Jón Gunnar Ottósson, fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, er látinn, 72 ára að aldri.
Jón Gunnar gegndi forstjórastöðunni frá árinu 1994 og starfaði við sitt fag hjá ríkinu á einn eða annan hátt frá því að hann varði doktorsritgerð um samskipti skordýra og burkna frá Háskólanum í Exeter á Englandi árið 1981.
Jón Gunnar fæddist á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1970. Hann lauk B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og sótti eftir það nám í vistfræði skordýra og plantna við Exeter og lauk þaðan doktorsprófi sem fyrr segir.
Stundakennari var hann við gagnfræðaskólann á Varmá í Mosfellssveit árin 1972 til ’73, starfsmaður Náttúrufræðistofnunar sumarið 1973 og Líffræðistofnunar HÍ árin 1973 til ’76. Enn fremur kenndi hann við Menntaskólann við Hamrahlíð og Fjölbrautaskólann í Breiðholti auk þess að vera stundakennari við HÍ árin 1980 til ’83.
Jón Gunnar var sérfræðingur á rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá frá ársbyrjun 1982 og forstöðumaður þar fram til 1990. Þá varð hann sérfræðingur hjá umhverfisráðuneytinu 1. ágúst 1990 auk þess að eiga sæti í náttúruverndarráði árin 1983 til ’87 og sitja í ýmsum ráðum og nefndum tengdum náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu.
Eftir að Jón Gunnar lét af störfum árið 2020 sat hann í stjórn Vina íslenskrar náttúru. Jón Gunnar kvæntist Sigríði Halldórsdóttur Laxness í júní 1973. Börn þeirra eru Auður, Rannveig og Ari Klængur. Þau Sigríður skildu.
Í ágúst 1990 kvæntist hann síðari konu sinni, Margréti Frímannsdóttur, alþingismanni og síðar forstöðumanni fangelsisins á LitlaHrauni.
Stjúpbörn Jóns Gunnars og börn Margrétar af fyrra hjónabandi eru Áslaug Hanna og Frímann Birgir Baldursbörn. Foreldrar Jóns Gunnars voru Ottó Jónsson, menntaskólakennari í Reykjavík, og Rannveig Jónsdóttir, fyrri kona hans.