldhættu til uppsetningar í skógum (f. prentsmiðju)
Texti: Pétur Halldórsson