Barn verður skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum
Breytingar á barnalögum um skipta búsetu barns, sem taka gildi í byrjun árs 2022, gera ráð fyrir að foreldrar geti samið um skipta búsetu barns við tilteknar aðstæður.
Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að foreldrar geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins. Hægt verður að gera samning um skipta búsetu barns og óska staðfestingar sýslumanns eða gera dómsátt um skipta búsetu barns hjá dómstólum. Ekki er gert ráð fyrir að sýslumaður eða dómstóll geti úrskurðað eða dæmt skipta búsetu barns þegar foreldra greinir á.
Forsenda fyrir skiptri búsetu barns er jafnframt að heimili barnsins séu nálægt og að barn sé í einum skóla eða leikskóla og eigi greiðan aðgang að tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum án þess að fjarlægðir standa í veg fyrir því.
Skipt búseta mun fela í sér að allar ákvarðanir varðandi barn, bæði meiri háttar ákvarðanir og afgerandi ákvarðanir um daglegt líf barns verða teknar sameiginlega af báðum foreldrum.
Lögin taka gildi eftir áramót en þeir foreldrar sem vilja skrá skipta búsetu barns geta nú þegar hafið ferlið með því að panta viðtalstíma. Viðtal foreldra er sameiginlegt og fer fram hjá sýslumanni í því umdæmi sem barnið býr. Allar nánari upplýsingar vegna skiptrar búsetu barna og pöntun viðtalstíma er að finna á vefsvæði sýslumanna á island.is/skipt-buseta-barns
Foreldrar barns í skiptri búsetu verða alfarið að koma sér saman um fyrirkomulag búsetu barnsins á báðum heimilum hverju sinni og hvernig skiptingu framfærslukostnaðar og annarra útgjalda er háttað. Ekki verður hægt að óska eftir staðfestingu samnings eða úrskurði um umgengni eða úrskurði um utanlandsferð barns. Þá verður ekki hægt að óska eftir staðfestingu samnings eða úrskurði sýslumanns um meðlag eða sérstök útgjöld. Við staðfestingu sýslumanns á samningi um skipta búsetu fellur niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kann að liggja fyrir um umgengni eða meðlag.
Árétta skal að barn mun áfram eiga eitt lögheimili, en barn verður skráð í þjóðskrá með búsetu hjá báðum foreldrum. Annað heimilið er lögheimili og hitt búsetuheimili og skulu foreldrar komast að samkomulagi um hjá hvoru þeirra barn eigi lögheimili og hjá hvoru þeirra barn eigi búsetuheimili.
Þegar um skipta búsetu barns er að ræða geta báðir foreldrar átt rétt á opinberum stuðningi, s.s. barnabótum og vaxtabótum.