Mannbjörg varð þegar strandveiðibátur sökk norðvestur af Garðskaga á þriðja tímanum í nótt. Skipstjóri annars strandveiðibáts sendi neyðarkall laust fyrir klukkan þrjú þess efnis að bátur væri að sökkva skammt frá honum.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var umsvifalaust kölluð út á hæsta forgangi ásamt sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurnesjum. Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein var sent á staðinn.
Þeim sem var um borð í sökkvandi bátnum tókst að komast í björgunargalla og skipstjóri hins bátsins bjargaði honum úr sjónum.
Hann sigldi með manninn til Sandgerðis þar sem sjúkrabíll beið hans, enda kaldur eftir veruna í sjónum. Báturinn marar í hálfu kafi og sjóbjörgunarsveitir freista þess að draga hann til hafnar.
Í tilkynningu segir að Landhelgisgæslan vilji koma á framfæri sérstökum þökkum til skipstjóra strandveiðibátsins sem sýndi mikið snarræði við björgun mannsins og einnig til annarra viðbragðaðila sem brugðust við með skjótum og fumlausum hætti.
Áhöfnin á Hannesi Þ Hafstein