Þjófar voru víða á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu um helgina, en tólf innbrot voru tilkynnt til lögreglu, sex í fyrirtæki og sex í bifreiðar. Þá var lögregla kölluð til í allnokkur skipti vegna þjófnaða í verslunun en þar höfðu óprúttnir aðilar stolið fatnaði, snyrtivörum og matvælum.
Fimm líkamsárásir eru til rannsóknar eftir helgina, þar af tvær alvarlegar, og þá var farið í fjögur útköll vegna heimilisofbeldis. Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu.
Útköll vegna fólks sem var til ama af ýmsum öðrum ástæðum voru að venju fjölmörg, en þar kom m.a. við sögu stuðningsmaður ensks knattspyrnuliðs sem missti stjórn á skapi sínu þegar lið hans fékk háðuglega útreið á laugardag. Maðurinn var að horfa á leikinn í sjónvarpi og reiddist mjög, með tilheyrandi hljóðum, þegar fór að síga á ógæfuhliðina og mörkunum rigndi í vitlaust mark. Við þetta hringdu nágrannar stuðningsmannsins í lögreglu enda óttuðust þeir hið versta. Þegar hún kom á staðinn hafði ástandið róast og er vonandi að maðurinn nái að halda stillingu sinni næst þegar illa gengur hjá hans mönnum á fótboltavellinum.