Fíkniefnum er smyglað á marga vegu inn til landsins en ein af þeim leiðum sem er talin býsna algeng og sú hættulegasta er að fólk flytur mikið magn af sterku Kókaíni innvortis, einnig eru dæmi um að fólk sé að flytja MDMA og önnur sterk efni á þennan hátt. Það getur tekið allmarga daga fyrir aðila að skila þessum efnum frá sér og fylgir þessu gríðarleg áhætta.
Við höfum handtekið aðila sem höfðu innbyrt hátt í kíló af sterku og nánast hreinu Kókaíni og flutt innvortis til landsins. Oftast eru þeir aðilar sem fara þessa leið svokölluð burðardýr og eru þá jafnvel að smygla þessu inn fyrir einhvern annan. Oft eru þetta erlendir aðilar sem hafa engin tengsl við landið en því miður er það líka oft þannig að ungt fólk sem hefur komið sér í skuldir vegna fíkniefnaneyslu er neytt til að fara þessa leið til að greiða fíkniefnaskuldir.
Dæmi eru um að aðilar hafi setið í fangaklefum í allt að 17 daga til skila af sér efnum sem þeir hafa innbyrt. Oft er það þannig að hver pakkning sem gleypt er getur vigtað allt að 10-15 grömm og það þarf ekki að spyrja að leikslokum komi gat á slíka pakkningu innvortis í burðardýrinu. En slíkt magn af hreinu kókaíni getur klárlega leitt til dauða.
Erlendar mæðgur sitja í gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla kókaíni til landsins fyrr í þessum mánuði. Þær voru að koma frá Belgíu og tollgæslan stöðvaði þær við komuna til landsins í Flugstöðinni vegna gruns um að þær væru með fíkniefni. Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum segir að þær hafi verið handteknar og reyndust þær vera með fíkniefni innvortis, önnur með sex pakkningar og hin með fimm pakkningar. Samtals var um að ræða tæp 500 grömm af efninu og voru mæðgurnar úrskurðaðar í gæsluvarðhald.
Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefni, mansal og/eða vændi hvetjum við þig til að koma þeim á framfæri við lögreglu. Fullri nafnleynd er heitið.Talhólfið og netfangið eru vöktuð allan sólarhringinn sem tryggir að upplýsingarnar berast fljótt og vel til viðkomandi lögregluembætta.
Upplýsinga-/fíkniefnasíminn 800 5005: Þegar hringt er í upplýsingaasímann svarar talhólf. Þar getur þú lesið inn þær upplýsingar sem þú vilt koma á framfæri við lögreglu. Hægt er að gefa upplýsingarnar upp nafnlaust. Ef lögreglu er heimilt að hafa samband eða þú óskar þess þarf að taka það fram og gefa upplýsingar um nafn, símanúmer eða netfang. Einnig má hafa samband í gegnum netfangið info@rls.is. Einnig er hægt að senda okkur skilaboð í gegnum samfélagsmiðla.