Hagsmunasamtök heimilanna ítreka kröfur sínar frá því í mars á þessu ári um að sett verði þak á verðtryggingu lána heimilanna sem miðist við verðbólgumarkmið stjórnvalda og seðlabankans.
Þá var því svarað með því að benda á að ekki væri útlit fyrir mikla verðbólgu og slík aðgerð gæti grafið undan trausti á því að seðlabankanum takist það markmið sitt að halda verðbólgu skefjum. Þrátt fyrir þær yfirlýsingar hefur verðbólga hækkað um helming síðan þá og greiningaraðilar spá nú verðbólgu upp undir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs í árslok.
Hvað sem trausti á því að seðlabankanum takist að halda verðbólgu í skefjum líður þá liggur einfaldlega fyrir að honum hefur ekki tekist það eins og lofað var. Þannig eru öll fyrrnefnd rök gegn þaki á verðtryggingu fallin um sig sjálf.
Ástandið sem núna blasir við var þá algjörlega ófyrirséð og fordæmalaust en allir vona að það verði tímabundið og aðstæður færist aftur í fyrra horf sem fyrst.
Það yrði því algjörlega óforsvaranlegt ef áhrifa þessa ástands á verðtryggð lán heimilanna gætti um ókomna tíð, því þegar verðtryggðu lánin hafa einu sinni hækkað þá lækka þau ekki aftur.
Það væri algjörlega út í hött að bankar og aðrir lánveitendur gætu hagnast um langa framtíð vegna verðbólguskots sem er bæði tímabundið og vegna fordæmalausrar stöðu um allan heim.
Í þessu felst einmitt einn stærsti galli verðtryggingarinnar. Lántakendur súpa seyðið um alla framtíð vegna tímabundinnar hækkunnar verðbólgu, á meðan lánveitendur hagnast um langa framtíð á þessari tímabundnu hækkun.
Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar að nota það gullna tækifæri sem nú er vegna lágra vaxta, til að efna það loforð ríkisstjórnarinnar að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna.
Aldrei áður hafa verið jafn kjörnar aðstæður og nú til að afnema verðtryggingu á lánum heimilanna og því óforsvaranlegt að grípa ekki það tækifæri þegar það gefst þannig að íslenskir neytendur geti í framtíðinni búið við sambærilegt lánaumhverfi og neytendur í öðrum nágrannalöndum.
Það sem skiptir öllu núna er að sjá til þess að heimilin lendi ekki í vandræðum vegna Covid-19 og að EKKI EIN EINASTA FJÖLSKYLDA missi heimili sitt, þrátt fyrir tekjumissi. Liður í því er að sjá til þess að skuldir hækki ekki úr hófi fram og til þess þarf helst að afnema verðtrygginguna á lánum heimilanna, eða að minnsta kosti setja þak á hana. Jafnframt þarf að tryggja að tímabundnar frystingar lána meðan ástandið gengur yfir leiði ekki til enn hærri greiðslubyrði að því loknu.