,,Arðurinn margfaldast og völd og áhrif fyrirtækisins sömuleiðis“
Hugleiðing um samfélagslega ábyrgð
Það er sennilega að bera í bakkafullan lækinn að hlaða í pistil um Samherjamálið, en samt! Þegar þjóðin er að meðtaka afhjúpanir af spillingu, mútum og níðingshætti gagnvart fátækri þjóð standa eftir grundvallarspurningar um sjávarútveginn, okkar sameiginlegu auðlind, ábyrgð okkar innanlands og erlendis. Fyrst vil ég nefna að þolendurnir í þessu máli eru að sjálfsögðu namibíska þjóðin. Þeirra heilbrigði, menntun og lífsgæði eru fórnarkostnaðurinn, því megum við ekki gleyma.
Hins vegar beinir þetta líka kastljósinu að okkar kerfi, völdum stórfyrirtækja í sjávarútvegi hérna heima og áhrifum þeirra á stórt og smátt. Það hefur verið siður stórfyrirtækja sem vilja gera sig gildandi í hugum fólks að stunda „samfélagslega ábyrgð. Falleg orð í ársskýrslum, stuðningur til íþróttafélaga, stuðningur við bæjarhátíðir og ef eitthvað bjátar á í samfélaginu kemur fyrirtækið sterkt inn.
Fyrir örlæti fyrirtækjanna upplifir fólk sig í þakkarskuld en á sama tíma er það undir fyrirtækinu komið hvaða íþróttafélög geta boðið uppá félagsstarf, hvaða tækjum heilsugæslan er búin og hvort almenningur fái að njóta tónlistar. Stundum snýst þetta um hvort heilt byggðarlag lifir eða deyr. Samfélagsleg ábyrgð er góð og gild en skynsamlegra er að fyrirtæki greiði skatta og skyldur (og gjöld af auðlindum) í sameiginlega sjóði og svo er það á ábyrgð okkar lýðræðislega kerfis að úthluta gæðunum í þau verkefni sem eru samfélagslega mikilvæg. Samfélög mega ekki vera háð geðþóttaákvörðunum stórfyrirtækja.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa gríðarlega sterka stöðu og hún mun styrkjast verulega næstu ár vegna tæknibreytinga. Í fyrirtæki á félagssvæði Drífanda í Vestmannaeyjum voru eitt sinn 45-48 verkamenn á 12 tíma vöktum í uppsjávarfiskvinnslu. Nú þarf aðeins 12 á hvora vakt. Afköstin hafa hins vegar farið úr því að vera 160 tonn á sólarhring upp í 350 tonn. Afköstin aukast verulega en launakostnaður minnkar að sama skapi. Arðurinn margfaldast og völd og áhrif fyrirtækisins sömuleiðis. Þetta er að gerast núna. Eftir stendur verkefnið að launafólk njóti arðsins og samfélagið allt en úthlutun gæðanna verði ekki á valdi einstakra fyrirtækja eftir hentisemi stjórnenda.
Kveðja,
Drífa