Fjölskylda Magnúsar Kristins Magnússonar náði síðast sambandi við hann 10. september. Þá var hann á leiðinni á flugvöllinn, á leiðinni heim að þau héldu.
Ekkert hefur spurst til hins 36 ára gamla Magnúsar Kristins Magnússonar, sem átti að vera á leið heim frá Dóminíska lýðveldinu 10. september. Hann fór þangað 3. september og heyrði fjölskylda hans síðast í honum þann 10., að því er þau héldu á flugvellinum á leið heim. Síðar hefur komið í ljós að hann var inni í leigubíl, sem systir hans Rannveig Karlsdóttir segir að hafi verið furðu dýr. Fjallað var um málið á vef ríkisútvarpsins.
Rannveig hefur óskað eftir aðstoð á Facebook, og hafa nokkrir gefið sig á tal við hana. Þar á meðal fólk frá Dóminíska lýðveldinu sem er búsett hér á landi. Fjölskyldan hefur einnig haft samband við lögreglu hér á landi og borgaraþjónustuna. Íslenska lögreglan hefur haft samband við lögregluna úti og sent henni myndir og upplýsingar um Magnús Kristinn. Þá hefur verið grennslast fyrir um hann á sjúkrahúsum og víðar, án árangurs.
Rannveig segir á Facebook að Magnús Kristinn sé fæddur 1987, um 185 sentímetrar á hæð, grann- og íþróttamannslega vaxinn. Hann er með gráblá augu, dökkhærður, mjög snöggklipptur og með dögga skeggrót.
Þeir sem telja sig geta aðstoðað við leitina að Magnúsi er bent á að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000, eða við Rannveigu, systur Magnúsar, í síma 660-4313.