Er kynskipt réttlæti í þágu barna?
Rannsóknir sýna að réttarkerfið tekur mjög ólíkt á afbrotum fólks eftir því hvort þau eru framin af körlum eða konum.
Konur eru mun síður ákærðar en karlar fyrir sambærileg brot og hljóta mun styttri dóma komi yfir höfuð til ákæru. Þetta á sér skýringar í rótgrónum og úreltum viðhorfum samfélagsins til bæði karla og kvenna.
Þessi úreltu viðhorf eru gjarna notuð til að kynda undir tortryggni í garð feðra um leið og dregin er upp helgimynd af mæðrum. Þessi viðhorf stangast á við rannsóknir sem sýna að börn eru ekkert síður beitt ofbeldi af mæðrum sínum en feðrum. Viðhorf sem þessi múra börn sem beitt eru ofbeldi af mæðrum sínum inn í ofbeldissambandinu með vantrú, þögn og skömm. Fjallað er um málið á vefnum foreldrajafrétti.
Ein tegund alvarlegs ofbeldis gagnvart börnum – og foreldrum – er það þegar annað foreldrið, meðvitað eða ómeðvitað, eitrar samband barns við hitt foreldri sitt. Það skaðar börn sem eru þolendur foreldraútilokunar þegar þessi tegund ofbeldis er dregin niður í svað kynjafordóma. Þegar látið er eins um sé að ræða stríð á milli tálmunarmæðra og vafasamra feðra. Það er fjarri sanni.
Hið rétta er að bæði kynin beita þessu ofbeldi í svipuðum mæli og á síðasta ári leituðu fleiri útilokaðar mæður til Foreldrajafnréttis en útilokaðir feður. Þeim er enginn greiði gerður með jafn fordómafullri nálgun og raun ber vitni.
Upp á síðkastið hefur mikil umræða átt sér stað í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum í tengslum við dómsmál þar sem móðir ruddist inn á heimili föður ásamt sambýlismanni sínum og efndi þar til átaka. Málið er afar áhugavert með tilliti til þeirrar tilhneigingar réttarkerfisins að horfa í gegnum fingur sér gagnvart ofbeldi kvenna en taka hart á körlum.
Til að skora kynjafordóma sína á hólm getur verið gott að skipta um kyn á persónum. Ef við gerum það við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2018, lítur málið svona út:
Foreldrar tíu ára barns hafa aldrei búið saman en barnið hefur dvalið nokkuð jafnt hjá báðum foreldrum. Faðirinn er með lögheimilið en það fer mjög eftir duttlungum hans hvernig umgengni er háttað.
Nýlega kom hann í veg fyrir að barnið færi með móður sinni og systkinum til útlanda í umgengnistíma móður. Þegar móðir kærði brot á umgengni til sýslumanns túlkaði faðirinn það sem árás á sig.
Samskiptin versna.
Móðir lætur í ljós áhyggjur af því að barnið sé að fara óbólusett í fjarlægan heimshluta og ýjar að því að hún gefi ekki leyfi sitt fyrir þessu ferðalagi barnsins.
Faðir á að sækja barnið „um miðjan dag“ en mætir kl. 13 ásamt sambýliskonu sinni sem jafnframt er lögmaður hans. Sambýliskonan hefur (sem lögmaður föður) fengið lögregluna til að vera til staðar vegna ótta um að barnið verði ekki afhent.
Að lögregla verði við slíkri beiðni er óvenjulegt. Þegar faðir bankar upp á og vill fá barnið afhent vísar móðir í umgengnissamning sem segir að skiptin skuli fara fram „um miðjan dag“ og segir að barnið verði ekki afhent fyrr en kl. 15 eins og um sé samið.
Samkvæmt vitnisburði lögreglu verður faðir þá „alveg snar“, lemur kröftuglega á dyrnar og öskrar að lögreglan sé á staðnum. Þegar móðir opnar aftur til að sýna föður/lögreglu umgengnissamninginn ryðst hann inn á heimilið ásamt sambýliskonu sinni, sem er með svarta beltið í karate. Aðilum ber ekki saman um atburðarrás næstu sekúndna en ljóst er að til átaka hefur komið á milli húsráðenda og innrásaraðilana.
Eftir stutt átök finnur faðirinn barnið sem hafði falið sig meðan á þessu stóð og fylgst óttaslegið með, dregur það með sér á sokkaleistunum út úr húsinu og að bifreið sinni hraðar en það gat gengið. Á meðan öskrar barnið, „nei, nei, nei“ og hrópar á hjálp (vitnisburður lögreglu og vitnis sem var gestkomandi í næsta húsi).
Lögreglumaðurinn telur að um ein mínúta hafi liðið frá því faðirinn braust inn á heimilið og þar til hann kom út með barnið í eftirdragi. Eftir að lögreglumaður kynnir sér úrskurð sýslumanns sem móðirin framvísar fyrirskipar lögreglumaðurinn að barnið skuli fara aftur inn til móðurinnar til þess að hægt sé að róa það og kveðja. Eftir þennan örlagaríka dag hefur móðirin ekki fengið að hitta barnið sitt aftur.
Svo fer að hún kærir föðurinn fyrir innrás á heimili sitt og árás á sig og manninn sinn. Kæra móður er felld niður en kæra föður fyrir ofbeldi gegn honum í áflogunum sem sköpuðust þegar hann braust inn á heimilið fær brautargengi. Réttað er í málinu og eiginmaður móðurinnar er sýknaður en móðirin fundin sek um ofbeldi gagnvart barnsföður sínum og brot gagnvart barni þeirra sem varð vitni að ofbeldi hennar gegn föður barnsins.
Ólíkt tekið á afbrotum eftir kyni
Hefðu kynin verið þau sem að ofan er lýst má telja líklegt að reiði hefði gripið um sig í samfélaginu. Jafnvel ásakanir um feðraveldi sem stingi ofbeldi gegn konum undir stól en veiti brautargengi ákærumálum gegn konum.
En af hverju var fallið frá ákæru á hendur þeim sem brýtur sér með ofbeldi leið inn á heimili þar sem barn var í umgengni og rífur það út á sokkaleistunum hrópandi „nei, nei, nei“?
Oft eru kærur látnar falla niður sem þykja ólíklegar til sakfellingar. Það á ekki við í þessu tilfelli. Fjöldi dóma hefur fallið yfir mönnum sem ryðjast með valdi inn á heimili barnsmæðra sinna. Því mátti ljóst vera að konan og sambýlismaður hennar yrðu dæmd sek um húsbrot og fyrir að efna til alvarlegra átaka að barni viðstöddu.
Það að kæran var látin niður falla hindraði framgang þessa hluta málsins í réttarkerfinu. Þarna tók lögreglan sér það vald að stöðva framgang réttvísinnar. Af hverju? Af því gerandinn var kona? Eða hafði lögreglan aðrar ástæður?
Athyglisverð eru þessi orð í dómi Héraðsdóms: „Hins vegar verður að hafa í huga að brotaþoli réðst inn á heimili hans og gerðist þannig sek um refsivert brot gegn ákærða, sbr. 231. gr. almennra hegningarlaga [þ.e. húsbrot].“ Engu að síður var konan ekki ákærð. Þetta eru mjög óvenjuleg ummæli í því ljósi og má túlka sem skilaboð dómsvaldsins til ákæruvaldsins.
Landsréttur – Barnið hefur orðið fyrir með tálmun sem nú hefur staðið í tæp 4 ár
Þetta tiltekna mál bíður nú meðferðar í Landsrétti. Hvort Landsréttur mun snúa dómi Héraðsdóms við eða staðfesta hann kemur brátt í ljós.
Landsréttur mun hins vegar ekki taka til meðferðar þá mismunun ákæruvaldsins að fella niður ákæru um húsbrot og árás á húsráðendur en halda kæru innbrotsaðilans til streitu.
Landsréttur mun ekki heldur taka afstöðu til þess ofbeldis sem barnið hefur orðið fyrir með tálmun sem nú hefur staðið í tæp 4 ár.
Það væri óskandi að Landsréttur þyrfti að taka allt málið til heildarendurskoðunar, því sama hver niðurstaðan úr áfrýjun á dómi Héraðsdósm verður, þá hefur barn orðið fyrir skaða sem allt kapp þarf að leggja á að bæta.
Þetta barn á rétt á því að eiga gott samband við báða foreldra sína. Sá réttur barnsins er áréttaður í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hvern dag, sem ekki er verið að vinna að því, er verið að brjóta á þessu barni.
Ákall til dómstóla
Til eru viðurkennd og gagnreynd greiningarpróf sem greina á milli þess hvort barn er beitt foreldraútilokun eða öðru alvarlegu ofbeldi sem þá getur hugsanlega réttlætt tálmun á umgengni. Það er gríðarlega brýnt að barnaverndarkerfið og dómstólar sæki sér þessa þekkingu og noti hana til að greina hvað raunverulega er á seyði þegar umgengni er tálmuð og ásakanir ganga á víxl.
Við myndum aldrei sætta okkur við að heilbrigðiskerfið nennti ekki að verða sér út um þekkingu til að greina sjúkdóma barna rétt. Af hverju sættum við okkur við að barnaverndarkerfið og dómstólar afli sér ekki þekkingar til að greina á milli foreldraútilokunar og annars alvarlegs ofbeldis?
Mannréttindadómstóll Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur á undanförnum árum dæmt ríki skaðabótaskyld fyrir að vernda ekki samband barns og foreldris í málum sem þessum. Ljóst er af þeim dómum að íslensk yfirvöld eru margsek um vanrækslu gagnvart rétti barna til að njóta beggja foreldra sinna. Það er þörf á vakningu.
Á meðan ákæruvaldið og dómstólar útdeila réttlæti eftir kyni og skirrast við að afla sér þekkingar á alvarlegu ofbeldi gagnvart börnum verður dómstóll götunnar hinn raunverulegi Hæstiréttur. Það mun ekki færa okkur líf án ofbeldis.
(Öllum konum og körlum sem það vilja er frjálst að skrifa undir þessa grein og þar með ákall til barnaverndaryfirvalda og dómskerfisins um að tryggja börnum rétt til að eiga gott samband við báða foreldra sína. Vinsamlegast tilkynnið um undirskrift í athugasemdum við þessa færslu eða í skilaboðum á Foreldrajafnrétti.) Greinin var fyrst birt árið 2020.
Dofri Hermannsson
Sigríður Guðlaugsdóttir
Brjánn Jónsson
Ingveldur Stefánsdóttir
Heimir Hilmarsson
Ester Magnúsdóttir
Hilmar Garðars Þorsteinsson
Unnur Þorsteinsdóttir
Rúnar Gregory Muccio
Júlíana Kjartansdóttir
https://www.facebook.com/Foreldrajafnretti/photos/a.10150246531384001/10157269027884001/?type=3&theater