Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hitti á fundi í heilbrigðisráðuneytinu í vikunni fulltrúa notenda geðheilbrigðisþjónustu. Þetta er í annað sinn sem slíkur samráðsfundur er haldinn en áformað er að halda þá tvisvar á ári. Verið er að ráða fulltrúa notenda inn í geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Á samráðsfundinn að þessu sinni mættu einnig fulltrúar frá geðheilsuteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sögðu meðal annars frá ráðningu á fulltrúum notenda inn í austur– og vesturteymi heilsugæslunnar. Ráðningaferli stendur yfir og kom fram að úr mörgum góðum umsóknum sé að moða. Ráðning notendafulltrúa inn í teymin byggist á fordæmum frá nágrannaþjóðum þar sem þetta fyrirkomulag hefur reynst vel, bæði gagnvart þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og þeim sem veita hana.
Uppbygging geðheilsuteyma á landsvísu er stórt skref til aukinnar og bættrar geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn og hefur verið eitt af áherslumálum heilbrigðisráðherra. Geðheilsuteymi í einhverri mynd hafa verið sett á laggirnar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Heilbrigðisráðherra efnir í næstu viku til vinnufundar notenda og fagfólks þar sem fjallað verður um uppbyggingu árangursríkra geðheilsuteyma á landsvísu: „Markmiðið er að tryggja gæði þjónustunnar um allt land og bæta aðgengi fólks að þjónustunni, óháð búsetu“ segir Svandís. Fjallað verður um vinnulag og verkferla, samvinnu heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu og samvinnu notenda og þjónustuveitenda. Auk þessa verður rætt um leiðir til að meta og mæla árangurinn af þjónustu geðheilsuteymanna, því megintilgangurinn er að tryggja að notendur njóti gagnreyndrar meðferðar sem skilar raunverulegum árangri.
Mikilvægt að byggja brýr og draga úr fordómum
Svandís sagði á fundinum að hún legði ríka áherslu á samráð við notendur sem væri mikilvægt og nauðsynlegt, til að mynda þegar unnið væri að stefnumótun. Hún hafi því ákveðið að efna til vinnustofu í byrjun næsta árs með notendum og fagfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu; „þar sem markmiðið er að byggja brýr milli notenda og fagfólks og finna leiðir til draga úr fordómum, byggja upp betri samvinnu allra sem að málinu koma og veita fólki betri þjónustu.“