Ólafur Darri Ólafsson er líklega þekktasti leikari landsins og hefur gert garðinn frægan bæði innan- sem utanlands. Hann hefur leikið bæði í fjölmörgum kvikmyndum og þáttaröðum með mörgum af þekktustu leikurum heims.
Hann hefur einnig talað inn á þekktar teiknimyndir og ljáði ,,The Archer“ rödd sína í brúðuþáttunum: The Dark Crystal: Age of Resistance sem sló rækilega í gegn.
Ég hafði samband við Ólaf Darra eða Darra eins og flestir kalla hann og spurði hvort ég gæti ekki fengið að spyrja hann nokkurra spurninga og fara aðeins yfir ferilinn. Darri sem ég upplifi sem mjög hógværan og rólegan mann sló strax á létta strengi og sagði það hið minnsta mál.
Jarðbundinn og kærleiksríkur eru kannski tvö orð til að lýsa Ólaf Darra og góðmennskan skín af honum. Þrátt fyrir mikla velgengni í leiklistaheiminum fann ég enga upphafningu eða stórt egó hjá honum sem frægum leikara eins og hann er orðinn í dag. Heldur er hann bara eins og venjulegur Íslendingur með fæturnar á jörðinni.
En hver er Ólafur Darri í kjarnann og hvaðan kemur hann? Kynnumst honum örlítið betur.
Ólafur Darri Ólafsson fæddist í Bandaríkjunum 3. mars 1973. Hann bjó þar fyrstu fjögur ár ævinnar en eftir það er hann meira og minna alinn upp í Breiðholtinu. Hann gekk alla sína ,,hundstíð“ í Ölduselsskóla eins og hann orðar það á sinn skemmtilega hátt og fór síðan í MR. Hann á þrjú systkini en því miður er fátt um ömmur og afa segir hann, Sigrún amma hans var sú eina sem lifði þegar hann kom til sögunnar.
Aðspurður um leiklistina segir hann að hann hafi lengi verið efins um það að verða leikari og var eiginlega dreginn í inntökuprófið af vinum sínum og meira að segja eftir að hann var byrjaður í skólanum var hann fullur af efa um hvort þetta hefði verið rétta skrefið. En á endanum kom sú stund að hann sannfærðist að þetta væri málið.
,,Ég man bara ekki alveg hvað kom til. Kannski voru það bara mín yndislegu skólasystkini í Leiklistarskólanum sem komu fyrir mig vitinu. Ég man alla vega að ég hafði verið að mæta illa og eitthvert þeirra benti mér á að það væru ansi margir sem væru til í að vera í mínum sporum, að fá að vera í skólanum, það er jú alltaf mjög mikið af fólki sem kemur í inntökuprófin og kemst ekki inn. Allavega tókst mér einhvern veginn að þroskast smá og henda mér af stað í þetta.“
Þegar talið berst að þáttaröðunum ,,Ráðherrann“ sem hafa slegið heldur betur í gegn og hvernig það var að vera í hlutverki manns með geðhvarfasýki segir hann að kvikmyndagerð sé svo mikil hópíþrótt og að maður komist ekki úr sporunum nema að vera með gott efni í höndunum og gott fólk í kringum sig sem er tilbúið að leggja það á sig sem þarf til að gera hlutina vel.
,,Það voru mikil forréttindi og mjög gaman að fá að leika Benedikt en það er kúnst að fjalla um þetta efni. Geðhvarfasýki er svo skrýtin skepna og ég veit að við öll sem komum að þáttunum vildum síst af öllu auka á fordóma og stigmað sem fylgir sjúkdómnum. Mitt helsta markmið var að segja sögu manneskjunnar Benedikts á eins manneskjulegan og nærgöngulan hátt og mér var unnt því sjúkdómurinn er ekki það eina sem skilgreinir hann frekar en aðra sem glíma við geðsjúkdóma.
Lag Bob Dylans – I Contain Multitudes er mér oft innblástur og ég vona innilega að mér hafi tekist að sýna margar hliðar Benedikts. Ég skal alveg viðurkenna að þegar kom að því að leika þunglyndið þá gat verið erfitt að verða Darri aftur, sérstaklega af því að Darri sjálfur er svolítið of hrifinn af blúsnum og þá dettur mér í hug lína frá Bruce Springsteen – You fall in love with lonely, you end up that way. En ég á gott fólk og hund heima hjá mér sem hjálpa mér að koma aftur til baka og líta upp til að sjá sólina.“
Þegar talið berst að heimsfrægum leikurum og kvikmyndum eins og The Meg, The Last Witch Hunter, A Walk Among the Tomstones, The Secret life of Walter Mitty, Contraband, Fantastic Beasts: The Crimes of Grindelwald og mörgum erlendum sjónvarpsþáttum eins og ,,Nos4a2″ þáttaröðunum svo eitthvað sé nefnt og hvort hann hafi búist við svona mikilli velgengni segir hann að sín upplifun sé að flesta leikara langi bara til að leika og að honum langaði bara til að vinna, gera margt og allt.
,,Ég man ennþá hvað ég var glaður að fá hlutverk í Perlur og svín sem var fyrsta bíómyndin sem ég lék í, sama með fyrsta hlutverkið í leikhúsinu. Sú tilfinning er alltaf til staðar, hún fer ekkert í burtu eða minnkar. Sem listamaður getur maður aldrei gert ráð fyrir velgengni.
Svo margt í lífinu er bundið við það að vera á réttum stað, á réttum tíma, hreinlega að vera heppinn. Auðvitað skiptir miklu máli að vera vinnusamur og að standa sig vel ef maður er svo heppinn að fá tækifæri. Mæta á réttum tíma, kunna textann sinn og labba ekki á húsgögnin er stundum brandari sem við notum í leikhúsinu en hann á fullan rétt á sér.
Þegar margir eru um hituna að þá er eins gott að maður standi við sitt þegar á hólminn er komið. En nei, mig hefði aldrei dreymt um að gera helminginn af því sem ég hef fengið að gera og svo sannarlega aldrei út í hinum stóra heimi. Ég hef verið mjög heppinn!“
Þegar ég spyr hann hvað hafi komið honum á kortið í leiklistarheiminum segist hann vona að smátt og smátt hafi hann komist á kortið.
,,Ég var svo heppinn að fá að vinna mikið og þannig takast hægt og rólega að ná á dýptina. Þegar ég var í Leiklistarskólanum var Pétur Einarsson heitinn, leikari og leikstjóri, að kenna mér og hann talaði um að ferill manns sem listamanns færi fyrst og fremst fram í hænuskrefum. Svo kæmu risastökk inn á milli. Ég tengi mjög sterkt við það. Þannig gerir margt smátt, eitt stórt.
Leikhúsið kenndi mér svo margt, t.d. það að taka þátt í stofnun Vesturports og samstarfið við félaga mína þar var ómetanlegur skóli. Samstarf mitt við Baltasar, sem hófst eiginlega bara í upphafi ferils míns í 101 Reykjavík, fæddi sífellt af sér meira og Balti fór að treysta mér fyrir stærri hlutverkum, það var ómetanlegt. En Ófærð stendur líklega alltaf uppúr sem íslenska verkefnið mitt sem einnig varð alþjóðlegt. Mjög margir hafa horft á þá þáttaröð.“
En hvernig er að upplifa að fólk um allan heim sé að horfa á leiklist hans? Blaðamaður hitti nefnilega ástralska fjölskyldu ekki fyrir löngu og sjónvarpsþættirnir Ófærð eru mjög vinsælir þar.
En er hann og Ben Stiller góðir vinir? Það hefur verið talað mikið um að það hefði myndast góð vinátta þeirra á milli?
,,Ég og Ben höfum haldið góðu sambandi síðan að við unnum saman fyrst og fjölskyldur okkar hafa hist. Hann hefur ráðið mig aftur og aftur í hlutverk hjá sér og svo reynum við að hittast öðru hverju. Mér þykir óskaplega vænt um Ben og það sem hann hefur gert fyrir mig og minn feril. Hann er virkilega drengur góður. Hann elskar líka Ísland og er alltaf að leita að ástæðu til að koma aftur hingað að vinna.“
En er einhver munur á að leika í Hollywood eða á Íslandi?
,,Ég myndi segja að helsti munurinn væri fjármagnið. Það er allt stærra og meira í umsvifum úti. En grunnurinn er alltaf sá sami hvar sem maður er að vinna; harðduglegt, metnaðarfullt og gott fólk sem er að vinna báðum megin við myndavélina. Mér finnst við á Íslandi hins vegar aftur og aftur ná að sýna hversu vel er hægt að gera þrátt fyrir að vera með minna á milli handanna. Mér finnst við gera það á öllum sviðum listarinnar, í leiklist, danslist, tónlist, myndlist, ritlist og svo framvegis.“
En hvort er áhugaverðara að leika á Íslandi eða erlendis með heimsfrægum leikurum?
,,Það er alltaf best að leika á íslensku finnst mér. Það er mun erfiðara að leika á ensku, sérstaklega gamanleik. Og svo er bara íslensk list á svo háu plani. Við erum með allt sem þarf þannig að ég hef alltaf passað mig að koma heim öðru hverju og leika hér. En nú finn ég að leikhúsið er farið að toga ansi hressilega í mig og þá þarf ég aldeilis að fara að vinna fyrir kaupinu mínu því mér finnst leikhúsið miklu meira krefjandi en kvikmyndaleikur.“
Hver er uppáhalds leikarinn hans og afhverju?
,,Minn íslenski uppáhaldsleikari er einmitt hann Erlendur úr Mýrinni, hann Ingvar Sigurðsson. Hann hefur verið mér góð fyrirmynd í svo mörgu. Til dæmis kenndi hann mér að vera ekki hræddur við að vera lélegur. Vá, ok þetta hljómar ekki vel, hahaha en það sem ég meina er, að meðan verið er að æfa er hann er svo óhræddur við að hlusta á tilfinninguna og fylgja henni í stað þess að hugsa of mikið um útkomuna. Hann hendir sér út í laugina og er ekki að hugsa bara um sig og sína útkomu.
Ég elska að fylgjast með Ingvari. En það eru auðvitað mjög margir leikarar innanlands og utan sem mér finnst frábærir. Í fersku minni get ég t.d. nefnt Anítu Bríem, það var mjög gaman og gott að leika með henni í Ráðherranum og smíða með henni samband hjónanna í þáttunum og svo fékk ég nýverið að leika í fyrsta sinn á móti Heru Hilmars sem ég hef lengi haft mætur á. Við Hera vorum að leika saman í sjónvarpsseríu fyrir Símann sem heitir Reykjavík Fusion.
Það er svo skemmtilegt að fá að leika á móti góðum leikurum, svona vellíðunartilfinning sem ég finn djúpt ofan í maga. Manni finnst þá svolítið eins og maður ætti að vera að borga með sér í vinnunni. Svo er að koma fram mjög spennandi kynslóð af ungum leikurum sem ég hlakka til að fá tækifæri til að vinna með.“
En eru þessir frægu leikarar eins og Liam Neeson sem hann lék á móti í ,,A Walk Among the Tomstones“, jarðbundnir þrátt fyrir svona mikla velgengni eða eru einhverjir sem láta hafa mikið fyrir sér og líta stórt á sig?
,,Mín reynsla af “frægum” leikurum hefur verið mjög góð. Liam er t.d. rosalega hjartahlýr, mér fannst svolítið eins og ég hefði alltaf þekkt hann. Flestir hafa þurft að leggja mjög hart að sér til að komast þangað sem þeir eru. Fólk sem hefur þurft að gera það er yfirleitt fullt af þakklæti og veit hversu heppið það er að vera á þeim stað að fá frábær hlutverk og vel borgað fyrir að vinna vinnuna sína. Það hefur alla vega verið mín reynsla.“
Hvað er erfiðasta hlutverk sem Darri hefur tekið að sér?
,,Andlega hugsa ég að það sé Benedikt í Ráðherranum. Kannski af því að mér fannst erfitt að leika manneskju í aðstæðum sem maður þekkir ekki beint á eigin skinni. Stundum er líka erfitt að þurfa að dvelja í fólki sem er að eða hefur framið skelfilega glæpi, eins og t.d. í Nos4a2. En það sem er erfitt er líka stundum það sem er skemmtilegast og mest gefandi. Það er ansi magnað hvað maður fær mikið til baka eftir að hafa tekist á við erfið leikverkefni, stundum er eins og maður nái að hreinsa út alls kyns uppsafnað dót sem hefur hreiðrað um sig í manni.“
Er einhver leikari sem þú hefur ekki leikið með í mynd eða þætti sem þú myndir vilja hlutverk á móti?
,,Það eru svo margir leikarar sem maður hefur litið upp til sem gaman væri að vinna með að það er eiginlega ómögulegt að svara þessari spurningu. En mig myndi langa mjög mikið til að vinna með Coen bræðrum t.d.“
En hvert er uppáhalds hlutverkið sem hann hefur tekið að sér?
,,Það er nú yfirleitt þannig að það hlutverk sem maður er að leika í hvert sinn er í uppáhaldi. Og sum eru uppáhalds af því að þau kenndu manni eitthvað. Mér þótti afskaplega vænt um að leika Lenna með Hilmari Guðjónssyni í Mýs og menn um árið og að leika Hamlet. Jafnframt þykir mér alltaf vænt um Bödda í Roklandi sem var fyrsta aðalhlutverkið mitt í kvikmynd og Andra í Ófærð.
Og hlutverkið mitt í The Secret Life of Walter Mitty var svo epískt að það verður seint toppað. Að fá að leika sauðdrukkinn þyrluflugmann í ástarsorg sem er að syngja Don´t You Want Me Baby í karaoke og lendir svo í slagsmálum er ekki hlutverk sem manni er boðið á hverjum degi. Ok ég finn að ég gæti haldið lengi áfram.“
En tekur leiklistin mikið á?
,,Listin er alvöru vinna. Ef maður vill gera vel þá verður maður að leggja hart að sér. Ég þurfti reynslu, mikla reynslu til að geta eitthvað í listinni og hægt og rólega fannst mér ég ná vopnum mínum. Lykillinn að því var að vinna mikið og fjölbreytt. Og það er gott að muna að heimurinn skuldar manni ekki neitt, það á enginn rétt á neinu.“
Finnst þér vera nægur stuðningur við leiklist hér á Íslandi fjárhagslega?
,,Mér finnst ágætlega stutt við listir hér á Íslandi en auðvitað má alltaf gera betur. Við listamenn erum svo vön að lifa á litlu að við erum stundum helst til nægjusöm. Það sem mér finnst miður er hvað það hefur stundum verið erfitt að sannfæra stjórnvöld og annað fólk í landinu um hvað þetta er í raun „góður bisness“. Það eru til rannsóknir sem sýna svart á hvítu að hver króna sem fer í styrki til listsköpunar kemur þreföld til baka inn í hagkerfið. Við megum heldur ekki gleyma því að við tölum tungumál sem er pínulítið á heimsmælikvarða.
Ef við ætlum að varðveita tungumálið okkar þá skiptir listin og ekki síst leiklistin miklu máli í því samhengi. Eins og staðan er í dag taka aðrar evrópuþjóðir þátt í því og gera okkur kleyft að framleiða stóran hluta af því íslenska sjónvarpsefni sem verið er að framleiða. Velviljinn erlendis frá er til staðar og það væri fyrra að þiggja ekki þá aðstoð en það er enginn að fara að styrkja okkur erlendis frá ef við getum ekki sýnt fram á styrki innanlands. Svo ég tali nú ekki um allt það sem ekki er hægt að meta í gröfum eða súluritum um hvernig listin auðgar lífið, nærir, þroskar og sameinar.“
Er enginn möguleiki að þriðja serían að Ráðherrann verði gerð? Þótt endirinn í annarri þáttaröð hafi allavega sýnt að svo verði ekki?
,,Það gæti t.d. verið mjög gaman að segja sögu Steinunnar sem forsætisráðherra og setja Benedikt í aukahlutverk. Ég væri mikið til í að skoða það. Mér fannst samstarfið við Jónas Margeir og Birki Blæ sem voru höfundarnir og svo við leikstjórana Arnór og Katrínu frábært og það væri alltaf gaman að fá að vinna með þeim aftur.“
Hver eru áhugamál þín fyrir utan leiklist og hvað gerir þú til að slaka á milli vinnu? Uppáhalds matur ?
,,Ég vinn mikið þannig að þegar ég er ekki að vinna þá reyni ég að vera með fjölskyldunni eins mikið og ég get og vinum. Mér finnst mjög gott að elda til að slaka á. Ég geri nokkra rétti sem eru vinsælir hjá fjölskyldumeðlimum, t.d. þykir mér alltaf jafn gott að vita hvað yngri dóttur minni finnst spaghettíið mitt með kjötsósu gott.
Ég veit eiginlega fátt skemmtilegara en að sitja í matarboði í góðra vina hópi eða í faðmi fjölskyldunnar. Ég er mikill eldhúspartý maður, á ekki auðvelt með mikið margmenni eða hávaða og langar eiginlega alltaf að hafa skelina mína nálægt. Og ég er vonlaus í grunnu spjalli, mig langar alltaf á dýptina enda er stjörnumerkið mitt fiskur.“
En heldur Darri að hann fái einhvern tímann nóg af leiklistinni og hætti?
,,Aldrei að segja aldrei en ég stefni á það að reyna að vera það fjárhagslega sjálfstæður að geta í raun ákveðið sjálfur hvenær ég vil hætta. En ég á mér margar fyrirmyndir eins og t.d. Arnar Jónsson sem er einhver sá hressasti og yndislegasti listamaður sem ég hef kynnst og virðist hafa óslökkvandi áhuga á listinni. Hann er góð fyrirmynd.
En í dag er ég ennþá spenntur fyrir að leika. Ég hugsa samt að þó að ég myndi hætta að leika þá myndi ég ekki hætta að skapa. Ég yrði að skrifa eða framleiða eða gera eitthvað sem tengist listinni.“
Er eitthvað sem mætti betur fara í leiklistaheiminum á Íslandi og erlendis?
En hvað er framundan hér á Íslandi og erlendis?
En andlega séð? Tekur það mikið á að starfa sem leikari og í svona mikilli vinnu sem ferill hans sýnir?
,,Það getur tekið á að leika erfið hlutverk. Maður þarf að kunna að kúpla sig út þegar maður kemur heim úr vinnunni. Því miður kemur það fyrir að fólk leitar í áfengi eða vímugjafa til að hjálpa sér að „komast út“ en það er ekki gæfuleg aðferð. Ég á góða að sem ég get leitað til og yfirleitt tekst mér að slaka mig út úr því sem ég er að gera. Það hefur alveg komið fyrir að ég hafi verið farinn að upplifa þunglyndistilfinningar eða aðra vanlíðan sem persónan sem ég er að leika er að upplifa.
Það hefur þá aðallega gerst þegar ég hef ekki verið á heimavelli, einhversstaðar fjarri fjölskyldu og heimilinu. Fjarveran frá fjölskyldu og vinum hefur einnig oft verið erfið og ég hef upplifað einmanaleika eftir langan tíma erlendis vegna vinnu. Þá reynir maður að hanga með vinnufélögum í svipaðri stöðu og þannig hefur maður orðið meðlimur í mörgum kvikmynda- „fjölskyldum” og stundum höldum við áfram að vera í sambandi. Það er alltaf góð tilfinning þegar böndin slitna ekki en bara lengjast.“
Fáum við framhald af kvikmyndinni Napóleonsskjölunum? Verða þær kannski þrjár?
Gislihvanndal@frettatiminn.is