Styrking minnihlutaverndar í veiðifélögum, aðkoma Hafrannsóknastofnunar að gerð arðskráa og afnám milligöngu hins opinbera um greiðslu kostnaðar af arðskrármati eru áherslur í frumvarpi um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi.
Í frumvarpinu er að finna tillögur að þremur meginbreytingum á núgildandi lögum:
- Að minnihlutavernd í veiðifélögum verði styrkt með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Breytingin hefur það í för með sér að enginn einn aðili geti drottnað yfir málefnum veiðifélaga. Með breytingunni verður hámark atkvæða sem sami aðili eða tengdir aðilar geta farið með á félagsfundi, í krafti eignarhalds, mest 30 prósent.
- Að skipan arðskrárnefndar verði breytt. Lagt er til að Hafrannsóknarstofnun geri ábendingu um fulltrúa í nefndina í stað þess að óskað verði tilnefningu Hæstaréttar. Þetta er gert til að auka fiskfræðilega þekkingu á nefndinni og er í samræmi við ábendingar starfshóps um gerð arðskrá í veiðivötnum frá árinu 2015. Veiðifélögum er skylt að gera arðskrá, sem sýnir hluta af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut fasteigna, lögaðila eða einstaklinga sem eiga veiðirétt í vatni á félagssvæði, en arðskrárnefndin sker úr um ágreining um arðskrá með matsgerð.
- Að óþörf milliganga hins opinbera um greiðslu kostnaðar af arðskrármati verði felld niður. Með þessu er lagt til að veiðifélög greiði arðskrárnefnd beint fyrir vinnu sína í stað þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið greiði fulltrúum í nefndinni og endurkrefji síðan veiðifélög.
Umræða