Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri þrotabúsins EK1923, þarf að endurgeiða þrotabúinu alls 100 milljónir. Um er að ræða alla þá þóknun sem hann hefur ráðstafað til síns sjálfs af eignum búsins. Þetta kemur fram í ákvörðun héraðsdóms sem mbl.is greinir frá en þar er tekið fram að ákvörðunin sé ekki kæranleg til æðra dómstigs. Áður hefur verið fjallað um málið t.d. á Vísi.is en erjur Sveins Andra og Skúla sem kenndur er við Subway hafa staðið um árabil. Skúli hefur m.a. sagt að lögmaðurinn ,,hafi hreinlega ryksugað peninga úr búinu til sín“ og jafnframt efaðist hann um að tímarnir sem skrifaðir voru við vinnu vegna þrotabúisins gætu staðist.
Í ákvörðuninni segir að ekki hafi legið fyrir heimild kröfuhafa fyrir ráðstöfun á greiðslum til skiptastjóra beri honum að endurgreiða alla upphæðina til búsins og skal endurgreiðsla Sveins Andra fara fram, ekki síðar en 22. nóvember n.k.
Kröfuhafar fóru fram á að Sveinn Andri endurgreiddi allan kostnaðinn sem hann hefði greitt sjálfum sér og jafnframt var farið fram á að héraðsdómur myndi víkja Sveini Andra úr stafi sem skiptastjóra fyrir félagið.
Héraðsdómur segir vinnubrögð Sveins Andra aðfinnsluverð þar sem kröfuhafar hafi ekki verið upplýstir um áætlaðan skiptakostnað eða tímagjald skiptastjóra fyrr en eftir á. Sveinn Andri rukkaði 40 þúsund krónur á klukkustund fyrir skiptastörf sín stærstan hluta málsins, auk virðisaukaskatts. Kröfuhafar hafi ekki getað gert sér grein fyrir hversu tímafrekur eða kostnaðarsamur málareksturinn yrði. Héraðsdómur taldi ekki rétt að víkja Sveini Andra frá, þar sem vinnan við skiptin væri nú á lokametrum.